18.8.2018 | 11:44
Hlátrasköllin voru vart þögnuð
Hulda, Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, kvað 1944, að Ísland væri langt frá heimsins vígaslóð. Það var að vísu ekki alls kostar rétt, því að undan ströndum var þá háð stríð. En Íslendingar hafa í sakleysi sínu iðulega vanmetið böl heimsins og veldi mannvonskunnar. Við Arnór Hannibalsson snæddum kvöldverð með hinum víðkunna pólska heimspekingi Leszek Kolakowski í apríl 1979, og þá spurði ég hann, hvort okkar helsti tilvistarvandi væri dauði Guðs. Kolakowski svaraði að bragði, að vandinn væri miklu heldur, að djöfullinn væri dauður í hugum mannanna. Ég rifjaði þá upp þjóðsöguna af púkunum þremur, sem fjandinn sendi til að spilla mannkyni. Eftir ár sneru þeir aftur. Einn sagðist hafa kennt mannkyni að ljúga og annar að stela. Lét andskotinn sér það vel líka. En hinn þriðji, sem minnstur þótti fyrir sér, sagðist hafa kennt öllum heldri mönnum að trúa því, að djöfullinn væri ekki til. Þetta verk þótti yfirmanni hans best.
Nú eru liðin fimmtíu ár, frá því að Kremlverjar sendu her inn í Tékkóslóvakíu til að berja niður umbótatilraunir. Því hefðu heldri menn íslenskir ekki trúað í sakleysi sínu. Röskri viku fyrir innrásina, 15. ágúst 1968, birtu þeir í vikublaðinu Frjálsri þjóð nafnlausa skopstælingu á skrifum Matthíasar Johannessens, skálds og ritstjóra Morgunblaðsins. Skyldu Rússar vera komnir inn í Tékkóslóvakíu? Áreiðanlega. Þessi níðingar, djöflar. Ég veit, að þeir ráðast inn í Tékkóslóvakíu, eins og ég finn blóðið streyma eftir æðum mér. Évtúsénkó, Évtúsénkó, Tarsis. Ég verð að muna að hlusta á fréttirnar. Og aftur: Ég veit, að þeir ráðast inn í Tékkóslóvakíu og kremja landið fagra undir járnhælum sínum. Kafka, Kafka, mikið varstu heppinn að vera búinn að deyja. Til að lifa. Ef þeir ráðast ekki inn í Tékkóslóvakíu í dag, gera þeir það á morgun.
Hlátrasköllin voru vart þögnuð á ritstjórnarskrifstofu Frjálsrar þjóðar, þegar rússneskir skriðdrekar sigu inn fyrir landamæri Tékkóslóvakíu. Það fer ósjaldan illa, þegar menn reyna að gera lítið úr böli heimsins og veldi mannvonskunnar. Og sá tími er liðinn, að Ísland sé langt frá heimsins vígaslóð.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. ágúst 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook