2.4.2007 | 23:23
Allt rekið ofan í þá
Í umræðum síðustu mánaða um öryggi Íslands í kalda stríðinu hefur allt verið rekið ofan í þá, sem deilt hafa á stefnu íslenskra stjórnvalda á þeirri tíð. Umræðurnar hófust, þegar dr. Þór Whitehead prófessor sagði í tímaritinu Þjóðmálum frá öryggisdeild íslensku lögreglunnar, sem hafði gætur á ráðstjórnarvinum. Þá kvaðst Guðni Th. Jóhannesson hafa heimildir fyrir því, að Ólafur Jóhannesson, sem lengi var formaður Framsóknarflokksins og dómsmálaráðherra, hefði ekki vitað af þessari öryggisdeild. Þetta greip fréttamaður Stöðvar tvö á lofti og flutti frétt um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins kættust mjög og skeyttu engu, að Guðni kvað nafngiftina ekki frá sér komna.
Össur Skarphéðinsson spurði hér í blaðinu, hvort leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins bæri ábyrgð á eftirgrennslan, sem Þór sagði frá í ritgerð sinni, um hugsanleg tengsl Svavars Gestssonar við hina illræmdu leyniþjónustu Austur-Þýskalands, Stasi. Hún fór fram eftir hrun Berlínarmúrsins haustið 1989. Þór upplýsti, að tveir samráðherrar Svavars í ríkisstjórninni 1988-1991, Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson, hefðu sent íslenskan embættismann til Þýskalands í því skyni að afla upplýsinga um Svavar.
Guðni Th. Jóhannesson sá sig síðan knúinn til að greina opinberlega frá því, að hann hefði nú heimildir fyrir því, að Ólafur Jóhannesson hefði vitað um öryggisdeildina, enda hefði starfsemi hennar verið eðlileg í kalda stríðinu. Þessi yfirlýsing Guðna þótti af einhverjum ástæðum ekki eins fréttnæm og hin fyrri.
Áður hafði Jón Baldvin Hannibalsson fullyrt opinberlega, að í utanríkisráðherratíð sinni 1988-1995 hefði sími sinn verið hleraður. Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra frá 1991, vísaði þessu á bug og upplýsti, að tæknimenn Atlantshafsbandalagsins hefðu kannað reglulega, hvort símar ráðherra væru hleraðir. Jón Baldvin brást ókvæða við og hnýtti ýmsum atriðum við sögu sína. Nokkrir fleiri gáfu sig fram, allt alræmdar skrafskjóður, sem sögðu síma sína hafa verið hleraða. Hefði þurft fjölmennt starfslið til að hlusta á allt þeirra tal. Ríkissaksóknari tók málið til rannsóknar, og kom í ljós, að ásakanir Jóns Baldvins voru hugarburður.
Þessum hugarburði rugluðu sumir saman við það, sem þeir Guðni Th. Jóhannesson og Þór Whitehead höfðu upplýst, að öryggisdeild lögreglunnar fékk nokkrum sinnum í kalda stríðinu heimild til hlerana, meðal annars hjá Kjartani Ólafssyni, þá framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins. Kjartan krafðist aðgangs að gögnum um málið, sem Guðni Th. Jóhannesson hafði setið einn að á Þjóðskjalasafninu. Menntamálaráðherra veitti Kjartani aðganginn með sérstökum úrskurði, eins og sjálfsagt var. Það er hins vegar kaldhæðni, að Kjartan hafði verið framkvæmdastjóri flokks, sem hafði árum saman haft vinsamleg samskipti við Austur-Þýskaland, þar sem stjórnvöld beittu hlerunum og njósnum til að kúga þegna sína. Hér voru hins vegar aðeins hafðar gætur á örfáum mönnum, sem grunaðir voru um að hafa í hyggju ofbeldi.
Einn undarlegasta þáttinn í þessum umræðum átti Jón Ólafsson Moskvufari. Hann skrifaði nokkrar blaðagreinar um, að lítil sem engin hætta hefði verið af íslenskum kommúnistum og því síður af Ráðstjórnarríkjunum. Rússneskir leyniþjónustumenn hefðu haldið sér til hófs á Íslandi, og eftir dauða Stalíns hefðu Ráðstjórnarríkin ekki lengur verið alræðisríki. Í Moskvu hafði Jón kannað skjöl um samskipti íslenskra kommúnista og ráðstjórnarinnar og birt um bók 1999, Kæru félagar. Sú bók sýnir þrátt fyrir margvíslegan hálfsannleik áhuga ráðstjórnarinnar á Íslandi og þjónustulund íslenskra kommúnista við hana, eins og Þór Whitehead og Björn Bjarnason rifjuðu upp.
Þeir Þór og Björn hafa hrakið fullyrðingar Jóns Ólafssonar með góðum rökum. Auðvitað voru íslenskir kommúnistar ekki deigari baráttumenn eða óeinlægari í trú sinni en skoðanasystkini þeirra erlendis. Þeir höfðu hér þjálfaðar baráttusveitir fyrir stríð, skipulögðu nokkrum sinnum götuóeirðir og höfðu í hótunum við ráðamenn. Þeir þáðu stórfé úr sjóðum Kremlverja til flokks síns og bókaútgáfu. Ráðstjórnarríkin voru langt fram eftir tuttugustu öld alræðisríki, sem skirrðist ekki við að beita valdi. Nokkrir njósnarar leyniþjónustu hersins störfuðu jafnan í sendiráði þeirra í Reykjavík. Við vitum aðeins um þau dæmi, þegar mistókst að fá Íslendinga til aðstoðar. Tilraun róttæklinga til að gera gys að þessari ógn og viðbrögðum íslenskra ráðamanna við henni er óvirðing við fjölmörg fórnarlömb Kremlverja um heim allan.
Fréttablaðið 2. febrúar 2007.