28.2.2018 | 15:02
Af högum mínum: Svar til blaðamanns
Hér er svar mitt við fyrirspurn blaðamanns:
Sæll, Sigmann Þórðarson.
Það er prentvilla í heiti skeytis þíns. Þetta á að vera Rannsóknarleyfi með s-i. En þú mátt hafa eftirfarandi eftir mér og þá allt, en ekki eitthvað klippt frá þér eftir þínum hentugleikum:
Mér finnst þessi spurningaleikur furðulegur. Ég er ekki fyrsti prófessorinn, sem fer í rannsóknarleyfi og þarf að ráðstafa námskeiðum sínum á meðan, og áreiðanlega ekki hinn síðasti. Hvers vegna er ég sérstaklega tekinn úr? Og hvers vegna er ætlunin að birta sérstaka frétt um rannsóknarleyfi mitt?
Annars er atburðarásin í þessu ekki-máli einföld. Ég hafði óskað eftir rannsóknarleyfi á vormisseri 2019. Síðan komst ég að því, að ég átti rétt á rannsóknarleyfi á haustmisseri 2018. Ég vildi samt ekki taka það þá, nema ég gæti ráðstafað kennslu minni á skaplegan hátt. Ég talaði við einn heimspekiprófessorinn, sem oft hefur verið mér ráðhollur. Hann stakk upp á því, að námskeið í heimspeki, sem er um margt sambærilegt við námskeið mitt, yrði látið koma í stað míns námskeiðs. Kvað hann eitthvað svipað oft hafa verið gert við svipaðar aðstæður. Forseti minnar deildar var sáttur við það, og kennari námskeiðsins var fús að taka þetta að sér. Þegar ég hafði þannig ráðstafað kennslunni á eðlilegan hátt, bað ég um að fá frekar rannsóknarleyfi á haustmisseri. Var orðið við því, eins og eðlilegt var.
Það var enginn þrýstingur á mig um eitt eða neitt í þessu máli. Það hefur gengið sinn venjulega og eðlilega gang. Öll mín samskipti við yfirmenn Háskólans hafa verið algerlega óaðfinnanleg. Ég þekki ekki þennan nemendalista, sem nefndur er í spurningalistanum. Enginn hefur minnst á hann við mig, en ég hef séð eitthvað smávegis um hann í fjölmiðlum. Annars er þetta ekkert nýtt. Það var skipulögð undirskriftasöfnun meðal nemenda 1988 til að reyna að fá menntamálaráðherra til að veita mér ekki lektorsembætti í stjórnmálafræði. Það hafði engin áhrif, hvorki á mig né ráðherrann og því síður á framtíðina, sem nú er nútíð.
Ég var mjög feginn því að fá meira tækifæri til rannsókna og þess vegna ánægður með að fá rannsóknarleyfið á haustmisseri. Ég er með fangið fullt af verkefnum. Ég er að skila af mér 320 bls. skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins til fjármálaráðuneytisins og hyggst auðvitað gefa út rannsóknir mínar á því máli, ef til vill næsta haust, þegar tíu ár verða liðin frá bankahruninu.
Ég hef síðan samið um og hef verið að ljúka þremur skýrslum eða rannsóknarritgerðum fyrir hugveituna New Direction í Brüssel. Þær eru um 5070 bls. hver.
Ein er Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights. Þar legg ég áherslu á þá staðreynd, að umhverfisvernd krefst verndara, einhverra, sem hafa hag af því að vernda umhverfið. Dæmið af landi er alþekkt. Það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Sjaldan grær gras á almenningsgötu. En ég nota þessa hugmynd á fiskistofna í ljósi reynslu Íslendinga og á þokkafull risadýr eins og hvali, fíla og nashyrninga. Hægt er að breyta veiðiþjófum í veiðiverði með einu pennastriki: með því að leyfa þeim að eignast dýrastofnana.
Önnur skýrslan er The Voices of the Victims: Notes towards a Historiography of Anti-Totalitarian Literature. Þar veiti ég yfirlit yfir rit, sem komu út um alræðisstefnuna, á meðan hún reið húsum í Evrópu, kommúnisma og nasisma, með sérstakri áherslu á kommúnismann, þar sem hann var langlífari og ekkert uppgjör var við hann eins og var við nasismann í Nürnberg. Ég ræði m. a. skoðanir Marx og Engels á smáþjóðum, skáldsögur Zamjatíns, Orwells, Koestlers og Rands um alræðisstefnuna, bækur Víktors Kravtsjenkos, Valentíns González (El campesino), Margarete Buber-Neumann, Elinors Lippers, Ottos Larsens o. fl.
