19.1.2019 | 10:16
Faðir velferðarríkisins
Vel færi á því í íslenskri tungu að kalla það, sem Þjóðverjar nefna Wohlfartsstaat og Bretar welfare state, farsældarríki, en nafnið velferðarríki er líklega orðið hér rótfast, þótt af því sé erlendur keimur. Átt er við ríki, þar sem margvíslegur bótaréttur hefur tekið við af hefðbundinni fátækraframfærslu. En hvað sem króginn er kallaður, leikur enginn vafi á um faðernið. Þýski járnkanslarinn Otto von Bismarck er jafnan talinn faðir velferðarríkisins.
Bismarck varð kanslari hins sameinaða þýska keisaraveldis í janúar 1871 og tók þegar til við að treysta ríkisheildina og berja niður þá, sem hann taldi ógna völdum sínum. Fyrst sneri hann sér að kaþólsku kirkjunni, sem laut að hans dómi erlendu valdi, leysti upp Kristmunkaregluna, sleit stjórnmálasambandi við Páfagarð, hóf eftirlit með trúarbragðafræðslu í skólum, skyldaði fólk til að ganga í borgaralegt hjónaband og varpaði jafnvel nokkrum óhlýðnum biskupum í fangelsi. Kirkjan tók snarplega á móti, en eftir margra ára þóf náði járnkanslarinn samkomulagi við hana.
Næst sneri Bismarck sér að sósíalistum, en þýski jafnaðarmannaflokkurinn hafði verið stofnaður 1875, og hlaut hann 9% atkvæða í kosningum til þýska Ríkisdagsins 1877. Notfærði Bismarck sér, að árið 1878 var tvisvar reynt að ráða keisarann af dögum, og takmarkaði með lögum ýmsa starfsemi flokksins. Voru þau lög í gildi næstu tólf ár. En jafnframt reyndi Bismarck að kippa stoðunum undan jafnaðarmönnum með því að taka sjálfur upp ýmis baráttumál þeirra. Árið 1883 voru sjúkratryggingar teknar upp í Þýskalandi og árið 1884 slysatryggingar. Elli- og örorkutryggingar voru teknar upp 1889, ári áður en Bismarck hrökklaðist frá völdum. Fóru mörg önnur ríki næstu áratugi að fordæmi Þjóðverja.
Ekki varð hinum grálynda kanslara að þeirri von sinni, að í velferðarríkinu þryti jafnaðarmenn erindi. Þeir uxu upp í að verða um skeið stærsti flokkur Þýskalands. Og afkvæmi hans, velferðarríkið, óx líka ört á tuttugustu öld. Er það líklega víða orðið ósjálfbært, og rætist þá vísuorðið: Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook