Tvær eyjar í hitabeltinu

Hvar er fátækt fólk best komið? spyr John Rawls. Berum saman Jamaíku og Singapúr. Bæði löndin eru eyjar í hitabeltinu og fyrrverandi nýlendur Breta.. Jamaíka öðlaðist sjálfstæði árið 1962, en Singapúr var nauðugt rekið úr Malasíu árið 1965. Þá voru þjóðartekjur á mann örlitlu hærri á Jamaíku en í Singapúr. En atvinnulíf óx hratt næstu áratugi í Singapúr og lítið sem ekkert á Jamaíku. Árið 2017 var svo komið, að þjóðartekjur á mann voru tíu sinnum hærri í Singapúr en á Jamaíka. Tífaldar!

singaporeSkýringin á velgengni Singapúr er einföld. Hagkerfið er eitt hið frjálsasta í heimi. Jafnframt stuðla siðir og venjur íbúanna, sem langflestir eru kínverskrar ættar, að veraldlegri velgengni. Lögð er áhersla á fjölskyldugildi, iðjusemi, sparsemi og hagnýta menntun. Það er eins og íbúarnir hafi allir tileinkað sér boðskapinn í frægri bók Samuels Smiles, Hjálpaðu þér sjálfur (sem kom út á íslensku 1892 og hafði holl áhrif á margt framgjarnt æskufólk). Að sama skapi eru til menningarlegar skýringar á gengisleysi Jamaíkubúa. Þar var stundað þrælahald fram á nítjándu öld, en við það hljóp óáran í mannfólkið. Þjóðskipulagið einkennist af sundurleitni og óróa, en ekki sömu samleitni, samheldni og sjálfsaga og í Singapúr.

Aðalatriðið er þó, að á Jamaíku er hagkerfið ófrjálst. Sósíalistar hrepptu völd á áttunda áratug og héldu þeim lengi. Þeir hnepptu íbúana í ósýnilega skriffinnskufjötra. Afar erfitt er að stofna og reka fyrirtæki á þessu eylandi. Fjármagn er illa skilgreint og lítt hreyfanlegt. Frumkvöðlar eru lítils metnir. Talið er, að rösklega helmingur af hugsanlegum arði þeirra hverfi í fyrirhöfn við að fylgja flóknum skattareglum. Kostnaður við að skrá fasteignir á Jamaíka er að meðaltali um 13,5% af virði þeirra, en í Bandaríkjunum er sambærileg tala 0,5%. Í Singapúr er fjármagn hins vegar kvikt og vex eðlilega. Þar er fátækt því orðin undantekning, ekki regla. Á Jamaíku er þessu öfugt farið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband