21.12.2010 | 01:23
Friðrik H. Jónsson. Minningarorð
Dr. Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrverandi forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, var jarðsunginn í gær, 20. desember 2010, frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Frá því að ég var skipaður lektor í stjórnmálafræði í félagsvísindadeild Háskóla Íslands sumarið 1988 og allt fram til síðasta dags, sýndi Friðrik mér ætíð hina sömu gagnrýnu vinsemd og öllum öðrum starfsfélögum sínum. Hann lagði jafnan gott til mála, en var samt hvorki vilja- né skoðanalaus, heldur einmitt mjög fastur fyrir og röggsamur. Hann hafði til dæmis ákveðnar stjórnmálaskoðanir, en fór vel með þær og tók undantekningarlaust rökum. Oft vorum við sammála, enda flokksbræður, en hann var samt aldrei á neinni réttlínu.
Ég tók snemma eftir því, hversu vel að sér Friðrik var í sérgrein sinni, félagssálfræði. Naut ég oft góðs af ábendingum hans um mál, sem þeirri grein tengdust. Við áttum líka mjög ánægjulegt samstarf, þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og ég tók að mér umsjón með viðamiklu rannsóknarverkefni fyrir stofnunina, sem fjármálaráðuneytið hafði beðið um: Mat á áhrifum skattabreytinga, ekki síst á velferð, árin 19912007. Var Friðrik með mér í ráðum um það verkefni, sem unnið var árin 20072009, og las gaumgæfilega yfir bækur þær, sem voru meðal annars afrakstur verkefnisins. Kom þá í góðar þarfir, hversu margt hann kunni fyrir sér í rannsóknaraðferðum og úrvinnslu tölulegra gagna. Friðrik var forkur til vinnu og átti áreiðanlega drjúgan þátt í því, hversu öflug sálfræðin varð í Háskóla Íslands.
Friðrik var í hærra meðallagi og þéttur á velli, með stórgert andlit og góðlegan svip, jafnvel örlítið bangsalegur. Hann var glaðsinna og gamansamur og oftast glettnisglampi í augum. Kímni hans var græskulaus, en hann var alls ekki blindur á galla náunga sinna fremur en kosti; og gat hann goldið lausung við lygi. Hann var einn þeirra manna, sem gerðu félagsvísindadeild þess tíma að notalegum vinnustað. Minnist ég margra stunda með Friðrik, heima hjá honum í grillveislum, heima hjá mér í óteljandi útgáfuhófum, inni á skrifstofu hjá honum eða Ólafi Þ. Harðarsyni á föstudögum síðdegis með viskídreitil í glasi, þar sem óspart var skrafað og skeggrætt, og miklu oftar og miklu víðar.
Sá tími er liðinn og kemur aldrei aftur, en eftir lifir minningin um góðan dreng, sem kvaddur var skyndilega burt, öllum að óvörum. Minningin er eini sælureiturinn, sem enginn getur hrakið okkur út úr, og þar býr Friðrik H. Jónsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:29 | Facebook