Þriðja skýrslan er Lessons for Europe from the Icelandic Bank Collapse. Þar bendi ég á þrjá lærdóma, sem aðrir virðast ekki hafa dregið af bankahruninu. (Flestir menntamenn gera ekkert annað en endurtaka þúsund ára gamlar og margtuggnar prédikanir gegn ágirnd.) Einn er, að það kostar ekki algert hrun hagkerfisins að láta banka falla. Ísland blómstrar, þótt bankarnir hafi fallið. Annar lærdómur er, að ríkisábyrgð á innstæðum er óþörf, ef það er gert, sem Íslendingar gerðu og var mjög snjallt, að veita innstæðueigendum forgang í kröfum á bú banka. Aðalatriðið er ekki að bjarga bönkum, heldur að afstýra öngþveiti, sem örvæntingarfullir innstæðueigendur myndu stofna til. Þriðji lærdómur er, að geðþóttavald, eins og skapað var með hryðjuverkalögunum bresku, verður fyrr eða síðar misnotað. Dæmið af beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum sýnir það. Þá var lögunum beitt vegna stjórnmálahagsmuna þeirra Gordons Browns og Alistairs Darlings, sem vildu sýna Skotum, hvað sjálfstæði kostaði, og sýna breskum kjósendum, hversu harðir þeir væru í horn að taka.
Síðan hef ég líka unnið að skýrslu fyrir aðra hugveitu í Brüssel um Totalitarianism in Europe: Two Case Studies, þar sem ég birti rannsóknir mínar á tveimur málum: ævi og störfum Elinors Lippers, sem var um margt merkileg, og sögu gyðingakonu, sem varð Íslendingur (Henny Goldstein), og nasista, sem varð kommúnisti (Bruno Kress), og hvernig örlög þeirra fléttuðust saman á Íslandi og víðar. Ég datt niður á þessi rannsóknarefni í íslenskum og erlendum skjalasöfnum.
Þá er ég að halda áfram að gera á ensku útdrætti úr helstu Íslendinga sögum. Ég hef þegar gert útdrætti úr Egils sögu, Brennu-Njáls sögu og Guðrúnar sögu (eins og mér finnst eðlilegast að kalla Laxdælu) og ætla að gera sameiginlegan útdrátt úr Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, sem ég mun kalla samheitinu Guðríðar saga, því að sögurnar hverfast í kringum Guðríði Þorbjarnardóttur, sem fæddist á Íslandi, bjó í Vesturheimi og fór í pílagrímsferð til Rómar. Nafnbreytingarnar á þessum Íslendinga sögum eru mitt litla framlag til kvenréttindabaráttunnar, jafnframt því sem ég reyni að kynna það, sem við Íslendingar ættum að vera stoltastir af, í stað þess að tala landið niður, eins og sumir gera því miður.
Enn fremur er ég að vinna að ævisögu Péturs Magnússonar, bankastjóra, ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ætla í því sambandi við fyrsta tækifæri að rannsaka betur skjalasöfn hans og þeirra Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar (sem eru á Borgarskjalasafni). Mig skortir því svo sannarlega ekki verkefni næsta haust eða lengur.
Með von um vandaðri vinnubrögð í framtíðinni og góðri kveðju,
Hannes H. Gissurarson
Hér er fyrirspurn blaðamannsins:
Sæll Hannes,
Sigmann heiti ég og er nemandi í blaða- og fréttamennsku og blaðamaður student.is.
Við á student.is höfum í hyggju að fjalla um fjarveru þína á komandi haustmisseri sem veldur því að áfanginn um stjórnmálaheimspeki, sem þú hefur hingað til kennt, verður þar af leiðandi ekki á dagskrá.
Okkur langar að vita hvort þú hafir áhuga á að tjá þig um þetta rannsóknarleyfi sem þú hefur óskað eftir og leggjum fyrir þig eftirfarandi spurningar:
1. Óskaðir þú sjálfur eftir því að fara í rannsóknarleyfi?
2. Er það rétt að þú hafir í fyrstu óskað eftir rannsóknarleyfi á vormisseri en breytt því í haustmisseri?
- Ef "já":
a. Hvers vegna breyttist það?
b. Var þrýst á þig af deildinni/háskólanum að breyta þessu?
c. Hafði listi þeirra 65 nemenda, sem óskuðu eftir að áfangi þinn yrði ekki kenndur sem skylduáfangi lengur, eitthvað með breytinguna að gera?
3. Hvað finnst þér um þá niðurstöðu; að áfangi þinn um stjórnmálaheimspeki verði ekki kenndur næsta vetur?
4. Hvað hyggst þú rannsaka í þessu leyfi sem þú óskar eftir?
Fréttin birtist n.k. þriðjudag, 6. mars, og óskum við því eftir svörum fyrir þann tíma.
Virðingarfyllst,
Sigmann Þórðarson
- Student.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Facebook