25.8.2018 | 07:08
Hvað sagði ég í Tallinn?
Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að minningardegi um fórnarlömb alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma. Þennan dag árið 1939 gerðu þeir Hitler og Stalín griðasáttmála og skiptu þar á milli sín Evrópu. Næstu tvö árin voru þeir bandamenn, og gekk Stalín jafnvel svo langt að hann afhenti Hitler ýmsa þýska kommúnista sem hann hafði haft í haldi. Hefur frásögn eins þeirra komið út á íslensku, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann. Bandalagið brast ekki, fyrr en Hitler sveik það og réðst á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941.
Mér var í ár boðið til Tallinn í Eistlandi, þar sem vígt var tilkomumikið minnismerki um fórnarlömb kommúnismans og haldin fjölmenn ráðstefna um eðli hans og áhrif. Í tölu minni kvað ég það enga tilviljun, heldur eðlislægt kommúnismanum að hafa alls staðar leitt til alræðis, kúgunar og fátæktar. Höfundar hans, Karl Marx og Friðrik Engels, hefðu verið fullir haturs og mannfyrirlitningar, eins og bréfaskipti þeirra sýndu vel, en þau hef ég stuttlega rakið á þessum vettvangi. Þeir Marx og Engels hefðu enn fremur verið vísindatrúar, talið sig handhafa Stórasannleika, en ekki í leit að bráðabirgðasannleika, sem mætti betrumbæta með tilraunum, eins og venjulegir vísindamenn. Í þriðja lagi væri ætíð hætt við því, þegar tómarúm myndaðist eftir byltingu, að hinir ófyrirleitnustu og samviskulausustu fylltu það.
Tvær ástæður í viðbót væru til þess að kommúnismi leiddi jafnan til alræðis. Í landi þar sem ríkið væri eini vinnuveitandinn ætti stjórnarandstæðingurinn erfitt um vik, en frelsið væri ekki raunverulegt frelsi nema það væri frelsi til að gagnrýna stjórnvöld. Í fimmta lagi hygðust kommúnistar afnema dreifðan eignarrétt einstaklinga og frjáls viðskipti þeirra í milli, en við það fyrirkomulag nýttist dreifð þekking þeirra, eins og Friedrich A. Hayek hefði manna best sýnt fram á. En ef ríkið ræki öll atvinnutækin yrði það að fækka þörfum manna og einfalda þær til þess að allsherjarskipulagning atvinnulífsins yrði framkvæmanleg. Þetta gæti ríkið aðeins gert með því að taka í þjónustu sína öll mótunaröfl mannssálarinnar, fjölmiðla, skóla, dómstóla, listir, vísindi og íþróttir, en það er einmitt slíkt kerfi, sem við köllum alræði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. ágúst 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:10 | Facebook