Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Upphaf kvótakerfisins

Almenna bókafélagið gaf 7. nóvember 2024 út bókina Fish, Wealth, and Welfare: Selected Scientific Papers, Fiskur, fé og farsæld: Valdar vísindaritgerðir, eftir dr. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands. Af því tilefni var haldin alþjóðleg ráðstefna í Hátíðarsal Háskóla Íslands með þremur kunnum fiskihagfræðingum frá útlöndum 8. nóvember. Var hún vel sótt og fyrirlestrarnir hinir fróðlegustu. Einn gestur var íslenskur að ætt, en hefur starfað í Noregi alla sína tíð, Rögnvaldur Hannesson.
Fiskihagfræðin kennir okkur, að fiskistofnar séu takmörkuð gæði, sem takmarka verði aðganginn að. Ragnar rifjaði upp, að á háskólaárunum vann hann á Þjóðhagsstofnun á sumrin, þar sem honum var falið að kynna sér nýjustu rannsóknir í fiskihagfræði, þar á meðal doktorsritgerð Rögnvalds Hannessonar frá 1975, sem var brautryðjendaverk. Þetta sama ár var settur leyfilegur hámarksafli í síld, og fengu allir síldarbátarnir sömu aflahlutdeild. Bráðlega fóru að heyrast raddir um, að hagkvæmt gæti verið að leyfa framsal aflaheimilda milli báta. Á þetta máttu embættismenn ekki heyra minnst og vildu banna allt framsal.
Ragnar spurði hins vegar: Hvers vegna ekki að leyfa það? Hann fékk Jakob Jakobsson fiskifræðing í lið með sér, og framsalið var leyft. Það olli hagræðingu í greininni. Þetta var vísir að því kerfi framseljanlegra og varanlegra aflaheimilda, sem til varð í sjávarútvegi og hefur reynst í senn arðbært og sjálfbært. Framsalið tryggir, að þeir útgerðarmenn, sem reka báta sína með mestum hagnaði, halda áfram veiðum, en hinir flytjast í önnur störf, sem henta þeim betur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.)


Er Trump fasisti? Nei!

Orðið „fasismi“ er nú lítið annað en skammaryrði. Það er þó ómaksins vert að leita sögulegrar merkingar þess. Fasismi einkennist að sögn bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes af þrennu: andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma; tilraun til að taka stjórn á öllum sviðum þjóðlífsins og beina kröftum að ágengri utanríkisstefnu; rómantískri dýrkun á ofbeldi, karlmennsku, æskufjöri og umfram allt öflugum leiðtogum, sem virkjað gætu fjöldann til samvirkrar framningar.
Samkvæmt þessu voru Mússólíni og Hitler vitaskuld fasistar. En er Donald Trump það? Því fer fjarri. Trump er að vísu andstæðingur kommúnisma, en sækir margt í frjálslyndisstefnu (lækkun skatta) og íhaldsstefnu (stuðning við fjölskylduna). Hann vill takmarka hlutverk ríkisis og hafnar ágengri utanríkisstefnu, en telur, að Evrópuríkin eigi að kosta sjálf varnir sínar, eins og eðlilegt er. Hann dregur að vísu upp þá mynd af sér, að hann sé öflugur leiðtogi, en hann vill einkum virkja einkaframtakið, ekki fjöldann.
Hvað er Trump þá? Hann er pópulisti, fylgismaður lýðstefnu, þótt spurningin sé, hvort hann meti meira lýðhylli en lýðskrum, að finna og framkvæma vilja kjósenda frekar en egna þá upp og æsa. Jafnframt jaðrar Trump við að vera forræðissinni, authoritarian. Í bandarískum stjórnmálum minnir hann einna helst á Andrew Jackson, forseta Bandaríkjanna 1829–1837, og Huey Long, ríkisstjóra í Louisiana 1928–1932.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2024.)


Fiskur, fé og farsæld

Í dag, fimmtudaginn 7. nóvember 2024, gefur Almenna bókafélagið út bókina Fish, Wealth, and Welfare (Fiskur, fé og farsæld) eftir Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands. Hefur hún að geyma tíu merkustu ritgerðir Ragnars á ensku í fiskihagfræði, en eins og prófessor Gary Libecap sagði í viðtali við Morgunblaðið haustið 2023, er Ragnar einn virtasti fiskihagfræðingur heims. Jafnframt starfi sínu í Háskólanum hefur hann verið sérfræðingur Alþjóðabankans í grein sinni og gefið út um 200 fræðilegar ritgerðir, skýrslur og bækur. Ritstjóri hinnar nýju bókar er dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Á morgun, föstudaginn 8. nóvember, halda hagfræðideildin og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, alþjóðlega ráðstefnu af þessu tilefni um fiskihagfræði í hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 16 til 18, og verða bornar fram veitingar í anddyri að ráðstefnu lokinni. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Frummælendur eru auk Ragnars prófessorarnir Rögnvaldur Hannesson og Trond Bjorndal, en í pallborði verða prófessor Peder Andersen, Kaupmannahafnarháskóla, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi aðstoðarforstjóri FAO, og Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður. Verður tækifærið á morgun notað til að afhenda bók Ragnars áskrifendum.

Hver var ofveiðivandinn?

Ekki þarf að hafa mörg orð um, hversu mikilvæg hagkvæm nýting fiskistofna er á Íslandi, sem Ketill flatnefur kallaði þegar á níundu öld veiðistöð. Sjálfur fór ég ekki að hugsa um þetta mál af neinni alvöru fyrr en á ráðstefnu Stjórnunarfélagsins um „Ísland árið 2000“, sem haldin var á Þingvöllum haustið 1980. Þá sagði Haraldur Ólafsson mannfræðingur þann vanda óleystan, hvernig koma ætti í veg fyrir ofveiði á Íslandsmiðum. Hefðu Íslendingar ef til vill þurrausið fiskistofnana, þegar komið væri fram á árið 2000? Yrði ríkið ekki að taka nú þegar í taumana? Ég varpaði því fram, hvort ekki mætti leysa ofveiðivandann á sama hátt og annan ofnýtingarvanda auðlinda, með því að skilgreina einkanýtingarrétt einstaklinga og þá væntanlega útgerðarmanna sjálfra á hinum ofnýttu gæðum, fiskimiðum eða fiskistofnum. Sótti ég þetta ráð í smiðju austurrísku hagfræðinganna Ludwigs von Mises og Friedrichs A. Hayeks, en ég hafði sökkt mér niður í rit þeirra.
Óspart var gert gys að þessu á ráðstefnunni og síðan í Þjóðviljanum, málgagni sósíalista, en ritstjóri þess, Árni Bergmann, var einn ráðstefnugesta. Það er hins vegar fróðlegt, að á sama tíma fór Ragnar Árnason aðra leið, en að sama marki, með strangvísindalegum rannsóknum í fiskihagfræði, studdum stærðfræði. Hann lauk doktorsprófi í auðlindahagfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu árið 1984, og þegar sérstakt prófessorsembætti var stofnað í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, var Ragnar skipaður í það, gegndi því til sjötugs og er enn að, sjötíu og fimm ára.
Breski hagfræðingurinn Arthur C. Pigou lýsti hinum almenna ofnýtingarvanda með frægu dæmi í bók sinni Farsældarfræði (The Economics of Welfare) árið 1920. Tveir misgóðir vegir liggja milli tveggja staða. Betri vegurinn er þröngur, verri vegurinn víður. Pigou benti á, að umferðin myndi ekki skiptast á hagkvæman hátt milli veganna tveggja. Þröngi vegurinn yrði ofnýttur, víði vegurinn vannýttur. Ástæðan var, að hver og einn ökumaður tók ekki með í reikninginn kostnaðinn af öðrum ökumönnum. Þeir þyrptust því allir á betri veginn og eyddi ábatanum af honum. Það gerðu þeir með umferðartöfum og öðrum kostnaði af ofnýtingu. Lausn Pigous var, að ríkið innheimti vegartoll af betri veginum, sem endurspeglaði umframkosti hans.

Yfirsjón um auðlindaskatt

Þeir íslensku hagfræðingar, sem fyrstir skrifuðu um ofveiðivandann, þeir Bjarni Bragi Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason, færðu greiningu Pigous óbreytta yfir á fiskveiðar. Ef útgerðarmenn sæktu tvö misgóð fiskimið, þá myndu þeir ofnýta betri miðin og vannýta hin verri. Þeir tækju ekki með í reikninginn kostnaðinn af sókn annarra. Lausn þeirra Bjarna Braga og Gylfa var auðlindaskattur, sem ríkið myndi innheimta af útgerðarmönnum og ætti að endurspegla misjafna kosti ólíkra fiskimiða í samanburði við önnur knöpp gæði, sem menn nýttu sér til ávinnings. Auðlindaskatturinn var þannig sama eðlis og vegartollur Pigous.
Bandaríski hagfræðingurinn Frank H. Knight benti hins vegar þegar árið 1924 á yfirsjón í greiningu Pigous. Honum hafði sést yfir þann möguleika, að vegirnir misgóðu væru í einkaeigu. Þá myndi eigandi betri vegarins innheimta hærri vegartoll af honum en eigandi verri vegarins og umferðin skiptast sjálfkrafa á hagkvæman hátt milli veganna tveggja. (Pigou fjarlægði þegjandi og hljóðalaust vegardæmið úr næstu útgáfu bókar sinnar.) Árið 1990 birti Ragnar Árnason tímamótaritgerð í Canadian Journal of Economics, sem er fyrsta greinin í hinni nýju bók hans, og þar tekur hann upp þráðinn frá Knight. Hann bendir á, að auðlindaskattur í anda Pigous krefjist miklu meiri upplýsinga en embættismenn í opinberri fiskistofu ráði yfir. Hins vegar sé til einföld aðferð til að takmarka aðgang að fiskimiðum, svo að nýting þeirra verði hagkvæm. Hún sé að úthluta framseljanlegum og ótímabundnum nýtingarréttindum á fiskistofni til útgerðarmanna og setja leyfilegan hámarksafla úr stofninum á hverri vertíð á þann hátt, að þessi réttindi verði í heild sem verðmætust. Þannig spari fiskistofumenn sér að afla margvíslegra upplýsinga, sem sé hvort sem er erfitt eða ókleift að tína saman. Í stað þess að ríkið stjórni veiðunum geti það látið sér nægja að setja um þær almennar reglur.
Á Íslandi höfðu útgerðarmenn og embættismenn raunar smám saman verið að þreifa sig áfram í átt að svipaðri lausn árin á undan, og hún var lögfest með heildarlögum um fiskveiðar vorið 1990. Þetta var ekkert annað en hið margrædda og umdeilda kvótakerfi í sjávarútvegi, sem síðan hefur skilað stórkostlegum árangri. Þótt þetta kerfi hafi því frekar verið niðurstaða aðferðar happa og glappa en alsköpuð gyðja, sem sprottið hafi úr höfði vitringa eins og Aþena úr höfði Seifs forðum, munaði mjög um, að þeir Ragnar Árnason og Rögnvaldur Hannesson lögðu sitt lóð á vogarskálina, veittu góð ráð, útskýrðu kerfið.

Einkaeignarréttur á auðlindum

Þegar litið er yfir greinarnar í hinni nýju bók Ragnars Árnasonar, sést, að hann hefur með árunum lagt sífellt meiri áherslu á einkaeignarrétt á auðlindum til tryggingar hagkvæmri nýtingu þeirra. Hann bendir á, að slíkur réttur sé forsenda frjálsra viðskipta og því upphaflegri en þau. Menn færðu sig af hirðingjastiginu, þegar eignarréttur myndaðist á landi og kvikfénaði með girðingum og merkingum (fencing and branding), en eftir það gátu þeir skipst á frjálsum markaði á þeim varningi, sem þessi gæði gáfu af sér. Því traustari og betur varinn sem einkaeignarréttur á auðlindum sé, því hagkvæmari verði nýting þeirra til langs tíma litið. Það, sem stundum sé kallað „markaðsbrestur“ (market failure), þegar erfitt virðist eða ókleift að stunda frjáls viðskipti með gæði, stafi iðulega af því, að ekki hafi myndast einkaeignarréttur á slíkum gæðum. Dæmi Pigous um vegina tvo var eins og Knight benti á um, að vegirnir voru ekki í einkaeigu, svo að aðgangur að þeim var ekki verðlagður í samræmi við misjafna kosti þeirra. Annað dæmi er mengun í ám eða vötnum. Ástæðan er sú, að enginn á og gætir þessara gæða. Þriðja dæmið eru dýr í útrýmingarhættu, svo sem fílar og nashyrningar í Afríku. Enn er ástæðan, að enginn á þessa stofna og gætir þeirra. Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara.
Mikilvægt er einnig að horfa ekki aðeins á gæðin af sjónarhóli samtímans, miðað við núverandi nýtingarkosti og tiltæka tækni. Þegar einkaeignarréttur er á slíkum gæðum, geta eigendurnir látið reyna á nýja nýtingarmöguleika, þróað nýja tækni. Sköpunarmáttur hins frjálsa markaðar er aðallega vegna þess, að hann er eins og risastór tilraunastofa, þar sem menn prófa sig áfram, bera sig saman við aðra, keppa við aðra með því að keppast við sjálfir, öðlast nýja þekkingu og taka í notkun nýja tækni. Til þess þarf einkaeignarrétt, fjárfesta, frumkvöðla.

Uppboðsleiðin óraunhæf

Þetta skiptir allt máli, þegar skoðaðar eru nýrri tillögur um aðra tilhögun veiða á Íslandsmiðum en þá, sem varð fyrir valinu. Sumir viðurkenna, að kvótakerfið sé að vísu hagkvæmt, en hin upphaflega úthlutun hafi verið ranglát. Eðlilegast hefði verið, segja þeir, að ríkið hefði boðið upp nýtingarréttindin, veiðileyfin, aflakvótana. En uppboðssinnum yfirsést úrlausnarefnið. Það var, hvernig ætti að takmarka aðgang að takmörkuðum gæðum, sem höfðu lengi verið nýtt og voru nú greinilega ofnýtt. Talið var, þegar kvótakerfið var sett á í áföngum árin 1975–1990, að fiskiskipaflotinn væri nær tvöfalt stærri en hann þyrfti að vera. Breyta þurfti þó fyrirkomulagi fiskveiða á þann hátt, að sem minnst röskun yrði á högum þeirra, sem nýttu höfðu fiskimiðin. Hefði miðunum skyndilega verið lokað, eftir að þau höfðu öldum saman verið opin, en aðgangur síðan verið boðinn upp og verð haft nógu hátt til þess, að helmingur fiskiskiptaflotans hefði strax orðið að hætta veiðum (eins og lagt var til), þá hefði helmingur útgerðarfyrirtækjanna þurft að horfa upp á, að fjárfestingar þeirra í skipum, veiðarfærum og mannauði hefðu skyndilega orðið verðlausar. Það gefur augaleið, að ekkert samkomulag hefði orðið um slíka breytingu.
Eðlilegasta úthlutunaraðferðin var auðvitað svokölluð afaregla (grandfathering), sem var úthlutun eftir aflareynslu. Þeir, sem veitt höfðu til dæmis fimm af hundraði heildarafla í fiskistofni síðustu árin, áður en fiskimiðum var lokað, fengu heimild til að veiða fimm af hundraði leyfilegs hámarksafla á vertíðinni. Ólíkt uppboðsleiðinni var afareglan Pareto-hagkvæm, en með því er átt við, að við breytinguna, hagræðinguna, var hagur einskis manns skertur, en hagur að minnsta kosti sumra mjög bættur, eins og kom á daginn á Íslandi.

Hlunnindi í almenningi

Nú segja sumir að vísu, að hagur þjóðarinnar hafi verið skertur með kvótakerfinu, því að fámennum hópi útgerðarmanna hafi verið afhent öll nýtingarréttindi á Íslandsmiðum, sem séu lögum samkvæmt í þjóðareign. En þá er þess að gæta, að í raun og veru var enginn réttur tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað, því að eini rétturinn, sem hvarf úr sögu, var rétturinn til að gera út á núlli, eins og fiskihagfræðingar höfðu sýnt fram á: Við ótakmarkaðan aðgang að fiskimiðum jókst sóknin upp að því marki, að allur ábati af veiðunum hvarf í óþörfum kostnaði. Það var vitanlega enginn bættari við það, að þessi réttur til að gera út á núlli hyrfi. Spurningin er síðan, hvað orðið „þjóðareign“ merki og til hvers það vísi. Hugmyndin um þjóðareign auðlinda ætti að minnsta kosti ekki að merkja, að ríkið eigi auðlindirnar og nýti. Bolsévíkar komu með fádæma hörku á samyrkju í Rússlandi og Úkraínu, og það kostaði hungursneyðir á víðáttumikilli sléttu, sem var eins og sköpuð til akuryrkju. Olíulindir eru í eigu ríkisins í Mexíkó, en einstaklinga í Texas, og þó flykkist fólk ekki frá Texas til Mexíkó, heldur öfugt.
Eðlilegast er að leggja aðra merkingu í ákvæði um þjóðareign auðlinda: Fara skuli svo með auðlindir, að þær skili hámarksarði til langs tíma í þjóðarbúið. Það á svo sannarlega við um kvótakerfið íslenska í sjávarútvegi. Það eru hvorki fiskimiðin né fiskistofnarnir, sem eru undirorpnir eignarrétti einstaklinga, heldur nýtingarréttindin, sem líta má á sem hlunnindi í almenningi, sem ekki verði tekin bótalaust af handhöfum þeirra, enda hafi þau myndast í langri þróun og hlotið sögulega helgun, eins og lögfræðingar (þar á meðal prófessor Sigurður Líndal) myndu segja. Ragnar Árnason hefur síðan spurt, við hvaða skipulag þjóðin græði mest á fiskveiðum, og svarað henni svo, að það sé við sem traustust og föstust nýtingarréttindi í höndum einkafyrirtækja. Fiskveiðiarðurinn rennur ekki til þjóðarinnar, ef ríkið reynir að gera hann upptækan, heldur gerist þá hvort tveggja, að hann minnkar og verður enn einn tekjustofn atvinnustjórnmálamanna í samkeppni þeirra um atkvæði. Það er ekki tilviljun, að á Íslandi skilar sjávarútvegur beint og óbeint feikilegu fé í þjóðarbúið, en í flestum öðrum löndum er hann rekinn með tapi og er þess vegna þung byrði á skattgreiðendum. Ragnar hefur líka bent á, að sjávarútvegur er á Íslandi útflutningsatvinnuvegur í harðri samkeppni við sömu grein í öðrum löndum, og þess vegna þurfi að fara varlega í að skattleggja hann umfram aðra atvinnuvegi.
Salka Valka sagði sem frægt varð: „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er lífið þó umfram allt saltfiskur, en ekki draumaringl.“ Í bók sinni um fisk, fé og farsæld fer Ragnar Árnason ekki með neitt draumaringl, heldur rökstyður, hvernig hagkvæmast sé að nýta auðlindir og þá sérstaklega þær, sem Íslendingar eiga. Þar heldur hann sér fast við hina fræðilegu hlið málsins. Þótt hann noti iðulega stærðfræði til að skýra og skerpa boðskap sinn, endursegir hann um leið á auðskiljanlegan hátt röksemdir sínar. Það auðveldar lesturinn, að Birgir Þór Runólfsson skrifar fróðlegan inngang. Og þótt lífið sé auðvitað ekki aðeins saltfiskur, skipta góð almenn lífskjör miklu máli. Saltfiskurinn er til að selja og féð fyrir hann til að velja. Salka Valka sagði líka, að það væru „þunnar trakteringar að láta menn þræla nótt og dag alla sína ævi, hafa hvorki í sig né á“. Þetta var þó í þúsund ár hlutskipti fámennrar þjóðar í harðbýlu landi, áður en sjávarútvegur varð höfuðatvinnuvegur Íslendinga. Það er engin tilviljun, að nú eru Íslendingar með einhverjar hæstu meðaltekjur í heimi, auk þess sem fátækt er hverfandi og tekjudreifing tiltölulega jöfn.

Vegurinn til fjár og farsældar

Fiskur var ekki aðeins tákn Íslands öldum saman í skjaldarmerki Danakonungs, heldur vegur til fjár og farsældar, eins og þeir Thor Jensen í Kveldúlfi, Jón Ólafsson í Alliance, Ingvar Vilhjálmsson, Tryggvi Ófeigsson og fjölmargir aðrir dugmiklir athafnamenn sýndu á öndverðri tuttugustu öld, þegar þjóðin skeiðaði á sjömílnaskóm úr fátækt til bjargálna. Og nú hafa þau Kristján Loftsson í Hval, Guðmundur Kristjánsson í Brimi, Guðbjörg Matthíasdóttir í Ísfélaginu, Sigurgeir Brynjar Kristjánsson í Vinnslustöðinni, Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum, Þorsteinn Már Baldvinsson í Samherja, Þórólfur Gíslason í Kaupfélagi Skagfirðinga og margir aðrir framkvæmdasamir og forsjálir athafnamenn lyft upp þeirra merki, landi og þjóð til heilla.

(Grein í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.)


450 ára saga merkilegs lýðveldis

Þegar Vilhjálmur kardínáli af Sabína kom til Noregi árið 1247 í því skyni að krýna Hákon gamla, sagði hann þá „ósannlegt“ um Ísland, að það þjónaði ekki undir konungi eins og öll önnur lönd. Íslenskir sagnfræðingar hafa ekki bent á, hversu fráleit þessi fullyrðing var miðað við aðstæður sjálfs kardínálans. Hann var frá Ítalíu, þar sem nokkur borgríki þjónuðu ekki undir neinn konung, og hann hafði árið 1222 verið í Líflandi (Eistlandi og Lettlandi nútímans) að miðla málum milli riddarareglu, sem réð landinu, og nágrannaríkjanna. En mér duttu þessi orð í hug, þegar ég var á dögunum staddur í króatísku borginni Dubrovnik við Adríahaf. Árið 1247 var borgin enn á valdi Feneyinga (og ekki neins konungs), en árið 1358 tókst íbúunum að stofna sjálfstætt lýðveldi, sem stóð allt til 1808, þegar Napóleon beitti valdi til að leggja það niður.
Lýðveldið Dubrovnik (sem þá var nefnt ítalska nafninu Ragusa) var að sínu leyti jafnmerkilegt og íslenska þjóðveldið. Því stjórnuðu (eins og íslenska þjóðveldinu) nokkrar ættir, um fimmtíu (en á Íslandi voru 39 goðar). Menn úr þessum ættum settust allir í stórráð borgarinnar, þegar þeir náðu 18 ára aldri. Stórráðið kaus sjö manna framkvæmdaráð, 45 manna öldungadeild og höfuðsmann (rektor), sem kom fram fyrir hönd lýðveldisins út á við og fór með framkvæmdavald í samstarfi við framkvæmdaráðið og öldungadeildina. Reynt var að koma í veg fyrir frændhygli og aðra spillingu með því, að hver höfuðsmaður sat aðeins í einn mánuð, og ekki mátti endurkjósa hann fyrr en eftir tvö ár. Ef til vill mætti líkja honum við íslenska lögsögumanninn, þótt sá væri kjörinn til þriggja ára, en hann var í rauninni eini embættismaður Þjóðveldisins.
Stjórnarfar var frjálslegt í Dubrovnik, þótt aðalsættirnar fimmtíu færi einar með ríkisvaldið. Borgin dafnaði vel og var miðstöð verslunar milli Tyrkjaveldis soldánsins og Evrópuríkja. Urðu margir íbúar auðugir. Löggjöf var sniðin að þörfum verslunar og atvinnulífs, en á fána lýðveldisins var letrað orðið „Libertas“, frelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2024.)


Dubrovnik, október 2024

Dubrovnik í Króatíu er ein fallegasta borg, sem ég hef komið til. Þar talaði ég á ráðstefnu evrópskra íhalds- og umbótaflokka um fjölskylduna, aldursþróun og frjósemi 18. október 2024. Ég rifjaði upp, að Aristóteles gerði í Mælskulistinni greinarmun á viðhorfum æskumanna, sem létu stjórnast af vonum, og öldunga, sem yljuðu sér við minningar. Rosknu fólki hefði fjölgað hlutfallslega með hækkandi meðalaldri, og það kysi frekar í kosningum en ungt fólk, svo að það hefði síaukin stjórnmálaáhrif. En ellin þyrfti síður en svo að vera byrði á æskunni. Hún gæti lagt sitt af mörkum til aukinnar framleiðslu og neyslu. Kænir stjórnmálamenn ættu að höfða jafnt til vona æskunnar, fjölga tækifærum, og ótta ellinnar, verjast óþjóðalýð. 
Ég sagði hagfræðinga hafa bent á, að fjölskyldan hefði löngum verið eins konar gagnkvæmt tryggingarfélag og vettvangur sjálfvalinnar verkaskiptingar kynjanna, jafnframt því sem hún væri miklu hagkvæmari neyslueining en einstaklingurinn. Fjölskyldan miðlaði líka nauðsynlegri þekkingu í báðar áttir. Góðir foreldrar ælu börn sín upp við þær reglur og dygðir, sem best hefðu reynst, svo sem stundvísi, vinnusemi, orðheldni og hreinlæti. Þannig miðluðu þeir til þeirra reynsluviti fyrri kynslóða, fortíðinni. Fjölskyldan bætti síðan framtíðinni við í útreikninga og ákvarðanir einstaklinga, því að þeir vildu sem foreldrar skilja eitthvað eftir fyrir börn sín, búa í haginn fyrir þau. Erfðaskattur væri ranglátur, því að með honum væri umbunað fyrir eyðslu og refsað fyrir sparnað, samtíðin tekin fram yfir framtíðina.
Ég bætti því við, að fjölskyldan gæddi líf einstaklinganna tilgangi og merkingu. Hún víkkaði út sjálfið. Menn lifðu ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur líka fyrir maka og börn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2024.)


Reykjavík, október 2024

Á fundi í Þjóðminjasafninu í Reykjavík 14. október 2024 hafði Ísraelsmaðurinn Ely Lassman, 27 ára hagfræðingur, framsögu um „Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin“. Margt var þar umhugsunarefni. Eitt var, að við, sem stóðum að fundinum, urðum að hafa hann lokaðan til að geta rætt þetta mál í næði, en óspektarfólk hefur mjög látið hér að sér kveða og reynt að öskra niður rödd Ísraels. Þetta er óeðlileg takmörkun á málfrelsi okkar og fundafrelsi.
Annað umhugsunarefni var skýring Lassmans á hatri Hamas og Hesbollah hryðjuverkasamtakanna á Ísrael. Hann sagði, að það ætti sér hugmyndalegar rætur. Öfgaíslam styddist við ýmsar setningar í Kóraninum, sem fælu í sér stækt gyðingahatur, og væri athyglisvert, að orðalag væri talsvert mildara í erlendum þýðingum en á frummálinu, arabísku. Bæði þessi samtök vildu útrýma gyðingum.
Skýring Lassmans á því, að margir Vesturlandabúar hafa tekið upp málstað Hamas og Hesbollah, var líka umhugsunarefni: Marxistar og aðrir öfgavinstrimenn væru að vísu ólíkir öfgamúslimum um margt, en báðir hópar ættu það sameiginlegt að hata vestræna menningu, einkaeignarrétt, viðskiptafrelsi, valddreifingu, fjölbreytni, umburðarlyndi, frjálsa samkeppni hugmynda, lífsgleði og lífsnautnir. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum, svo að ekki ætti að koma á óvart, að öfgavinstrimenn vildu það feigt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2024.)


Blóðbaðið 1947

Í Indlandsför í september 2024 komst ég að því, hversu lítið ég vissi um fjölmennasta ríki heims og vænlegan bandamann Vesturveldanna gegn öxulveldunum ágengu (Kína, Rússlandi, Íran og Norður-Kóreu). Breska ríkið tók stjórn Indlands úr höndum Austur-Indía félagsins árið 1858, en hreyfði ekki við hinum mörgu furstadæmum, þar sem um þriðjungur Indverja bjó. Árin milli stríða var stefnt að heimastjórn. Bretar og raunsæir Indverjar unnu að því, að Indland yrði ríkjasamband með sameiginlegar varnir, utanríkisstefnu og gjaldmiðil, en hver eining með fótfestu í sögunni stjórnaði sér að öðru leyti sjálf eftir eigin hefðum og venjum. Var það eðlilegt, því að Indverjar skiptust í ótal hópa eftir málum, uppruna og trúarbrögðum. Í norðurhlutanum var skiptingin skýrust milli hindúa, sem töluðu hindi, og múslima, sem töluðu urdu, en þótt málin séu náskyld, eru þau skrifuð með ólíku letri.
Ekkert varð þó úr hugmyndum um valddreifingu í lauslegu ríkjasambandi lýðvelda og furstadæma, þar sem samkeppni um þegna hefði haldið aftur af valdhöfum. Indverski þjóðarráðsflokkurinn (Congress), sem var aðallega skipaður vinstri sinnuðum menntamönnum, heimtaði eitt miðstýrt ríki. Múslimar gátu hins vegar ekki hugsað sér að lenda undir stjórn hindúa. Í Bretlandi komst árið 1945 til valda vinstri stjórn, sem hafði samúð með miðstýringarmönnum. Hún ákvað að leyfa forystumönnum hindúa og múslima að skipta landinu, og Bretar hröðuðu sér á braut árið 1947. Afleiðingin varð eitt mesta blóðbað nútímans, sem síðasti breski landstjórinn, Mountbatten lávarður, bar verulega ábyrgð á með óðagoti sínu. Líklega hafa samkvæmt nýjustu rannsóknum um tvær milljónir týnt lífi í vígaferlum hindúa og múslima, en átján milljónir flúið á víxl milli Indlands og hins nýja múslimaríkis Pakistans. Þessi hræðilegi harmleikur hefði aldrei þurft að eiga sér stað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2024.)


Markaðir og frumkvöðlar

Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi? Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum? Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni? Þessum spurningum svara nokkrir ræðumenn á ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Europe, RSE, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum, og fleiri aðila í Reykjavík laugardaginn 12. október kl. 14–18. Ber ráðstefnan yfirskriftina _Markaðir og frumkvöðlar“.

Þrælahald og nýlendustefna

Einn ræðumaðurinn er dr. Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári út fróðlega bók, Imperial Measurement: A cost-benefit analysis of Western colonialism, Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi. Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða. En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á nítjándu öld? Skýringin er, að tapið dreifðist á alla, en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna. Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur.
Niemietz bendir á, að í Bretaveldi var utanríkisverslun aðeins lítill hluti heildarverslunar og aðallega við aðrar vestrænar þjóðir, ekki við nýlendurnar, auk þess sem þorri fjárfestinga var fjármagnaður með innlendum sparnaði og arði af verslun við aðrar vestrænar þjóðir. Það kostaði Breta líka stórfé að halda úti sínum volduga flota. Svipað var að segja um önnur nýlenduveldi. Þegar millifærslur frá Frakklandi til nýlendna þess og frá nýlendunum til Frakklands voru virtar saman, námu útgjöld umfram tekjur um 0,3 af hundraði ríkisútgjalda. Þýska ríkið hélt nákvæmt bókhald um útgjöld og tekjur af nýlendunum, og reyndist vera verulegt tap af þeim, en verslun við þær var hverfandi hluti af heildarverslun Þýskalands. Eina skýra dæmið um, að gróði af nýlendu hafi líklega verið meiri en tap, er líklega belgíska Kongó, en stjórn þess verður seint talin til fyrirmyndar. Þar var um arðrán að ræða. Þetta er undantekningin, sem sannar regluna.
Niemietz vekur athygli á, að nokkur auðugustu ríki Evrópu áttu aldrei nýlendur, svo sem Noregur og Sviss. Hann hafnar því einnig, að þrælahald hafi borgað sig. Líklega voru einu jákvæðu áhrifin af því að þurfa ekki að greiða vinnulaun á plantekrum í Karíbahafi, að verð á sykri, tóbaki, kryddvöru, bómull og kaffi var lægra en ella. Verslun með þræla var ekki heldur mikilvægur þáttur í heildarverslun Breta og annarra þjóða. Niemietz gerir í bók sinni aðeins kostnaðar- og nytjagreiningu á þrælahaldi, svo að hann minnist ekki á þær þrjár umhugsunarverðu staðreyndir um það, að Arabar hófu það fyrr og hættu því síðar en vestrænar þjóðir, að Bretar beittu flota sínum hart á öndverðri nítjándu öld til að stöðva þrælaflutninga yfir Atlantshaf og að það voru aðallega afrískir héraðshöfðingjar, sem eltu uppi aðra Afríkumenn og seldu í þrældóm. Aðrir ættu því að vera með meira samviskubit sökum þrælahalds en venjulegir Vesturlandabúar.

Umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis

Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en hann nýturalþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu. Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, Fish, Wealth, and Welfare, Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út. Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, _free market environmentalism,“ umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis. Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara. Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara. Hver er til dæmis skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi? Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess. Aristóteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarboðskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlegra hæfileika. Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá. Þessi hugsun birtist í þeirri íslensku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu.
Tiltölulega einfalt er að mynda einkaeignarrétt á landi og kvikfénaði. Land er girt af og kvikfé merkt eigendum. En málið vandast, þegar margir nýta saman gæði. Eitt dæmi um það voru afréttirnar íslensku, sem sauðfé var beitt á að sumarlagi, en ekki borgaði sig að mynda á þeim einkaeignarrétt. Bændur í hverjum hrepp nýttu saman hverja afrétt. En þá varð til freistnivandi eða það, sem kallað hefur verið _samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons). Hver bóndi freistaðist til að reka of margt fé á fjall á vorin, því að hann naut einn gróðans, en allir báru í sameiningu tapið. Þetta leystu fornmenn með hinni svokölluðu ítölu. Hver bóndi mátti aðeins _telja í“ afréttina tiltekinn fjölda sauðfjár. Og heildartala fjár í hverri afrétt var miðuð við það, að féð kæmi sem feitast af fjalli á haustin, eins og segir í Grágás.
Hliðstætt dæmi eru íslensku fiskimiðin. Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því að hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna. Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla. Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á áttunda áratug, en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekist til. Ólíkt öðrum þjóðum stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.
Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt svokallaðri afareglu (grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu. Ef útgerðarmaður hafði veitt fimm af hundraði heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) fimm af hundraði aflaheimildanna í þeim fiskistofni. Þannig varð lágmarksröskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum.

