21.1.2012 | 11:16
Jóhannes Halldórsson: Minningarorð
Þótt einn höfundur sé oft skráður á bók verða vandaðar bækur jafnan til í samstarfi við glöggskyggna yfirlesara. Eiga þeir mikilvægan þátt í góðum verkum með því að forða hinum skráða höfundi frá villum, jafnframt því sem þeir bæta iðulega stílinn og auka við fróðleik. Jóhannes Halldórsson cand. mag., sem lést 13. janúar 2012, var einn besti yfirlesari, sem ég hef haft. Hann kunni allar reglur um íslenskt málfar út í ystu æsar. En hann var líka afar fundvís á villur, jafnframt því sem hann var sjófróður. Þegar ég tók við textum mínum frá Jóhannesi varð mér oft hugsað til eigin skeikulleika. Hann hafði komið auga á villur, sem farið höfðu fram hjá mér, en öskruðu beinlínis á mig, þegar bent hafði verið á þær. Var mér þó ætíð metnaðarmál að Jóhannes fyndi sem fæst lýti á skrifum mínum. En allt kom fyrir ekki.
Jóhannes Halldórsson var af sama skóla í íslensku, hygg ég, og tveir aðrir yfirlesarar mínir, þeir Jón S. Guðmundsson menntaskólakennari og Eiríkur Hreinn Finnbogason útgáfustjóri. Þeir höfðu allir stundað háskólanám hjá Sigurði Nordal, ritskýranda og skáldi, og Birni Guðfinnssyni málfræðingi og voru hugsjónamenn um fagurt tungutak og þó nákvæmt og skýrt. Þessi skóli var stoltur af íslenskri menningu í ógleymanlegri túlkun Nordals og stundaði af kostgæfni málhreinsun að hætti Björns. Var mér ómetanlegt að þessir öðlingar þrír lásu allir yfir þriggja binda verk mitt um Halldór Kiljan Laxness og tilvitnanasafn það, sem ég gaf loks út 2010 eftir margra ára yfirlegu.
Jóhannes Halldórsson og aðrir af hans skóla þreyttust ekki á að færa ensku- og dönskuskotið mál í textum til eðlilegra horfs. Þeir brýndu fyrir okkur að Íslendingar nota sagnir og beygingar til að tákna hreyfingu, afstöðu og viðburði, en Bretar nafnorð og forsetningar. Textinn á að vera tilgerðarlaus, en laus við lágkúru og ruglandi. Stíllinn er bestur þróttmikill, hraður, einfaldur, bragðmikill og blæbrigðaríkur.
Þeir Jóhannes minntu okkur á að maður væri ekki óákveðið fornafn og að svo væri ekki tíðaratviksorð. Sögnin að ske væri hrein danska og ekki rithæf í íslensku og sögnin að gefa til kynna dönskusletta. Þeir vöruðu við tuggum, til dæmis ofnotkun orða eins og byggja, þróun og grundvöllur, og götumáli, enda hafa menn höfuð og fætur, en dýr haus og lappir. Orðin góðvild og farsæld væru íslenskulegri en velvild og velferð. Þeir kenndu okkur að hugsa um orðin. Við erum sammála einhverjum manni, en tökum undir skoðun hans, enda er henni ekki gefið málið eins og mönnunum. Við mörkum eða tökum stefnu. Hins vegar mótum við hluti úr efnum eins og leir eða gulli.
Jóhannes Halldórsson var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, lotinn í herðum, með arnarnef og skarpa andlitsdrætti, en um varir hans lék jafnan góðlátlegt bros. Hann var hæverskur maður og dagfarsprúður. En þótt hann sé horfinn úr röðum okkar eigum við, sem lært höfum af honum, að halda eftir megni uppi merki hins íslenska skóla, hreinsa mál okkar og vanda, rækta það og þroska.
(Þessi minningarorð birtust í Morgunblaðinu 20. janúar 2012.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Facebook