15.5.2011 | 08:43
Hvað get ég gert fyrir land mitt?
Fræg eru orð Johns F. Kennedys Bandaríkjaforseta við embættistöku hans í janúar 1961: Þess vegna, landar mínir, spyrjið ekki, hvað land yðar geti gert fyrir yður, spyrjið, hvað þér getið gert fyrir land yðar.
Menn voru fljótir að benda á, að bandaríski dómarinn Oliver Wendell Holmes hafði notað svipað orðalag á fundi í Keene í New Hampshire 30. maí 1884: Við stöldrum við til að rifja upp, hvað land vort hefur gert fyrir oss, og spyrja, hvað vér getum gert fyrir land okkar í endurgjaldsskyni.
Warren G. Harding, sem var 29. forseti Bandaríkjanna, sagði í sama anda á þingi Lýðveldisflokksins (Repúblikana) í Chicago 1916: Við verðum að hafa á að skipa borgurum, sem hafa minni áhuga á því, hvað ríkið geti gert fyrir þá, en á því, hvað þeir geti gert fyrir þjóðina.
Ágætur kunningi minn, David Friedman (sonur Miltons), sem kom hingað til lands 1980, umorðaði hins vegar þessa hugsun háðslega: Þú skalt ekki spyrja, hvað land þitt getur gert fyrir þig, heldur hvað það hefur gert þér. David er eins og margir aðrir frjálshyggjumenn þeirrar skoðunar, að oft geri ríkið illt verra. Það sé frekar meinsemdin en lækningin.
Svipaða hugsun orðaði raunar Ronald Reagan Bandaríkjaforseti svo í ræðu 11. desember 1972: Ríkið leysir ekki vandann. Það heldur honum uppi fjárhagslega.
Hins vegar rakst ég á í grúski mínu, að Steingerður Guðmundsdóttir, leikkona og skáld, sem uppi var 19121999, notaði svipað orðalag og Kennedy, nær tveimur árum áður en hann flutti ræðu sína. Steingerður, sem var dóttir Guðmundar skólaskálds Guðmundssonar, skrifaði í greininni Hugleiðingar um listamannalaun í Morgunblaðinu 17. apríl 1959: Afstaða hvers listamanns ætti að vera þessi: hvað get ég gert fyrir landið? ekki: hvað getur landið gert fyrir mig?
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:07 | Facebook