19.11.2011 | 13:01
Góðir dómar
Ég hlýt að vera ánægður með þá dóma, sem birst hafa um bók mína, Íslenska kommúnista 19181998.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, sem gjörþekkir stjórnmálasögu síðustu hálfu aldar, birti umsögn í Morgunblaðinu 13. nóvember 2011, þar sem hann sagði meginniðurstöðu verksins, að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu verið erindrekar erlends valds. Það væri staðfest á óyggjandi hátt í bók minni og í hinu mikla verki dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, sem kom út fyrir ári. Styrmir nefndi að vísu, að hann hefði þekkt konu, sem bregður fyrir í bókinni í fremur ógeðfelldu hlutverki, Ragnheiði Möller. Sú söguhetja væri ekki konan, sem hann þekkti. Að lokum sagði Styrmir:
Mér finnst Hannes Hólmsteinn hafa unnið mikið afrek með þessari bók. Það liggur við að það sé veikleiki á bókinni hvað hann gerir lítið af því að draga ályktanir af þeim upplýsingum, sem hann hefur safnað saman, og mundi kannski einhver telja það ólíkt höfundinum, sem er betur þekktur fyrir flest annað en að liggja á skoðunum sínum. Myndirnar í bókinni eru stórmerkilegar og frágangur mjög góður.
Það er rétt hjá Styrmi, að ég lagði aðaláherslu á frásögnina sjálfa, ekki á dóma, því að ég lét þá lesendum eftir. Ég dró fram í dagsljósið staðreyndir og reyndi að skipa þeim í rökrænt samhengi í hraðri frásögn.
Eiríkur Jónsson blaðamaður bloggaði um bókina frá öðru sjónarhorni, eins og honum einum er lagið, og sagði meðal annars:
Í raun er þetta frábær bók og þá sérstaklega vegna myndanna sem prýða hverja síðu með myndatextum eins og í dönskum vikublöðum. Svo er gaman að grípa ofan í textann og mannlýsingar Hannesar Hólmsteins sem lýsir ekki bara geðslagi og hugmyndum persónanna heldur líka göngulagi og jafnvel kækjum. Hannes Hólmsteinn skrifar svo lipran texta að engu er líkara en maður sé að lesa danskt vikublað.
Einhverjum kann að þykja hrósið blendið, þegar mér er líkt við danskan vikublaðshöfund, en ég reyndi vissulega að skrifa fyrir almenning, ekki aðeins fræðimenn, og ef Eiríkur hefur rétt fyrir sér, þá hefur það tekist.
Jón Sigurðsson, sagnfræðingur og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, birti umsögn í Fréttablaðinu 18. nóvember 2011, en Jón er öllum hnútum kunnugur í sósíalistahreyfingunni frá þeim tíma, er hann starfaði þar af slíku kappi, að hann var kallaður Jón bolsi. Jón sagði, að bók mín væri læsileg frásögn, prýdd fjölda mynda og krydduð skemmtilegum arfsögnum. Kaflar eru stuttir og efnið streymir létt fram. Þetta er myndarleg bók og vel gerð. Hann bætti við: En í þessari sagnasýningu er lesanda haldið við efnið um leið: við hræðilega alvöru mannkynssögunnar á 20. öld og blóði drifinn hryllingsferil kommúnismans. Hann sagði einnig: Frásögnin er hröð og efnismagn feiknarlegt. Höfundur á létt með að hrífa lesandann með sér.
Jón sagði hins vegar hið sama og Styrmir, að hann hefði sjálfur þekkt aðra og betri hlið á sumum þeim kommúnistum, sem komu við sögu í bók minni. Meðal þeirra mörgu, sem Jón nefndi, var Sigfús Daðason skáld. Margt var áreiðanlega gott um Sigfús, en það breytir engu um það, að hann var einn þeirra, sem tóku þátt í því að reyna að gera lítið úr Borís Pasternak og þagga niður í Arnóri Hannibalssyni, eins og ég rek í bók minni. Það voru einmitt margar hliðar á þessum mönnum, sumar góðar og aðrar miður góðar.
Jón sagði einnig, að hlýðnikenningin hefði ekki verið staðfest í bók minni. Ég setti þar raunar ekki fram neina hlýðnikenningu, heldur lét lesandann sjálfan um að dæma um það, hversu miklu máli náin tengsl íslenskra kommúnista og sósíalista við austantjaldsríkin skiptu. Ég vildi frekar segja sögu, dramatíska, sorglega, persónulega, átakanlega sögu, en predika. Hitt er annað mál, að niðurstaða mín er, að íslenskir kommúnistar hafi hvorki verið betri né verri, meiri né minni, kommúnistar en annars staðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook