28.2.2016 | 21:09
Það sem ég uppgötvaði í grúski 2015
Ég setti á dögunum hér inn á bloggið Rannsóknarskýrslu mína fyrir árið 2015, sem ég skilaði Háskólanum 1. febrúar, ásamt tenglum og nokkrum myndum. Þegar ég renndi yfir Fróðleiksmolana, sem ég skrifaði vikulega í Morgunblaðið og birti síðan jafnan á blogginu, sá ég ýmislegt. Eitt var það, hvað ég hefði uppgötvað í grúski mínu á síðasta ári. Það var ýmislegt, en upp úr stendur ef til vill þetta:
Ég komst að því, hvað Gunnar Gunnarsson hefði sagt við Hitler á fundi þeirra vorið 1940, en það hefur verið óljóst fram að þessu. Það fór fram hjá ævisöguriturum Gunnars, að Jón Krabbe sagði frá því í endurminningum sínum, að Gunnar hefði vakið máls á illu hlutskipti Finna við Hitler, en Hitler þá hvæst, að hann hefði boðið þeim griðasáttmála og þeir ekki þegið hann.
Ég komst að því, að Karl Kroner, sem var flóttamaður á Íslandi, þekkti til sjúkdómsgreiningar á Adolf Hitler í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann gaf bandarískum leyniþjónustumönnum skýrslu um það 1943. Hitler hafði að sögn Kroners fengið taugaáfall, en ekki orðið fyrir sinnepsgasárás, eins og hann hélt sjálfur fram.
Ég komst að því, hvaða brellu Nixon Bandaríkjaforseti hefði beitt til að losna við kvabb úr Lúðvík Jósepssyni í veislu á Bessastöðum 1973.
Ég komst að því, sem er ekki á vitorði margra, þótt sagnfræðingum sé það sumum kunnugt, að Danakóngur reyndi þrisvar að selja Englendingum landið og einu sinni Þjóðverjum, að breskir frammámenn lögðu til á öndverðri 19. öld, að landið væri tekið, og að bandarískir frammámenn veltu fyrir sér að kaupa landið 1868.
Ég hef verið að grúska í sögu Íslands, sérstaklega samskiptum landsins við stórveldin, vegna skýrslu, sem ég er að skrifa fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook