Hann heilsaði Jónasi

Jónas Jónsson frá Hriflu var skarpur maður, en átti erfitt með að hemja sig. Þegar hann var ráðherra í minnihlutastjórn Framsóknarflokksins árin 1927–1932, þótti hann misnota jafnt veitingarvald sitt í kennslumálaráðuneytinu og ákæruvald sitt í dómsmálaráðuneytinu í þágu stjórnmálahagsmuna. Þess vegna sagði Hermann Jónasson við hann í Ráðherrabústaðnum 1937, þegar þeir kepptu um það,  hvor þeirra ætti að vera forsætisráðherra: „Þú kannt að skrifa, en ekki að stjórna.“ Og þess vegna sagði Bjarni Benediktsson eitt sinn við hann með hógværlegu brosi: „Þín vinnubrögð í ríkisstjórninni verða jafnan öðrum til viðvörunar.“

Eitt fórnarlamb Jónasar var Jóhannes Jóhannesson, bæjarfógeti í Reykjavík, sem Jónas hrakti úr embætti og fékk síðan dæmdan fyrir litlar sakir (hann hafði ekki fremur en margir aðrir bæjarfógetar eða sýslumenn reiknað dánarbúum í vörslu sinni fulla vexti). Jóhannes var virtur maður, lengi alþingismaður Seyðfirðinga fyrir Íhaldsflokkinn og síðar Sjálfstæðisflokkinn. Má nærri geta, að þetta mál varð honum mikill áfall. Á efri árum sagði hann einni frændkonu sinni frá því eftir gönguferð, að hann hefði þar hitt Jónas frá Hriflu og heilsað honum. „Heilsaðirðu honum Jónasi?“ spurði konan undrandi. „Já, auðvitað, ég hef aldrei gert honum neitt,“ svaraði Jóhannes.

Minnir þessi skemmtilega saga á aðra af gríska heimspekingnum Sókratesi, sem Xenófón greinir frá í Minningum sínum. Sókrates furðaði sig á því, þegar maður einn reiddist, af því að oflátungur nokkur hefði ekki tekið kveðju hans: „Hlægilegt! Þú hefðir ekki reiðst, hefðir þú rekist á mann við verri heilsu en þú. En þú kippir þér upp við að hitta mann, sem er ókurteisari en þú.“

En sanngjarnasti dómurinn um Jónas frá Hriflu er ef til vill sá, sem hinn vitri bændahöfðingi Bjarni Ásgeirsson kvað upp: „Honum verður fyrirgefið mikið, af því að hann hefur elskað mikið.“ Vísaði Bjarni þar vitanlega í hina helgu bók, en í Lúkasarguðspjalli er komist svo að orði um bersyndugu konuna: „Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist eftir mig í Morgunblaðinu 19. febrúar 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband