Útvarpsviðtal við mig: Styttur og minnismerki

Ég var nú í morgun í viðtali á Bylgjunni um það, hvenær á að fjarlægja styttur og minnismerki og hvenær ekki. Ég rifjaði upp, að eftir stríð voru allar styttur fjarlægðar af nasistum, Hitler, Göring og Göbbels, á fyrrverandi yfirráðasvæði þeirra. Margar styttur hefðu verið fjarlægðar af Lenín, Stalín og öðrum kúgurum í Austur-Evrópu eftir fall kommúnismans, en ekki allar, og væri ég einmitt í starfshópi Platform of European Memory and Conscience um að láta fjarlægja síðustu minnismerkin um kommúnistaleiðtogana.

Hvar ætti að draga mörkin? var ég spurður. Svarið er einfalt. Menn eiga ekki að heiðra níðinga, sem dæmdir hafa verið eða hefðu verið fyrir glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og glæpi gegn friðnum, en þessir glæpir voru skilgreindir í Nürnberg-réttarhöldunum eftir stríð. Það merkir, að styttur og myndir til heiðurs Hitler, Göring, Göbbels, Lenín, Stalín, Maó, Pol Pot og Castro eiga ekki rétt á sér í frjálsum menningarlöndum. Þessa fjöldamorðingja á ekki að heiðra. Líklega týndu um 100 milljónir manna lífi sökum kommúnismans, og ekki þarf að minna á Helför gyðinga.

http://www.vb.is/media/cache/7f/49/7f497f9dd8735e1f5fd8483c3d168a1a.jpg

Ég kvað hins vegar ýmsar aðrar myndir og styttur þátt í menningararfi okkar, hvað sem liði ólíkum skoðunum á viðfangsefnunum Til dæmis hefði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir látið það verða sitt fyrsta verk að fjarlægja úr Höfða hið fræga málverk af Bjarna Benediktssyni, sem vakti á sínum tíma yfir þeim Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov. Með því hefði hún sýnt sögunni óvirðingu. Það væri hins vegar eins óviðkunnanlegt að sjá brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni, fyrsta og eina formanni kommúnistaflokks Íslands, við hátíðasal Háskóla Íslands og það hefði verið að sjá brjóstmynd af einhverjum formanni nasistaflokks þar. Brynjólfur hefði haft sáralítil tengsl við Háskólann og í rauninni jafnfráleitt að skreyta anddyri Háskólans með brjóstmynd af honum og að veita gömlum nasista heiðursdoktorsnafnbót, svo að nógu ólíklegt dæmi sé tekið.

Ég taldi herforingja Suðurríkjanna ekki stríðsglæpamenn í sama skilningi og nasista og kommúnista á 20. öld. Robert Lee hefði að vísu átt þræla, en það hefðu Washington og Jefferson líka átt. Þess vegna ætti að fara varlega í að fjarlægja minnismerki um þessa herforingja. Suðurríkin hefðu tapað borgarastríðinu, en herforingjar þeirra hefðu ekki verið verri menn en starfsbræður þeirra úr Norðurríkjunum, eftir því sem ég best vissi. Raunar hefði gott orð farið af Lee.

Ekki vannst tími til að ræða fleiri dæmi, en yfir Arnarhóli gnæfir stytta af Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum, en hann átti þræla, sem frægt er. Að lokum barst talið að Trump Bandaríkjaforseta. Ég kvað eina skýringuna á furðumiklum stuðningi við hann vera, að gjá væri að myndast milli háskóla, opinberra stofnana og fjölmiðla annars vegar og alþýðufólks hins vegar. Í háskólum og öðrum stofnunum væri reynt að þagga niður ýmsar skoðanir. Þetta væru orðin vígi jaðarfólks (svipað og gerðist í Icesave-deilunni á Íslandi, þegar fulltrúar 98% landsmanna áttu sér aðeins þrjár eða fjórar raddir í Háskólanum, auk þess sem ótrúlega hátt hlutfall háskólakennara styður jaðarflokk, Samfylkinguna, sem aðeins hlaut 5,7% í síðustu þingkosningum).

Trum hefði til dæmis nærst á útlendingaandúð. Sjálfur væri ég hlynntur meginreglunni um frjálsan innflutning fólks, en andvígur innflutningi þeirra, sem aðeins koma til að njóta velferðarbóta eða til að reyna að neyða okkur til að taka upp siði öfgamúslima. Ég hef enga samúð með því fólki. Við ættum tvímælalaust að herða landamæraeftirlit okkar og taka upp sömu ströngu reglur og Norðmenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband