Víg Osama bin Ladens

Bandaríkjamenn hljóta að vera fegnir. Þeir hafa fundið og vegið þann mann, Osama bin Laden, sem skipulagði hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 11. september 2001, en hún er fyrsta raunverulega árásin, sem gerð hefur verið á þetta volduga ríki í vestri.

Óljóst er þó, eftir hvaða alþjóðalögum Bandaríkjamenn fara með því að senda þyrlusveit inn í Pakistan og fella bin Laden, en það læt ég eftir öðrum fróðari mér. Þeir eru í stríði við hryðjuverkamenn, og í stríði er flest leyfilegt í reynd.

Osama bin Laden var öfgasinnaður múslimi. Því er stundum haldið fram, að öll trúarbrögð séu jafnhættuleg. Ég tek ekki undir það. Mikill munur er á kristinni trú og Íslam, eins og Samuel Huntington benti á í merkri bók um árekstur menningarsvæða.

Hver er gæfumunurinn? Kristur var kennimaður, predikari. Hann var í huga okkar fallegur maður í síðri, hvítri skikkju með heiðríkju í svip og hélt fjallræðuna. Hann gerði engum mein, þótt hann brýndi fyrir lærisveinum sínum, að þeir yrðu að vera honum dyggir. Hann tók fram, að sitt ríki væri ekki af þessum heimi.

Aðspurður sagði Kristur, að menn ættu að gjalda keisarans það, sem keisarans væri, og Guði það, sem Guðs væri. Í þessum orðum felst skiptingin í veraldlegt og andlegt vald, sem miklu hefur breytt um fjölræðið á Vesturlöndum. Valdið skiptist milli keisara og páfa, og síðar skiptist hið veraldlega vald enn frekar fyrir rás viðburða og hetjulega baráttu einstakra frelsisvina.

Í Íslam er þessi skipting í veraldlegt og andlegt vald miklu óskýrari. Múhameð var ekki aðeins spámaður, heldur líka herforingi. Hann sveiflaði sverði af fráum hesti, grimmur á svip, og lagði undir sig borgir. Í reynd er Íslam því miklu óumburðarlyndari trú en hin kristna. Þar er valdið á einni hendi, ekki mörgum.

Vitaskuld eru jafnmargir ágætir menn múslimar og kristnir menn. Manngæska dreifist sennilega fremur jafnt á öll trúarbrögð. En það breytir því ekki, að Íslam er miklu hættulegra frelsinu en kristin trú, og öfgasinnað Íslam á okkar dögum er hættulegt því frelsi, sem smám saman hefur aukist á Vesturlöndum og við njótum nú.  Sæmdarmorð í röðum íslamskra innflytjenda og dauðadómar í Arabaríkjum yfir rithöfundum og skopteiknurum á Vesturlöndum sýna það best.

Með vígi Osama bin Ladens hefur óvinum vestræns frelsis fækkað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband