Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður

Jón Sigurðsson fæddist sem kunnugt er á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, fyrir 201 ári. Það er engin tilviljun, að hann gerðist leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, því að í fari hans var sjaldgæft jafnvægi kappsemi og hófsemi, — vöku, sem unir hlutskipti sínu, og draums, sem vill rætast.

Allir vita, að Jón vildi sækja rétt í hendur Dana. En rétt til hvers? Hver var stjórnmálaskoðun Jóns?

Því er fljótsvarað. Hann var frjálshyggjumaður. Hann dáðist að því, hvernig Bretar takmörkuðu ríkisvaldið með því að dreifa því og skorða það við siði og venjur. Hann hafi lesið með skilningi og alúð rit Jean-Baptiste Says, sem var einn kunnasti lærisveinn Adams Smiths á meginlandi Norðurálfunnar.

Jón skrifaði 1841: „Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu (þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram.“ Enn sagði hann: „Að líkum hætti má atvinnufrelsi og verslunarfrelsi ekki missa, þar sem nokkuð fjör og dugnaður á að komast á fót, og má í því skyni ekki hafa stundarskaða nokkurra manna fyrir augum, heldur gagn alþýðu bæði í bráð og lengd.“

Jón skrifaði bróður sínum 1866: „Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn.“

Skýrar verður skoðun Jóns varla lýst. Hún er þveröfug við þá, sem núverandi valdhafar á Íslandi hafa, en í þeirra sögu renna öll vötn til Dýrafjarðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband