8.6.2011 | 23:16
Á stuðningsmannafundi Geirs H. Haardes
Ég var þriðjudaginn 7. júní á fundi, sem stuðningsmenn Geirs H. Haardes efndu til í Hörpunni vegna ákærunnar á hendur honum fyrir landsdómi. Þar ávarpaði Geir fyrst samkomuna, en síðan flutti Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og heimspekingur, skörulega ræðu.
Geir sagði það, sem mér finnst sjálfum blasa við, að þetta eru pólitísk réttarhöld. Þau snúast ekki um afbrot, sem hafi verið framin, heldur eru þau tilraun til að jafna um gamlan andstæðing.
Hann lýsti því, hvernig þeir aðilar, sem fóru með ákæruvaldið í málinu, breyttu einnig lögum um það í miðjum klíðum og höfðu í raun áhrif á það, hverjir sitja sem dómarar í málinu. Ætti þetta eitt sér að nægja til þess, að vísa bæri málinu frá.
Kristrún benti á, að í réttarríkinu yrði sannleikurinn að ráða, ekki spuni, áburður og ásakanir. Til dæmis mætti ekki taka skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem niðurstöðu, sem hefði verið sannprófuð fyrir rétti eftir föstum og fyrirsjáanlegum reglum.
Þess vegna væri málið vanreifað. Sá meiri hluti Alþingis, sem samþykkt hefði ákæruna á hendur Geir, hefði ekki gert neina sjálfstæða rannsókn á málinu, heldur látið sér nægja að endurtaka ýmis atriði úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Ljóst væri, sagði Kristrún, að þeir þingmenn, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Geir, hefði ekki haft hina minnstu þekkingu eða skilning á alþjóðlegum bankakreppum eða viðbrögðum við þeim.
Sjálfur tel ég, að mannréttindi hafi verið brotin á Geir H. Haarde í þessu máli. Hann á sömu kröfu og hver annar íslenskur ríkisborgari til réttlátrar málsmeðferðar. Hann hefur ekki fengið hana fram að þessu. Vonandi breytist það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook