París, apríl 2023

HHG.Paris.19.04.2023Það var ekki ónýtt að feta í fótspor þjóðsagnahetjunnar Sæmundar fróða í Svartaskóla, Sorbonne, í París, nema hvað þar flutti ég fyrirlestur 19. apríl 2023, en var ekki aðeins að afla fróðleiks eins og Sæmundur forðum. Fyrirlestur minn hafði meðal annars að geyma gagnrýni á kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, átrúnaðargoðs vinstri manna. Piketty hefur ekki áhyggjur af fátækt, heldur velmegun. Sumir séu orðnir allt of ríkir, og ná þurfi auðnum af þeim með háum alþjóðlegum sköttum.

Í Svartaskóla benti ég á, að í heiminum sem heild hefði tekjudreifing orðið jafnari síðustu áratugi, þótt líklega hefði hún orðið nokkru ójafnari á Vesturlöndum. Í suðrænum löndum hefur fátækt snarminnkað og hundruð milljóna stikað á sjömílnaskóm í bjargálnir. Í útreikningum sínum leiðrétti Piketty ekki fyrir skekkjum, sem hljótast af fasteignabólum (ofmati á eignum efnafólks) og lækkun skatta á háar tekjur (svo að þær koma skýrar og beinna fram), og tæki lítið sem ekkert tillit til jöfnunaráhrifa skatta (vanmæti kaupmátt tekjulægsta hópsins). Piketty lokaði líka augunum fyrir því gagni, sem auðmenn gera án þess að ætla sér það: Þeir verða mótvægi við opinberu valdi, lækka tilraunakostnað nýjunga, sem breytast úr munaðarvöru í almenningseign, og leggja fé í fjárfestingar.

Áhyggjur Pikettys af því, að auðurinn hafi orðið fastur við fámennan hóp, er enn fremur tilefnislaus. Á listum, sem birtast reglulega um ríkasta fólkið, sést mikil breyting. Áður fyrr hafði meiri hlutinn erft auðæfi sín. Nú hefur meiri hlutinn skapað þau sjálfur. Raunar er sú skáldsaga frá öndverðri nítjándu öld, sem Piketty vitnar oftast í, Faðir Goriot eftir Balzac, einmitt lýsing á því, hversu fallvaltur auðurinn er.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. maí 2023.)


Lundúnir, apríl 2023

HHG.Barbara.Dan.London.18.04.2023Í málstofu í Lundúnum 18. apríl var mér falið að ræða um hlutverk frumkvöðla á frjálsum markaði. Þegar Karl Marx skipti á nítjándu öld fólki í tvær stéttir, borgara og öreiga, horfði hann fram hjá þeim, sem lifa af að selja þekkingu sína, kunnáttu og hugvit frekar en hrátt vöðvaafl, svo sem rafvirkjum, tölvunarfræðingum, læknum og verkfræðingum. Atvinnulífið er ekki ein stór verksmiðja, heldur iðandi kös ótal ólíkra fyrirtækja og einstaklinga, sem skiptast á vöru og þjónustu, þegar þeir sjá sér hag í því. Marx horfði líka fram hjá þeim, sem knýja áfram hagkerfið með því að fitja upp á á nýjungum, frumkvöðlum, áhættufjárfestum og framkvæmdamönnum.

Flestir viðurkenna, að nýsköpun sé nauðsynleg. En spurningin er, hvort hún sé líklegri við einn opinberan nýsköpunarsjóð með tíu manna stjórn, sem ákveði, í hverju skuli festa fé, eða við tíu þúsund eða fleiri aflögufæra áhættufjárfesta. Sjóðurinn gerir í mesta lagi nokkrar tilraunir á ári, en tíu þúsund áhættufjárfestar gera væntanlega að minnsta kosti tíu þúsund tilraunir. Enn fremur er hæfileikinn til að sannfæra meiri hlutann í sjóðstjórn um verkefni, til dæmis með áferðarfallegum glærum og myndugum málflutningi, ekki nauðsynlega hæfileikinn til að reka fyrirtæki með hagnaði til langs tíma. Ályktunin hlýtur að vera, að nýsköpun sé líklegust í skipulagi einkaeignar, viðskiptafrelsis og valddreifingar, markaðskerfi.

Frumkvöðlar eru sjaldnast reknir áfram af ágirndinni einni saman, heldur miklu miklu fremur sköpunargleði, forvitni, nýjungagirni og metnaði. Og um leið og þeir hagnast sjálfir, gera þeir öðrum gagn. Þetta sést best á kjörum fátæklinga í ólíkum hagkerfum. Ef löndum heims er skipt í fernt eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur í heild í ófrjálsasta fjórðungnum samkvæmt mælingum Fraser-stofnunarinnar í Vancouver.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. maí 2023.)


Bloggfærslur 13. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband