4.4.2011 | 10:40
DV = EV eða HV?
Fróðir menn velta því fyrir sér, hvort nafnið á dagblaðinu DV sé ekki orðið úrelt. Það merkir sem kunnugt er Davíð Vondur, enda hafa þar síðustu misserin birst nokkrar greinar á dag gegn Davíð Oddssyni, jafnvel þótt vafamál sé, hvort blaðamennirnir séu enn á launum hjá auðjöfrunum, sem börðust sem harðast gegn Davíð.
En á blaðið ekki heldur að heita EV sem skammstöfun fyrir EndurVinnslu? Það birti í vikunni margra mánaða frétt sem sérstaka uppljóstrun. Hún var, að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefði fengið 10 millj. kr. framlag frá fjármálaráðuneytinu til að rannsaka áhrif skattbreytinga. Þetta kom meðal annars fram í svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns. Var ég umsjónarmaður þessa rannsóknarverkefnis, eins og kom fram í formála bókar minnar, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.
Eða ætti að kalla það HV sem skammstöfun fyrir HandVömm? Auk þess sem blaðamennirnir birtu nokkurra mánaða frétt sem nýja, fóru þeir af einhverjum furðulegum ástæðum rangt með eitt aðalatriði málsins. Þeir höfðu ekki fengið úr fjármálaráðuneytinu skýrslu mína við lok rannsóknarverkefnisins, heldur aðeins afrit af bréfi ráðuneytisstjórans, þar sem hann bað um slíka skýrslu. Í stað þess að hringja í mig og fá upplýsingar birtu þeir sérstaka frétt um, að ég hefði vanrækt að skila skýrslunni! Hún hafði verið send ráðuneytinu 2009 og var mjög rækileg.
Illgirnin og heimskan hafa lengi barist um völdin í sálarlífi Jóhanns Haukssonar, sem annaðist þennan fréttaflutning. Mér sýnist heimskan nú hafa vinninginn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook