13.4.2011 | 07:21
Þriðji heimurinn
Stundum er orðasambandið þriðji heimurinn notað um fátækar þjóðir í suðri. Franski félagsfræðingurinn Alfred Sauvy, sem uppi var frá 1898 til 1990, smíðaði það. Hann skrifaði grein undir fyrirsögninni Þrír heimar, ein jörð í LObservateur 14. ágúst 1952. Þar segir: Því að loksins vill þessi Þriðji heimur, vanræktur, arðrændur, fyrirlitinn, eins og Þriðja stétt, líka vera eitthvað.
Fyrsti heimurinn var samkvæmt kenningu Sauvys þróuð iðnríki Vesturlanda, sem bjuggu við kapítalisma og lýðræði. Annar heimurinn var kommúnistaríkin, en þriðja heiminn mynduðu aðrar þjóðir.
Sauvy vísaði með þessu hugtaki beint til frægra orða franska ábótans og byltingarmannsins Emmanuels Josephs Sieyès, sem gaf út bækling í janúar 1789, þar sem sagði: Hvað er þriðja stétt? Allt. Hvað hefur hún verið fram að þessu í stjórnmálum? Ekkert. Hvað vill hún verða? Eitthvað?
Þriðja stétt Frakka á átjándu öld var það, sem við nútímamenn myndum kalla miðstétt, kaupmenn, lögfræðingar, embættismenn og aðrir slíkir. Eins og allir vita, skiptist stéttaþingið franska, sem Lúðvík XVI. kallaði saman 1789, í aðalsmenn, klerka og borgara. Má kalla frönsku stjórnarbyltinguna uppreisn borgaranna gegn aðli og klerkum, þriðju stéttar gegn hinum tveimur.
Þýski sósíalistinn Ferdinand Lassalle talaði síðan um það á síðari helmingi nítjándu aldar, að fjórða stétt, verkalýðsstéttin, væri líka til og ætti heimtingu á mannsæmandi tilveru.
Hvað sem því líður, hafa fræðimenn bent á, að þriðji heimurinn sé lítt nothæft hugtak. Til þess er ekki aðeins sú ástæða, að annar heimurinn er nánast horfinn úr sögunni, heldur líka, að löndin í þessum svokallaða þriðja heimi eru gerólík. Sum hafa skipað sér á bekk með þróuðum iðnríkjum, til dæmis Suður-Kórea og Taívan. Sum eru örsnauð, svo sem Nepal, en önnur vellauðug, til dæmis Kúvæt. Sum eru risastór, Kína, Indland og Brasilía, en önnur mjög lítil, meðal annars eylönd í Karíbahafi og Kyrrahafi.
Því er við að bæta, að forseti tékkneska lýðveldisins, Vaclav Klaus, heldur því fram, að þriðja leiðin, sem sumir segja til milli kapítalisma og sósíalisma, sé leiðin beint inn í Þriðja heiminn!
(Þessi fróðleiksmoli eftir mig birtist í Morgunblaðinu 9. apríl og er sóttur í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún fæst í öllum bókabúðum og er tilvalin fermingar- eða útskriftargjöf, og árita ég hana með ánægju.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook