Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu

kjarni_malsins_jpg_1042379.jpgÍ fimmtán ára rannsóknum mínum vegna bókarinnar Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku gróf ég upp margvíslegan fróðleik um ýmis efni og tók eftir skemmtilegum nýjum hliðum á gömlum málum. Nú hefur það orðið að samkomulagi, að ég birti fróðleiksmola úr þessu í Morgunblaðinu tvisvar í viku, og kom hinn fyrsti þar á prent laugardaginn 13. nóvember 2010. Heitir hann „Dýrleif á Parti“.

Á Íslandi er mikill áhugi á þjóðlegum fróðleik, einkum hjá þeim, sem rosknari eru, og raunar hafa lesendur Morgunblaðsins strax haft samband við mig símleiðis með meiri upplýsingar um einstaka menn, sem ber á góma í þessum fyrsta fróðleiksmola. 

Einnig er sama dag, 13. nóvember, viðtal við mig um bókina í Fréttablaðinu, sem Bergsteinn Sigurðsson skráði. Þar benti ég á, að margt er auðvitað afar fyndið og smellið í bókinni, en annað viturlegt, vel sagt eða sögulegt. Ég sagði hið sama og í morgunútvarpi Rásar tvö daginn áður, að í þessari verki tók ég af mér hjálm vígamannsins, sem allir þekkja, og setti á mig húfu fræðimannsins, sem situr og grúskar, grefur og safnar. Mælikvarði minn á efni, sem ætti heima í bókinni, var ekki, hvort boðskapurinn væri mér að skapi, heldur hvort það væri vel sagt eða sögulegt.

Um þetta má raunar hafa eina tilvitnun úr bókinni, í Erlend í Unuhúsi: „Ég er sósíalisti, en samt kýs ég fremur að lesa vel skrifaðar bækur á móti sósíalisma en illa skrifaðar bækur, sem styðja sósíalisma.“

Ég sagði einnig, að ég hefði leitast við að hafa eins mikið efni eftir konur í bókinni og unnt væri. Mér finnast konur raunar oft yrkja átakanlegar um sorg en karlar. Vitaskuld er til sérstök kvenleg reynsla, sem er þáttur í mannlegri reynslu, en karlar geta lítt gert skil (þótt sumum hafi tekist það betur en öðrum).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband