Þingmönnum útskúfað 1939

Af sérstöku tilefni var rifjað upp á dögunum að eftir árás Rauða hersins á Finnland í árslok 1939 var þingmönnum Sósíalistaflokksins útskúfað því að þeir neituðu ólíkt öðrum þingmönnum að fordæma árásina og mæltu henni jafnvel bót. Virtu aðrir þingmenn þá ekki viðlits og gengu út þegar þeir héldu ræður. Þorri almennings og þingmanna hafði ríka samúð með smáþjóðinni sem átti hendur sínar að verja. Í leynilegum viðauka við griðasáttmála þeirra Stalíns og Hitlers í ágúst 1939 hafði verið kveðið á um skiptingu Mið- og Austur-Evrópu á milli þeirra og féll Finnland í hlut Stalíns. Í Sósíalistaflokknum höfðu kommúnistar hollir Stalín tögl og hagldir.

Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins og þingmaður hans, andmælti því í leiðara Þjóðviljans 6. febrúar 1940 að Finnar væru frændþjóð okkar Íslendinga. „Finnar eru eins fjarskyldir okkur og Kongo-negrar,“ skrifaði hann.

Brynjólfur Bjarnason, þingmaður Sósíalistaflokksins, smíðaði háðsyrðið „Finnagaldur“ um samúð þorra íslensku þjóðarinnar með Finnum og skrifaði grein í 1. hefti tímaritsins Réttar 1940 undir þeirri fyrirsögn. Þar sagði hann meðal annars: „Flestir munu nú hafa áttað til fulls á því, að þessi styrjöld var ekki stríð milli Finnlands og Rússlands út af fyrir sig, heldur var hér um að ræða styrjöld milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna, sem voru að búa sig undir árás á Rússland og notuðu finnsku hvítliðana sem verkfæri. Atburðirnir hafa síðan sannað, svo sem best verður á kosið, að Sovétlýðveldin áttu í varnarstríði, sem þeim bar skylda til að heyja fyrir land sitt og hinn alþjóðlega sósíalisma.“

Þrátt fyrir þessa frumlegu kenningu Brynjólfs börðust Finnar einir og óstuddir gegn hinu rússneska ofurefli, en urðu loks um miðjan mars 1940 að leita samninga. Eftir að þetta spurðist til Íslands fór Hermann Jónasson forsætisráðherra óvirðulegum orðum um þingmenn Sósíalistaflokksins í einum hliðarsal Alþingis. Vatt Brynjólfur Bjarnason sér þá að honum og kvað hann landsfrægan fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann sneri sér hvatskeytlega að Brynjólfi og laust hann kinnhesti með flötum lófa. Þegar Brynjólfur kvartaði við þingforseta, svaraði Hermann því til að það væri íslenskur siður að löðrunga óprúttna orðastráka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband