23.4.2012 | 15:54
Viðtalið við Þráin Eggertsson
Morgunblaðið birti 20. apríl fróðlegt viðtal við dr. Þráin Eggertsson hagfræðiprófessor. Ég hygg, að Þráinn sé sá íslenski hagfræðingur, sem nýtur hvað mestrar virðingar og viðurkenningar erlendis, eins og ég hef sannreynt á ráðstefnum og málstofum (án þess að ég telji það neitt úrslitaatriði, því að upphefðin kemur ekki að utan, heldur innan). Ég hef hitt fáa erlenda hagfræðinga, sem ekki hafa lesið stórmerkilegar bækur Þráins á ensku um stofnanahagfræði.
Þráinn bendir á, að bókstafurinn skiptir ekki einn máli. Í grófum dráttum eru t.d. allar þjóðir heims með sömu stjórnarskrána, og þær næstum allar með mjög ítarlega mannréttindakafla. Þegar á hólminn er komið er hins vegar allur gangur á hversu mikil vernd borgurunum er veitt og hversu vel þeir fá að nýta rétt sinn.
Í því sambandi gagnrýnir Þráinn hina umboðslausu samkundu, sem kölluð var saman á dögunum eftir ógildar kosningar, söng á hverjum fundi og samdi langan óskalista. Hugmyndin að baki stjórnarskrártillögunni er frekar barnaleg og virðist ganga að því vísu að samfélaginu megi breyta snarlega og rækilega með því að breyta nafngildi laganna. Sigurður Líndal orðaði þetta vel þegar hann benti á að áður en við smíðum nýja stjórnarskrá ættum við að reyna að fara eftir þeirri gömlu.
Þráinn minnist á siðarofið, sem hér varð eftir fall bankanna. Þegar það gerist að hagkerfið eða hluti þess hrynur myndast eðlilega mikill glundroði og óvissa. Í slíku umhverfi koma úr skúmaskotum alls konar hugmyndafræðilegar afturgöngur.
Þetta er hverju orði sannara. Vita þeir, sem krefjast til dæmis stighækkandi tekjuskatts og upptöku allrar auðlindarentu, að þeir bergmála aðeins það, sem segir í Kommúnistaávarpinu eftir Marx og Engels? Vofur hafa vaknað hér upp og ganga enn ljósum logum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook