14.10.2018 | 11:08
Ein stór sósíalistahjörð
Dagana 30. september til 5. október 2018 sat ég þing Mont Pelerin samtakanna á Stóru hundaeyju (Gran Canarias) undan strönd Blálands hins mikla, en eyjuna þekkja Íslendingar af tíðum suðurferðum. Friedrich Hayek, Milton Friedman, George Stigler, Maurice Allais og fleiri frjálshyggjumenn, aðallega hagfræðingar, stofnuðu Mont Pelerin samtökin í Sviss vorið 1947, og heita þau eftir fyrsta fundarstaðnum. Tilgangur þeirra er sá einn að auðvelda frjálslyndu fræðafólki að hittast öðru hvoru og bera saman bækur sínar.
Nú voru rifjuð upp fræg ummæli austurríska hagfræðingsins Ludwigs von Mises, sem stóð upp á einni málstofunni á fyrsta þinginu og sagði: Þið eruð allir ein stór sósíalistahjörð! (You are all a bunch of socialists!) Gekk hann síðan á dyr og skellti á eftir sér. Hafði Friedman gaman af að segja þessa sögu, enda gerðist það ekki oft, að þeir Hayek væru kallaðir sósíalistar.
Tilefnið var, að einn helsti forystumaður Chicago-hagfræðinganna svonefndu, Frank H. Knight, hafði látið í ljós þá skoðun á málstofunni, að 100% erfðafjárskattur gæti verið réttlætanlegur. Rökin voru, að allir ættu að byrja jafnir í lífinu og keppa síðan saman á frjálsum markaði. Einn lærisveinn Knights, félagi í Mont Pelerin samtökunum og góður vinur minn, James M. Buchanan, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986, aðhylltist raunar sömu hugmynd.
Ég hygg, að Mises hafi haft rétt fyrir sér í andstöðunni við 100% erfðafjárskatt, þótt auðvitað hafi Mont Pelerin samtökin hvorki þá né nú verið ein stór sósíalistahjörð. Einkaeignarrétturinn og fjölskyldan eru hornsteinar borgaralegs skipulags og stuðla að langtímaviðhorfum: Menn taka þá framtíðina með í reikninginn. Það er jafnframt kostur, ekki galli, ef safnast saman auður, sem runnið getur í áhættufjárfestingar, tilraunastarfsemi, nýsköpun. Eitt þúsund eignamenn gera að minnsta kosti eitt þúsund tilraunir og eru því líklegri til nýsköpunar en fimm manna stjórn í opinberum sjóði, þótt kenndur sé við nýsköpun. Og ríkið hefur nógu marga tekjustofna, þótt ekki sé enn einum bætt við.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. október 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Facebook