Böðullinn drepur alltaf tvisvar

Böðullinn drepur alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni, sagði Elie Wiesel. Alræðisstjórnir tuttugustu aldar reyndu að eyða öllum ummerkjum um fórnarlömb sín, helga þau þögninni. Eitt mikilvægasta hlutverk sagnfræðingsins er að rjúfa þessa þögn, segja frá þeim, sem faldir voru bak við gaddavírsgirðingar og gátu ekki látið af sér vita. Velflestir, sem sluppu lifandi úr þrælabúðum kommúnista, og skrifuðu endurminningar sínar, segja þá, sem eftir urðu, hafa grátbeðið þá um að skýra umheiminum frá ósköpunum. Þá hefðu þeir ekki þjáðst til einskis, ekki þurfa að óttast að vera drepnir í annað sinn með þögninni.

Almenna bókafélagið gefur nú út ritröð, sem ég ritstýri, með bókum um alræðisstefnuna og fórnarlömb hennar. Árið 2015 komu út Greinar um kommúnisma eftir heimspekinginn Bertrand Russel jarl, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen og Úr álögum eftir Jan Valtin, en sú bók olli hörðum deilum á Íslandi 1941.

Árið 2016 komu út á ný fimm bækur. Leyniræðan um Stalín, sem Khrústsjov hélt 1956, varð íslenskum stalínistum mikið áfall. El campesino er eftir Valentín González, sem var herforingi í spænska borgarastríðinu og slapp á undraverðan hátt úr vinnubúðum Stalíns. Tvær bókanna eru um Eystrasaltslöndin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntafræðinginn Ants Oras og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng. Þjónusta, þrælkun flótti er eftir ingríska prestinn Aatami Kuortti. Ingríar eru náskyldir Finnum, bjuggu við botn Finnska flóa og eru nú að hverfa úr sögunni.

Árið 2017 komu út Nytsamur sakleysingi eftir finnska sjómanninn Otto Larsen, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir Arthur Koestler, sem hafði mikil áhrif á bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946, og Ég kaus frelsið eftir Viktor Kravtsjenko.

100 milljónir manna týndu á 20. öld lífi af völdum kommúnismans. Böðlinum mun ekki takast að drepa í annað sinn, með þögninni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. mars 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband