19.8.2017 | 07:00
Ný syndaaflausn
Þegar ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins lokaði að nauðsynjalausu breskum bönkum í eigu Íslendinga haustið 2008, setti hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki, greiddi tafarlaust út Icesave-innstæður í Landsbankanum (í stað þess að veita ársfrest til þess, eins og reglur leyfðu) og krafðist þess síðan, að íslenska ríkið endurgreiddi hinu breska alla upphæðina með vöxtum, vildi hópur menntamanna fara að kröfum þeirra. Þau Þorvaldur Gylfason, Stefán Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason töldu okkur Íslendinga samsek Landsbankanum og þess vegna öll samábyrg um skuldbindingar hans. Hefði verið farið að vilja þeirra, hefði vaxtakostnaðurinn einn numið um 200 milljörðum króna.
Þessi hugmynd um nauðsynlega yfirbót er ekki ný. Líklega hafa engir tveir viðburðir greypst eins í huga þjóðarinnar og Tyrkjaránið 1627 og bankahrunið 2008. Íslendingar vissu í bæði skiptin, að þeir voru hjálparvana, en héldu um leið, að þeir ættu ekki aðra óvini en eld og ís. Þess vegna voru þeir þrumu lostnir. Strax eftir Tyrkjaránið töldu skáld og aðrir menntamenn, að það hefði ekki verið annað en refsing og reiðidómur guðs fyrir ljótan lifnað manna hér á landi, eins og Jón Þorkelsson skrifaði í inngangi að safnriti sínu um ránið. Lærdómurinn, sem af þessu mætti draga, væri að iðka góða siði og sækja betur kirkjur, sagði Arngrímur lærði. Einnig þyrfti að refsa óbótamönnum harðar, kvað Guðmundur Erlendsson í Ræningjarímum.
Vilhjálmur Árnason og aðrir spekingar, sem skrifað hafa um bankahrunið, sleppa að vísu öllu guðsorði, en virðast telja hrunið hafa verið refsingu fyrir ágirnd og óhóf bankamanna, sem þjóðin öll hafi tekið þátt í og sé því samsek þeim um. 200 milljarðarnir, sem Icesave-samningarnir hefðu kostað þjóðina, væru nauðsynleg yfirbót. Með þeim fengi hún syndaaflausn. Lærdómurinn, sem af þessu megi draga, sé að iðka góða siði og sækja betur heimspekifyrirlestra Vilhjálms og félaga. Einnig þurfi að refsa óbótamönnum harðar, eins og Þorvaldur Gylfason skrifar vikulega í blað það, sem Jón Ásgeir Jóhannesson gefur enn út og dreifir ókeypis til landsmanna.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2017.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook