27.8.2011 | 13:07
Hvers vegna var kóngurinn settur af?
Þótt Íslendingar væru langflestir sammála um að taka utanríkismál og landhelgisgæslu í eigin hendur, er sambandslagasáttmálinn frá 1918 rynni út 1943, var lengi óvíst, hvort þeir myndu um leið setja kónginn af. Enn hafa Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland ekki slitið konungssambandi við Stóra-Bretland.
Líklega hefur konungur Íslands og Danmerkur, Kristján X., einhverju valdið sjálfur um afsetningu sína. Hann talaði niður til Íslendinga. Hannes Hafstein var til dæmis í mikilli geðshræringu eftir fyrsta fund sinn 1912 með hinum nýja konungi, en faðir hans, Friðrik VIII., hafði verið mikill vinur Íslendinga.
Í einkasamtölum kom fram, að konungur var óánægður með, að Íslendingar skyldu ekki reisa honum höll á landi sínu. Einnig má nefna, að hann klæddist herforingjabúningi á Alþingishátíðinni 1930, þótt ríkisstjórnin íslenska hefði sérstaklega beðið hann um að vera borgaralega til fara.
Ýmis ummæli konungs voru ekki heldur til þess fallin að auka honum vinsældir. Hann sagði við Kristmann Guðmundsson rithöfund: Ég vildi ekki eiga að lifa þar norður frá.
Eitt sinn, er Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokksins, átti erindi til Kaupmannahafnar og gekk fyrir konung, sagði hann með lítilsvirðingu í röddinni: Þér búið auðvitað á gistiheimili (missionshotel), herra Baldvinsson? Jón svaraði: Nei, ég bý á hótelinu Kongen af Danmark.
Konungur kvað svo að orði við Svein Björnsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, síðar forseta Íslands: Það, sem Íslendingar þurfa, er einhver Mússólíni. Sveinn svaraði kurteislega: Og yðar hátign viljið ef til vill verða vor Viktor Emanúel? Viktor Emanúel Ítalíukóngur var lágvaxinn og skrækróma og í litlum metum.
Ótrúlegast var þó, hvernig konungur ávarpaði Jónas Jónsson frá Hriflu á Alþingishátíðinni 1930: Svo að þér eruð sá, sem leikið lítinn Mússólíni hér á landi? Jónas roðnaði af reiði, en stillti sig og svaraði: Við þörfnumst ekki slíks manns hér á landi, yðar hátign.
(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út haustið 2010. Hann birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2011.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook