Það lagast með aldrinum

Ásgeir Ásgeirsson var aðeins 29 ára að aldri, þegar hann var í framboði í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1923 gegn íhaldsmanninum Guðjóni Guðlaugssyni á Ljúfustöðum. Þá mælti hann hin fleygu orð: „Mér er borið á brýn, að ég sé of ungur. En ég get huggað menn með því, að það lagast með aldrinum.“ Náði Ásgeir kjöri og sat á þingi, uns hann var kjörinn forseti Íslands 1952.

Þessi fyndni Ásgeirs á kosningafundum vestra er þó miklu eldri. Sænska skáldið Johan Henrik Kellgren, sem uppi var 1751–1795, orti til dæmis:

 

Det fel han haft i ungdomsvåren

Att vara pojka förr än karl,

Man ganske visligt anmärkt har;

Men detta fel försvann med åren.

 

Á íslensku er þetta í lausu máli: Það mein hans í æsku að vera drengur, áður en hann varð maður, hvarf, eins og vitrir menn hafa tekið eftir, með árunum.

Nokkru síðar komst Johann Wolfgang von Goethe svo að orði í Maximen und Reflexionen (1822): „Wenn die Jugend ein Fehler ist, so legt man ihn bald ab.“ Ef æskan er ókostur, þá losna menn fljótt við hann.

Um svipað leyti orti danska skáldið Johan Ludvig Heiberg, sem uppi var 1791–1860:

 

Og er vi for unge, hvad siger saa dette?

Den Fejl kan vi sagtens med Aarene rette.

 

Þetta má þýða: Og hvað segir það, að við séum of ungir? Þann galla má laga með árunum.

Norskur málsháttur, sem Ivar Aasen tók upp í málsháttasafni sínu frá 1856, Norske Ordsprog, er á þessa leið:

 

For ung er eit godt lyte

det veks av med årum.

 

Þetta hljóðar svo á íslensku: Að vera of ungur er góðkynjað mein, sem menn vaxa upp úr með árunum.

 

(Þessi fróðleiksmoli er tekinn saman úr 992 bls. bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir síðustu jól, en hún fæst í öllum góðum bókabúðum og er tilvalin fermingargjöf eða gjöf í tilefni brautskráningar úr skóla. Ég skal fúslega árita hana, en mig er oftast að finna í þjóðdeildinni á Þjóðarbókhlöðunni, þar sem ég sit að grúski mínu. Hafa nokkrir kaupendur einmitt lagt leið sína þangað í því skyni að fá áritun, mér til ánægju og vonandi líka þeim Svani Kristjánssyni og Helgu Kress, sem sitja stundum við næstu borð.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband