Steinólfur í Fagradal

Maður var nefndur Steinólfur Lárusson og bjó í Fagradal á Skarðsströnd í Dölum. Hann fæddist 26. júní 1928 og hóf ungur búskap þar vestra með foreldrum sínum. Steinólfur varð snemma þjóðsagnahetja í sveitum, og hefur raunar verið skrifað um hann bókarkver. Hann var mikill að vexti og burðum, orðheppinn, skrafhreyfinn og hláturmildur, og voru hlátrar hans stórir eins og maðurinn sjálfur. Kvaðst hann vera af galdramönnum kominn. Eitt sinn á sínum yngri árum var Steinólfur á ferð í Reykjavík með fleira fólki, og varð honum gengið niður Bankastræti. Þá sá hann í fyrsta skipti á ævinni dverg, sem gekk beint í flasið á honum. Steinólfur varð svo hissa, að hann þreif dverginn upp, svo að hann gæti horft í andlit honum. Fyrst varð honum orðfall, en síðan taldi hann sig þurfa að ávarpa dverginn, og hið eina, sem honum datt í hug að segja, var: „Hvað er klukkan?“ Síðan setti hann dverginn niður, og tók sá á rás út í buskann sem vonlegt var. (Minnir þetta á annað atvik, þegar maður var spurður: „Eruð þér kvæntir?“ — og hann svaraði: „Nei, en ég hef verið í Hrísey.“)

Þrátt fyrir skamma skólagöngu var Steinólfur í Fagradal prýðilega að sér og áhugamaður um umbætur í búskap. Fylgdu jörð hans dúntekja og selveiðar, og einnig hafði hann áhuga á fiskeldi, nýtingu vetnis, vindorku, jarðhita, graskögglagerð og þurrkun á þangi. Skrifaði hann ráðamönnum fræg bréf um ýmis mál. Eitt þeirra var 1984 til sýslumannsins í Dalasýslu um það, hvernig nýta mætti hið furðulega dýr trjónukrabba. Kvað hann það hafa „augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa, og getur dýrið horft aftur fyrir sig og fram og haft yfirsýn fyrir báða sína enda jafntímis; leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins.“ Birtist þetta bréf í Morgunblaðinu 1992. Annað bréf skrifaði Steinólfur 1990 samgönguráðherra, „gullkreistara ríkisins,“ um það, hversu brýnt væri að smíða brú yfir Gilsfjörð, og var það bréf kallað „Gilsfjarðarrollan“. Eftir að heilsan bilaði, fluttist Steinólfur árið 2004 á dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal. Þegar hann var nýkominn þangað, ávarpaði hann einu sinni sem oftar ráðskonuna hressilega og spurði, hvað hún ætlaði nú að hafa í matinn í hádeginu. „Snitsel,“ svaraði hún. Þá sagði Steinólfur öldungis hlessa: „Snitsel? Snitsel! Ég hef étið landsel og útsel. En snitsel, — það kvikindi hef ég aldrei heyrt um, hvað þá étið.“ Steinólfur lést 15. júlí 2012.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband