17.8.2014 | 04:41
Jón Óskar og sósíalisminn
Fjölmargir lesendur Fróðleiksmolanna hafa haft samband og bent á margt, sem ýmist mátti betur fara eða hafa mætti í huga, og kann ég þeim hinar bestu þakkir. Hér ætla ég að leggja út af einni athugasemdinni, eftir Unu Margréti Jónsdóttur. Hún er dóttir Jóns Óskars, sem fór í fræga boðsferð til Ráðstjórnarríkjanna 1956 ásamt þeim Steini Steinarr og Agnari Þórðarsyni. Benti Una Margrét á, að faðir sinn hefði gagnrýnt stjórnarfar þar eystra í bók sinni, Páfinn situr enn í Róm.
Jón Óskar gerði það svo sannarlega. Hann gaf bókina út hjá Almenna bókafélaginu vorið 1964. Svo vildi til, að hann fékk 18 þúsund króna listamannalaun, um svipað leyti og bókin kom út. Orti þá Þorsteinn frá Hamri háðkvæði í Þjóðviljan
Sem ég á blíðum beði
bílífis vaknaðe
úthlutun einnig léði
átján þúsund í té
Jóni þeim sama, sama,
er svalt um árabil.
Heita þeir honum frama ?
Hví er nú rokið til ?
Íslenskir sósíalistar sáu til þess, að það kostaði að ganga úr liði og neita að bera lof á ráðstjórnina rússnesku.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. maí 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.8.2014 kl. 01:09 | Slóð | Facebook
17.8.2014 | 04:35
Athugasemd frá dóttur Jóns Óskars
Ég vék fyrir nokkru af sérstöku tilefni að frægri boðsferð sjö íslenskra menntamanna til Ráðstjórnarríkjanna 1956, þar á meðal Steins Steinarrs og Agnars Þórðarsonar. Nú hefur Una Margrét Jónsdóttir, dóttir Jóns Óskars skálds, sem einnig var í ferðinni, skrifað mér smápistil, sem ég fékk að birta úr. Hún rifjar upp, að hinir fimm boðsgestirnir voru auk föður hennar Leifur Þórarinsson tónskáld, Jón Bjarnason blaðamaður, Ísleifur Högnason framkvæmdastjóri og Hallgrímur Jónasson kennari. Síðan vitnar hún í ummæli mín: En einnig er það umhugsunarefni að flestir hinna boðsgestanna fimm í sendinefndinni þögðu ýmist þunnu hljóði eða héldu áfram að lofsyngja ráðstjórnina.
Una Margrét segir síðan í bréfi sínu: Mér finnst undarlegt, að þú skulir ekki nefna það einu orði, að þriðji rithöfundurinn í nefndinni, Jón Óskar, faðir minn, gagnrýndi Sovétríkin einnig. Meðal annars kemur fram gagnrýni á sovéskt menningarlíf í greininni Í heimsókn hjá Ilja Erenbúrg í 3. hefti Birtings 1956. Hann fer þó sérstaklega hörðum orðum um Sovétríkin í 4. hefti Birtings sama ár, en þar skrifar hann ritstjórnargrein um uppreisnina í Ungverjalandi og segir meðal annars: Nú hefur komið í ljós, að í ríki því sem kallað hefur verið ríki sósíalismans, hefur þróast viðbjóðsleg spilling meðal ráðamanna, þeir hafa tekið að keppa við auðvaldssinna og fasista í réttarmorðum, hneppt list og menningu í fjötra, blekkt og logið, en einblínt á það að nota hagkerfi sósíalismans til að gera Sovétríkin að einu af mestu iðnveldum heims. Enginn heiðarlegur maður getur aðhyllst þess konar sósíalisma. Loks gagnrýndi hann Sovétríkin harðlega í bók sinni Páfinn situr enn í Róm, sem hann lauk við 1963, en kom út 1964. Þessi gagnrýni hans á Sovétríkin hafði mikil áhrif á líf hans og feril, og því þykir mér slæmt ef látið er að því liggja að hann hafi verið einn af þeim sem þögðu um ástandið í Sovétríkjunum. Sérstaklega þætti mér miður vegna yngri kynslóða, ef slíkur misskilningur kæmist á loft.
Una Margrét hefur rétt fyrir sér, en ástæðan var ekki sú, að ég hefði gleymt Jóni Óskari, heldur ætlað að geyma mér að ræða um viðskilnað skáldsins við sósíalismann, sem varð allsögulegur. Það skal ég gera í næsta pistli.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. apríl 2014.)