Nokkrir skuldabréfaeigendur höfðuðu einmitt mál gegn slitastjórn Landsbankans til að fella þennan forgang úr gildi. Hæstiréttur úrskurðaði hins vegar í október 2011, að neyðarlögin stæðust stjórnarskrá. Þótt flestir Íslendingar hafi þá sennilega andað léttar, hefði rökstuðningur réttarins mátt vera skýrari. Í sératkvæði taldi Jón Steinar Gunnlaugsson um að ræða afturvirka eignaupptöku hjá afmörkuðum hópi, sem væri óheimil samkvæmt stjórnarskrá. Samkvæmt nýrri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar voru um tíu milljarðar evra í raun færðir með neyðarlögunum frá skuldabréfaeigendum til innstæðueigenda.
Rök Jóns Steinars eru einföld og skýr, og þeim þarf að svara. En til er svar við þeim, sem heilagur Tómas af Akvínas setti fram í Summa Theologica, II. bók, II. hluta, Spurningu 67, grein 7. Ekkert kemur í veg fyrir, að aðgerð hafi tvennar afleiðingar, þar sem aðeins önnur var ætlunarverk og hin ekki. Þetta er í kaþólskri heimspeki kallað lögmálið um tvennar afleiðingar. Til dæmis kann tilraun til að bjarga lífi þungaðrar konu fyrirsjáanlega að valda fósturláti, en sú afleiðing var ekki ætlunarverk og aðgerðin þess vegna ekki nauðsynlega fordæmanleg af þeirri ástæðu.
Ætlunin með neyðarlögunum var ekki að taka upp fé annarra kröfuhafa og færa til sparifjáreigenda, heldur að afstýra upplausn á Íslandi við hrun bankanna, jafnvel neyðarástandi. Samkvæmt lögmálinu um tvennar afleiðingar voru neyðarlögin því ekki óréttmæt eignaupptaka, þótt fyrirsjáanlega leiddi af þeim, að fé færðist milli hópa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2017.)