Kollubaninn

Á meðan Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra 1927-1932, beitti hann ákæruvaldinu, sem þá var í höndum ráðherra, óspart gegn andstæðingum. Á síðustu ráðherradögum sínum höfðaði hann til dæmis mál gegn Magnúsi Guðmundssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem tók við ráðuneytinu af honum. (Ákæran snerist um lögfræðilega ráðgjöf Magnúsar í gjaldþrotamáli.)

hermann_1122520.jpgEinn skjólstæðingur Jónasar frá Hriflu, Hermann Jónasson, var lögreglustjóri í Reykjavík og hafði einnig dómsvald þar. Sakfelldi hann Magnús dómsmálaráðherra í nóvember 1932 og dæmdi hann í nokkurra vikna fangelsi upp á vatn og brauð. Magnús sagði þegar af sér ráðherraembætti og beið dóms Hæstaréttar, sem sýknaði hann í árslok 1932.

Rösku ári síðar var Hermann sjálfur kærður fyrir lögbrot. Hefði hann skotið kollu úti í Örfirisey 1. desember 1930, en hún var þá friðuð. Sóru tvö vitni þess eið að hafa séð Hermann skjóta kolluna. Var Hermann sakfelldur í undirrétti, en sýknaður í Hæstarétti. Þá var hann orðinn forsætisráðherra. Í niðurstöðu sinni kvaðst Hæstiréttur vissulega ekki geta gengið fram hjá vitnisburði tveggja eiðsvarinna manna, er séð hefðu Hermann skjóta kolluna, en þennan dag hefði hann verið að skotæfingum, og hefði kollan flogið í veg fyrir skot úr byssu Hermanns!

Hermann kastaði fram þingvísu 1934 með skírskotun til þess, að tvær starfstúlkur þingsins hétu Svanhildur:

Ævi mín var eintóm leit

eftir villtum svani.

En ég er eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.

En Arnór Sigurjónsson botnaði söguna. Í minningargrein um Hermann í Þjóðviljanum 29. janúar 1976 kvaðst Arnór hafa komist að því, að ellefu vindstig hefðu verið í Reykjavík daginn, sem Hermann var sakaður um að skjóta kolluna. Taldi Arnór ógerlegt að skjóta fugla við þær aðstæður og skundaði til Hermanns í því skyni að benda honum á þetta varnaratriði. Hermann hefði þá trúað sér fyrir leyndarmáli: „Ég skaut kolluna, af því mig langaði svo til þess að vita, hvort ég gæti hitt hana á löngu færi í þessu ofsaveðri.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 19. nóvember og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband