18.5.2010 | 12:40
Tvær sannar gamansögur
Síðustu misseri hefur nokkuð borið á tveimur mönnum, þeim Ólafi Ragnari Grímssyni og Bubba Morthens. Það eru að vísu engar fréttir, að Ólafur Ragnar láti á sér bera. Hann hefur látið þjóðina vita reglulega af sér, allt frá því að hann stofnaði Menningarfélag íslenskrar æsku nýfermdur, gekk á fund danska sendiherrans og krafðist þess, að handritin yrðu send heim hið bráðasta. Hitt er skrýtnara, að Bubbi skuli skyndilega vera orðinn álitsgjafi um stjórnmál, og hefði Njáll gamli á Bergþórshvoli áreiðanlega orðið að láta segja sér það þrim sinnum eins og fleira.
Í því sambandi rifjast upp fyrir mér tvær gamansögur, þar sem þessir tveir menn koma fyrir ásamt vini mínum, Davíð Oddssyni, sem einn sleppur íslenskra ráðamanna með hreinan skjöld út úr bankahneykslinu mikla.
Margrét Danadrottning kom í opinbera heimsókn til Íslands í maí 1998. Við það tækifæri færði Ólafur Ragnar Grímsson henni að gjöf ljósmynd af Grími rakara Kristgeirssyni, föður sínum. Þótti mörgum það einkennilegt. Skömmu síðar var Davíð ræðumaður á fundi sjálfstæðismanna á Selfossi. Eftir framsögu Davíðs spratt upp einn fundarmanna og spurði, hvað hann segði um það sem forsætisráðherra, að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði gefið Margréti Danadrottningu ljósmynd af Grími rakara, föður sínum. Davíð svaraði: Ég geri enga athugasemd við það. Nokkrar aðrar spurningar voru bornar upp, en þá kvaddi fyrsti fyrirspyrjandinn sér hljóðs aftur og spurði: Skil ég forsætisráðherra virkilega rétt, að hann geri enga athugasemd við það, að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skuli hafa gefið Margréti Danadrottningu ljósmynd af Grími rakara, föður sínum, í opinberri heimsókn hennar? Davíð svaraði að bragði: Já, það er alveg rétt skilið, enda veit ég ekki til þess, að Margrét drottning hafi átt neina ljósmynd af Grími rakara.
Davíð hefur sem kunnugt er gefið út tvö smásagnasöfn, sem seldust eins og heitar lummur og mæltust víðast vel fyrir (nema auðvitað hjá Davíðshatarafélaginu, en daufara er yfir því þessa dagana en oft áður). Skömmu eftir að fyrra smásagnasafnið, Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar, kom út haustið 1997, hitti Davíð Bubba Morthens í boði hjá títtnefndum Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum, þar sem Bubbi skemmti með söng. Bubbi gekk til hans og sagði: Davíð, ég var að lesa bókina þína, og mér finnst þú miklu betri listamaður en stjórnmálamaður! Davíð svaraði að bragði: Bubbi, ég verð að segja það sama um þig.
Ég tek undir með Davíð um Bubba.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook