Hún líka

simone-de-beauvoir-9269063-1-402.jpgFemínistar eru ýmist hófsamir eða róttækir. Hófsama hópinn skipa jafnréttissinnar, sem vilja fjarlægja hindranir fyrir þroska einstaklinganna, svo að þeir geti leitað gæfunnar hver á sinn hátt, konur jafnt og karlar. Ég tel mig slíkan femínista. Í róttæka hópnum eru kvenfrelsissinnar, sem halda því fram, að konur séu þrátt fyrir jafnrétti að lögum enn kúgaðar. Kunnur talsmaður þeirra er franski heimspekingurinn Simone de Beauvoir.

Víst er að hófsamir jafnréttissinnar deila ekki öllum viðhorfum með henni. Í samtali, sem bandaríski kvenskörungurinn Betty Friedan átti við hana og birtist í Rétti 1978, var hún spurð, hvort ekki ætti að auðvelda konum að velja um, hvort þær vildu helga sig heimili og börnum eða fara út á vinnumarkaðinn. Hún svaraði: „Nei, það er skoðun okkar, að ekki sé rétt að setja neinni konu þessa valkosti. Engin kona ætti að hafa eindregna heimild, nánast löggildingu, til þess að vera heima við í því skyni að ala upp börn sín. Þjóðfélagið ætti að vera allt öðru vísi. Konur ættu ekki að eiga slíkt val beinlínis vegna þess, að sé slíkur valkostur fyrir hendi, er hætt við því, að allt of margar konur taki einmitt hann.“

De Beauvoir bjó með heimspekingnum Jean-Paul Sartre, en var tvíkynhneigð. Hún kenndi í menntaskóla í París og flekaði þá sumar námsmeyjar sínar, þrátt fyrir að þær væru undir lögaldri. Ein þeirra, Bianca Lamblin, rakti í minningabók, hversu grátt de Beauvoir hefði leikið sig, kornunga, stóreyga og saklausa. De Beauvoir neytti einnig yfirburða sinna til að fá aðra stúlku undir lögaldri, Natalie Sorokin, til fylgilags við sig. Móðir Natalie kærði de Beauvoir til yfirvalda, og var henni vikið úr starfi árið 1943. Vitanlega breyta einkahagir de Beauvoir engu um gildi hugmynda hennar, en mér finnst samt skrýtið, að ég hef hvergi séð á þetta minnst í fræðum íslenskra kvenfrelsissinna. Beindust orð de Beauvoir og verk ekki gegn konum?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband