Guernica! Guernica!

Ómar Ragnarsson, sem allir þekkja og segist vera áhugamaður um hernaðarsögu, andmælir í Morgunblaðinu 11. febrúar fróðleiksmola, sem ég birti á dögunum um loftárásina á baskneska bæinn Guernica í miðju spænska borgarastríðinu, 26. apríl 1937. Sá hængur er á, að Ómar andmælir aðeins einni athugasemd minni, en lætur sér nægja að reka upp hneykslunaróp um aðrar (þótt hann hafi raunar að eigin sögn sett hljóðan við að lesa skrif mín).

Athugasemd Ómars er um þá fullyrðingu mína, að árásin hafi verið liður í aðgerðum hers þjóðernissinna, en ekkert sérstakt uppátæki þýskra eða ítalskra hermanna. Kveður Ómar mig reyna að breiða yfir þá staðreynd, að „Hitler sendi sérstaka þýska flugsveit til Spánar [til] þess að æfa sig fyrir komandi styrjöld og árásin á Guernica hefur hingað til verið talin byrjunin á því sem síðar gerðist, þegar þýski flugherinn hafði yfirburði í leifturstríðum sínum“. En nýjar rannsóknir sýna einmitt, þótt þýskar og ítalskar flugsveitir framkvæmdu árásina, að hún var liður í hernaðaraðgerðum þjóðernissinna, þótt þeim hentaði að halda því leyndu, þegar í ljós kom, hversu miklum usla hún olli. Ég minntist í pistli mínum á sagnfræðiprófessorinn Stanley Payne, sem gaf 2012 út bókina The Spanish Civil War (sjá sérstaklega bls. 211–212), en ég bendi einnig Ómari sem áhugamanni um hernaðarsögu á ritgerð eftir hernaðarfræðinginn J. S. Corum, „The Persistent Myth of Guernica,“ sem birtist í Military History Quarterly 2010.

Ómar andmælir mér ekki um það, að Guernica hafi haft hernaðargildi, svo að árásin hafi verið hernaðaraðgerð frekar en hryðjuverk, eins og haldið hefur verið fram. Hann andmælir mér ekki heldur um það, að í fyrstu fréttum af árásinni hafi fjöldi fórnarlambanna verið ýktur. Hann kveður mig hins vegar leitast við að réttlæta loftárásina. Auðvitað dettur mér ekkert slíkt í hug. Skýringar þurfa ekki að vera réttlætingar. En er ekki rétt að endurskrifa söguna, ef fyrstu uppköstin að henni reynast ónákvæm? Er það ekki kjarninn í boðorði Ara fróða um að hafa það jafnan, sem sannara reynist?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. febrúar 2016.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband