Hádegisverður í Stellenbosch

Stjórnvöld í Suður-Afríku hyggjast nú gera jarðir hvítra bænda upptækar bótalaust, en væntanlega síðan skipta þeim á milli svartra bænda. Þetta er eflaust ekki endirinn á vist hvítra manna í Suður-Afríku, en þetta gæti verið upphafið að endinum. Ástralíustjórn hefur hafið undirbúning að því að flýta útgáfu vegabréfsáritana til suðurafrísku bændanna. Væri eitthvert vit í stjórnum Brasilíu og Argentínu, þá ættu þær að gera hið sama. Landbúnaður í Suður-Afríku er háþróaður og arðbær og bændur þar kunnáttumenn.

Hvítir menn eru jafnmiklir frumbyggjar Suður-Afríku og svartir. Þeir komu af hafi, aðallega Búar frá Hollandi, á 17. öld og settust að í Suður-Afríku á sama tíma og svartir menn komu að norðan. Það voru því ekki hvítir menn, sem ráku svarta af jörðum sínum. En þetta yrði þó ekki í fyrsta sinn, sem duglegir og tiltölulega vel stæðir, en óvinsælir minnihlutahópar sæta ofsóknum. Ferdinand og Ísabella hröktu gyðinga brott úr Spánarveldi 1492. Lúðvík 14. felldi 1685 úr gildi lög, sem veittu húgenottum (mótmælendatrúarmönnum) grið, og flúðu margir þeirra Frakkland að bragði. Báðir hóparnir stóðu sig vel í viðtökulöndum.

Sagan endurtók sig á 20. öld. Hitler og Stalín beittu að vísu verri aðferðum gegn óvinsælum minnihlutahópum. Hitler drap þá í útrýmingarbúðum, en Stalín lét flytja þá í seigdrepandi þrælakistur norðan heimskautsbaugs. Tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar út úr Póllandi og Tékkóslóvakíu í stríðslok 1945, en ættir þeirra höfðu búið þar í marga mannsaldra. Skemmst er að minnast þess, er hinn grimmi trúður Ídí Amín rak hátt í hundrað þúsund fólks af asískum ættum frá Úganda 1972.

Ég ferðaðist um alla Suður-Afríku í þrjár vikur haustið 1987. Meðal annars lagði ég leið mína í vínyrkjuhéraðið í kringum Stellenbosch. Þar var allt fallegt og blómlegt. Þá réðu hvítir menn enn Suður-Afríku. Ég snæddi hádegisverð með prófessor einum, sem var Búi. Hann sagði: „Við Búarnir vitum, að við verðum fyrr eða síðar að viðurkenna meirihlutastjórn svartra manna. En við viljum ekki, að okkar kæra Suður-Afríka verði enn eitt misheppnaða Afríkulýðveldið.“ Það virðist þó vera að gerast.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. mars 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband