19.1.2012 | 05:59
Söngvarar þjóðvísunnar
Á haftaárunum skömmtuðu örfáir menn allan innflutning til landsins. Höfðu þeir skrifstofu á Skólavörðustíg 14. Ólafur Björnsson prófessor kallaði þá í háði söngsveitina á Skólavörðustíg. Skýringin á þeirri nafngift var, að kasakkatrúðurinn Dzhambúl hafði í lofkvæði um Stalín (sem Halldór Kiljan Laxness sneri hrifinn á íslensku) kallað hann söngvara þjóðvísunnar, af því að hann skynjaði þarfir almennings best.
Hinir íslensku söngvarar þjóðvísunnar vissu líka betur en þjóðin sjálf, hvað henni væri fyrir bestu, þótt ekki væru þeir eins harðir í horn að taka og Stalín. Árið 1936 var Skúli Guðmundsson, húnvetnskur bóndi og alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn, í forsvari fyrir skömmtuninni. Til hans sneri sér kaupmaður einn og bað um leyfi til að flytja inn regnhlífar. Skúli synjaði beiðninni svofelldum orðum: Ekki brúkuðu forfeður vorir regnhlífar.
Um þær mundir kom á fund Skúla Hjörtur Jónsson, kaupmaður í Ólympíu. Hann átti von á erfingja og óskaði leyfis til að flytja inn barnavagn. Svarið var: Veistu nokkuð, Hjörtur? Ég var bara lagður í varpann. Næsti!
Skúli taldi margt fleira óþarfa. Anna Friðriksson, eiginkona Ólafs Friðrikssonar ritstjóra, rak hljóðfæraverslun í Reykjavík. Þegar hún sótti um að fá að flytja inn hljóðfæri, sagði Skúli: Haldið þér ekki, frú Friðriksson, að yður væri betra að hugsa meira um eilífðarmálin en þá hina veraldlegu hlutina?
Sjálfstæðismenn, sem fylgdu í orði kveðnu frjálsum viðskiptum, tóku einnig að sér að syngja þjóðvísuna. Þegar séra Sigurjón Jónsson í Kirkjubæ í Hróarstungu leitaði til dr. Magnúsar Jónssonar guðfræðiprófessors, sem sat fyrir Sjálfstæðisflokkinn í svokölluðu Fjárhagsráði, um leyfi fyrir jeppa, svaraði Magnús: Páll postuli kristnaði allt Rómaveldi og átti engan jeppa. Og þú færð engan jeppa hjá okkur.
Hugarfarið að baki skömmtuninni birtist vel í tveimur fleygum setningum. Sigurður Runólfsson, sem starfaði í Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, sagði um dönsku blöðin, sem voru vinsæl á árum áður: Það er ómögulegt að vera alltaf að panta þetta. Það fer undireins.
Og viðkvæði kaupfélagsmanna á Eskifirði á öðrum fjórðungi tuttugustu aldar var: Það, sem ekki fæst í kaupfélaginu, vantar ykkur ekki.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2012 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook