Már, Davíð, Seðlabankinn og álitsgjafarnir

Með ólíkindum er, að Már Guðmundsson seðlabankastjóri skuli hafa stefnt Seðlabankanum fyrir dóm, af því að hann telji launakjör sín verri en samið hafi verið um. Þetta er sami maðurinn og sagði drýgindalega fyrir nokkru, að hann myndi að sjálfsögðu afsala sér launahækkun, fengi hann hana.

Vel getur verið, að launakjör Más séu verri en hann samdi um á sínum tíma við Jóhönnu Sigurðardóttur, svo að hann eigi „rétt á“ hærri launum. En sumir læra í lífinu, að þeir eiga ekki að ganga eins langt og frekasti réttur þeirra leyfir, heldur halda sér til hófs.

Þegar Davíð Oddsson lét af stöðu borgarstjóra sumarið 1991, átti hann samkvæmt reglum rétt á sex mánaða biðlaunum, jafnvel þótt hann færi í stöðu forsætisráðherra. Hann tók sér ekki þessi biðlaun. Þetta var verulegt fé.

Kona Davíðs, Ástríður Thorarensen, ferðaðist stundum með honum til útlanda, á meðan hann var ráðherra. Hún átti rétt á fullum dagpeningum sem maki ráðherra. Hún tók sér ekki þessa dagpeninga. Þetta var verulegt fé.

Menn geta ímyndað sér, hvernig Ríkisútvarpið og DV hefðu látið, hefði það verið Davíð Oddsson, en ekki Már Guðmundsson, sem hefði sem seðlabankastjóri stefnt Seðlabankanum vegna óánægju um launakjör sín! Og hvernig álitsgjafar eins og Illugi Jökulsson og Mörður Árnason, sem nú steinþegja, hefðu vart náð andanum fyrir hneykslun. Og hvernig þessi frekja og græðgi hefði verið rædd fram og aftur í Silfri Egils og eitt sýnst hverjum.

Og hvar er nú siðfræðistofnun Háskóla Íslands, sem kenndi sérstaklega frekju og græðgi um fall bankanna? Hvers vegna þegir hún um framferði Más?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband