Menn geta grennst

Ég endurnýjaði við síðustu áramót heitin, sem ég hafði gefið næstu áramót á undan, fyrir rösku ári. Þau voru að:

1. reyna að grenna mig,

2. leitast við að spara, draga úr eyðslu,

3. hreinsa til á skrifborðinu, ljúka ýmsum verkefnum.

Ég hef verið tiltölulega ánægður með efndir þriðja heitisins. Í árslok 2009 kom út eftir mig bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör og haustið 2010 ritið Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem ég hef haft í smíðum í fimmtán ár. Vinn ég nú af kappi að ýmsum öðrum verkefnum, sem sum hafa beðið allt of lengi.

Að sama skapi hef ég verið óánægður með efndir fyrsta og annars nýársheitisins. En fyrir rúmum þremur vikum ákvað ég að taka mig á um fyrsta heitið. Ég hætti alveg að bragða áfengi og tók að iðka langar gönguferðir daglega til að auka brennsluna, fjörutíu til fimmtíu mínútur hverja ferð. Jafnframt ákvað ég að sneiða hjá fæðu, sem rík væri að kolvetni.

Þetta hefur haft þær afleiðingar, að ég hef lést um fimm kíló, og er ég að vonum sáttur við það. En aðalatriðið er samt að fara ekki í megrun, því að það mistekst alltaf, menn bæta við sig aukakílóum, eftir að megruninni lýkur. Aðalatriðið er að breyta lífsháttunum nægilega og þó hóflega til þess, að þess sjái stað.

Því má síðan skjóta inn í, að góður árangur við að efna fyrsta heitið sparar stórfé og auðveldar þannig að standa við annað heitið.

Ég tek það fram, að ég ætla ekki í neitt stórkostlegt framtíðarbindindi. Ég ætla til dæmis að fá mér hanastél og borðvín á afmælisdaginn minn, sem framundan er. En um Bakkus er það að segja, að hann er góður þjónn, en vondur húsbóndi.

Þetta má orða öðru vísi. Hver er munurinn á fíkn og nautn? Á átvaglinu og sælkeranum? Á ofdrykkjumanni og hófdrykkjumanni? Ekkert eitt og endanlegt svar er til, en samt liggja einhver ósýnileg og lítt skilgreinanleg mörk á milli fíknar og nautnar. Ég ætla að reyna að halda mér við nautnina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband