Hattur Napóleons og Hannes Hafstein

Morgunblaðið birti frétt um það 18. júní 2018, að nú ætti að selja á uppboði einn af nítján höttum Napóleons Frakkakeisara, en þeir voru tvíhorna. Af því tilefni má rifja upp, að Björn Jónsson, ráðherra Íslands 1909-1911, gekk í valdatíð sinni keikur um með eins konar Napóleonshatt. Lenti sá hattur síðar í eigu starfsmanns Ísafoldarprentsmiðju, sem Björn hafði átt, og þaðan rataði hann í hendur ungs skálds, Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi, sem gaf kunningjakonu sinni hattinn.

Í grúski mínu vegna ævisögu skáldsins rakst ég á laust blað ómerkt í bréfasafni Ragnars Jónssonar í Smára, en það er varðveitt á handritadeild Landsbókasafnsins. Þar segir frá því, að Hannes Hafstein, forveri Björns í embætti, hafi eitt sinn hnoðað saman brjóstmynd af Birni úr möndludeigi (marsípan) og sett á hana lítinn Napóleonshatt. Síðan hafi Hannes ort gamanvísu til Napóleons fyrir hönd Björns:

Munurinn raunar enginn er

annar en sá á þér og mér,

að marskálkarnir þjóna þér,

en þjóna tómir skálkar mér.

Sem kunnugt er sæmdi Napóleon 26 herforingja sína marskálkstitli. Björn Jónsson hafði hins vegar fellt Hannes úr ráðherraembætti og eftir það rekið móðurbróður hans, Tryggva Gunnarsson, úr Landsbankanum, þótt sá verknaður yrði honum sjálfum síðan að falli. Nýttu sumir öfundarmenn Hannesar sér, að Björn fékk ekki alltaf hamið skapsmuni sína.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júlí 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband