7.10.2017 | 12:47
Voru bankarnir gjaldþrota?
Í nýlegri ritgerð fyrir Brookings stofnunina í Washingtonborg velta Sigríður Benediktsdóttir, Gauti B. Eggertsson og Eggert Þórarinsson því fyrir sér, hvort íslensku bankarnir hafi verið gjaldþrota árið 2008, svo að allar björgunartilraunir hafi í raun verið vonlausar. Þau nefna eina röksemd fyrir því. Samkvæmt bandarískri rannsókn frá 2007 hafi endurheimtuhlutfall fjármálastofnana af ótryggðum kröfum (skuldabréfum) verið 59%, en þetta hlutfall hafi reynst vera 29% fyrir íslensku bankana.
Þessi röksemd er hæpin af ýmsum ástæðum.
Í fyrsta lagi voru samkvæmt neyðarlögunum íslensku allar innstæður tryggðar, innlendar sem erlendar, en í Bandaríkjunum voru aðeins tryggðar innlendar innstæður upp að 100 þúsund dölum, og rannsóknin, sem þau Sigríður vitna í, náði aðeins til áranna 19821999. Tölurnar eru því alveg ósambærilegar, eins og þau Sigríður nefna raunar sjálf.
Í öðru lagi hefði af þessum ástæðum verið rétt að bera saman endurheimtuhlutföll fjármálastofnana í heild. Samkvæmt yfirgripsmikilli rannsókn Nada Mora frá 2012 fyrir Seðlabankann í Kansas-borg voru þau að miðgildi fyrir tímabilið 19702008 24,6% í Bandaríkjunum. En endurheimtuhlutföll íslensku bankanna voru að miðgildi 48% samkvæmt nýlegri og vandaðri rannsókn Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar.
Í þriðja lagi fer endurheimtuhlutfall auðvitað eftir árferði. Mora nefnir í rannsókn sinni, að endurheimtuhlutfallið, sem hún reiknar út fyrir fjármálastofnanir, sé ekki síst lágt vegna ársins 2008, þegar margar fjármálastofnanir féllu. Hér á Íslandi var ekki aðeins kreppa, heldur bankahrun, og það hafði í för með sér gjaldþrot margra skuldunauta bankanna.
Í fjórða lagi lækkar endurheimtuhlutfall við brunaútsölur. Í Bandaríkjunum eru fjármálastofnanir venjulega endurskipulagðar eftir föstum reglum. En allur gangur var á því, hvernig farið var með eigur íslensku bankanna. Í Bretlandi var að mestu leyti komið í veg fyrir brunaútsölur. Þar voru endurheimtuhlutföll Heritable og KSF 98% og 87%. Þeir voru því greinilega ekki gjaldþrota. Annars staðar fékkst aðeins 1020% raunvirðis fyrir banka, til dæmis í Noregi og Danmörku, þar sem stjórnvöld knúðu fram brunaútsölur.
Bankahrunið 2008 var vissulega stórt. En óþarfi er að gera meira úr því en efni standa til.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. október 2017.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook