Íslenskar skammavísur

Í Grágás, lögbók hins forna Þjóðveldis, segir: „Ef maður yrkir hálfa vísu um mann, þá er löstur er í eða háðung, og varðar það skóggang.“ Er ástæðan til svo harðrar refsingar sú, sem Haraldur harðráði benti á: „Er verri einn kviðlingur, ef munaður verður eftir, en lítil fémúta, um dýran mann kveðinn.“ Menn muna skammavísur.

Margar slíkar vísur hafa einmitt lifað á vörum þjóðarinnar. Ekki er þó alltaf vitað, um hverja þær eru ortar. Hjálmar Jónsson í Bólu orti:

Dó þar einn úr drengja flokk,
dagsverk hafði unnið,
lengi á sálar svikinn rokk
syndatogann spunnið.

Þetta mun ort um Sigurð hreppstjóra Jónsson í Krossanesi í Vallhólma. Stendur það handskrifað í einu eintaki Þjóðarbókhlöðunnar af kvæðabók Hjálmars, sem Hannes Hafstein gaf út 1888, og er það eintak úr bókum Finns Jónssonar prófessors.

Önnur skammavísa Hjálmars er alkunn:

Þarna liggur letragrér,
lýðir engir sýta.
Komi nú allir hrafnar hér
hans á leiði að skíta.
 
En þessi vísa var ort í gamni við séra Jón Benediktsson í Goðdölum, sem kippti sér ekki upp við hana.

Mér leikur hins vegar forvitni á að vita, um hvern Sigurður J. Gíslason frá Skarðsá orti þessa vísu:

Öll hans loforð eru svik,
allt hans tal er þvaður.
honum þykir hægra um vik
að heita en vera maður.

Ef einhverjir lesendur vita þetta, þá mættu þeir gjarnan senda mér línu (tölvuskeyti).

 

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í nýútkominni bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 18. desember 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband