17.12.2010 | 18:00
Bók mín í sjónvarpi
Bók mín, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, kom út í nóvemberbyrjun og er til sölu í öllum bókabúðum. Hún er 992 bls. að stærð, og eru 215 bls. af henni rækileg atriðisorðaskrá, og játa ég, að mikið verk og erfitt var að vinna skrána, en nauðsynlegt og gagnlegt.
Tilgangur minn með þessu verki var ekki aðeins að semja handbók fyrir ræðumenn og rithöfunda eða fróðleiksnámu fyrir grúskara, heldur einnig að leggja mitt af mörkum til þess, að margt úr íslenskri menningu, sérstaklega hinni blómlegu mælsku- og umræðuhefð okkar Íslendinga, varðveittist.
Sigurður G. Tómasson íslenskufræðingur kynnti bókina í þætti sínum, Segðu okkur frá bókinni, sem sendur var út á sjónvarpsstöðinni ÍNN sunnudagskvöldið 5. desember. Var ég síðastur í röðinni þeirra höfunda, sem hann talaði við í þeim þætti. Horfa má á þáttinn hér.
Þá birtist heilsíðuauglýsing um bókina í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. desember, þar sem þau Jón G. Friðjónsson, prófessor í málfræði og höfundar stórvirkisins Mergs málsins, Illugi Jökulsson, rithöfundur og höfundar mikillar bókar um Ísland á tuttugustu öld, dr. Sverrir Jakobsson sagnfræðingur, einn fróðasti maðurinn af ungu kynslóðinni, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, fóru nokkrum lofsamlegum orðum um bókina. Birtist auglýsingin aftur fimmtudaginn 16. desember.
Einnig var rætt um bók mína í bókmenntaþætti Egils Helgasonar, Kiljunni, miðvikudagskvöldið 15. desember. Þar sögðu þau Illugi Jökulsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir kost og löst á ritinu frá sínu sjónarmiði séð, og sýndist mér ekki betur en ég gæti vel við unað. Horfa má á þáttinn hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Facebook