Frumkvöðlar í öndvegi

Þriðji ræðumaðurinn er Ely Lassman, sem er aðeins 27 ára að aldri. Hann brautskráðist fyrir einu ári í hagfræði frá Bristol-háskóla á Englandi. Hann er formaður Prometheus on Campus, en þau samtök leitast við að kynna boðskap skáldkonunnar Ayns Rands í háskólum. Hafa bækur hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka og skírskota ekki síst til ungs fólks. Almenna bókafélagið hefur gefið út þrjár skáldsögur Rands, Kíru Argúnovu, Uppsprettunaog Undirstöðuna. Var Kíra Argúnova raunar framhaldssaga í Morgunblaðinu árið 1949. Rand flýði frá Rússlandi um miðjan þriðja áratug síðustu aldar, settist að í Bandaríkjunum og haslaði sér þar völl. Hún aðhylltist eindregna einstaklingshyggju og taldi skýjakljúfinn eitt af merkilegustu afrekum mannsandans.
Ayn Rand setti fram tvær frumlegar hugmyndir í skáldsögum sínum. Hin fyrri var, að kapítalisminn væri ekki andlaust kapphlaup um efnisleg gæði. Hetjur kapítalismans eða viðskiptaskipulagsins væru hins vegar ekki herforingjar á hvítum fákum eða mælskugarpar á torgum úti, heldur frumkvöðlar, iðnjöfrar, brautryðjendur, athafnamenn. Þeir lifa ekki sníkjulífi á náungum sínum, heldur skapa eitthvað nýtt, og aðrir njóta þess með þeim í frjálsum viðskiptum. Á meðan rithöfundarnir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi og Þórbergur Þórðarson sátu á kaffihúsum við Aðalstræti og skröfuðu um, hvernig bæta mætti kjör íslenskrar alþýðu, sat Jón Þorláksson verkfræðingur á skrifstofu sinni í Bankastræti og lagði á ráðin um vegi og brýr, svo að fólk gæti komist leiðar sinnar fyrirhafnarlítið, teiknaði vatnsveitur, svo að það ætti aðgang að hreinu vatni, rafmagnsveitur, svo að það gæti kveikt ljós í vetrarmyrkrinu, og hitaveitur, svo að það gæti bægt frá sér vetrarkuldanum.
Seinni hugmyndin er í beinu framhaldi af hinni fyrri. Hún er sú spurning, hvað gerist, ef dugmesta fólkið gefst upp á að vinna fyrir aðra og finnur sér samastað, þar sem það getur notið eigin verka. Svarið er auðvitað, að þá hleypur óáran í þá, sem eftir sitja. Sífellt harðari átök verða um sífellt minni feng. Öll orkan fer í að skipta, engin í að skapa. Rand lýsir þessu eftirminnilega í Undirstöðunni, en mörg dæmi eru til um þetta í mannkynssögunni. Þau Ferdínand og Ísabella ráku gyðinga frá Spáni í lok fimmtándu aldar, en þeir höfðu staðið framarlega í vísindum, listum og atvinnulífi. Afleiðingin varð stöðnun. Á Kúbu flýði allt dugmesta fólkið eftir valdatöku kommúnista, tíu af hundraði landsmanna, og afleiðingin varð almenn fátækt. Ef til vill er Svíþjóð besta dæmið. Um miðja nítjándu öld náðu eindregnir frjálshyggjumenn þar völdum og juku stórlega atvinnufrelsi. Fjöldi frumkvöðla spratt upp. Næstu hundrað árin var hagvöxtur í Svíþjóð ör, og þjóðin varð ein hin ríkasta í heimi. En upp úr 1970 náðu róttæklingar völdum í sænska jafnaðarmannaflokknum, sem áður hafði verið tiltölulega hófsamur, skattbyrði þyngdist stórlega, vöxtur einkageirans stöðvaðist, og athafnamenn hrökkluðust úr landi, ekki síst til Sviss. En upp úr 1990 sáu Svíar að sér og hafa verið að feta varlega aftur brautina í átt til öflugra einkaframtaks.

Raddir ungs fólks

Fjórir aðrir ræðumenn eru á ráðstefnunni. Tahmineh Dehbozorgi er 26 ára laganemi, fædd í Íran, en flýði ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna árið 2015 og hefur síðan verið virk í ýmsum frelsissamtökum. Hún ætlar að minna fundarmenn á gildi frelsisins. Ida Johansson er 22 ára sænskur frumkvöðull, sem hætti í skóla 18 ára og stofnaði fyrirtæki, sem hún seldi nýlega. Hún ætlar að ræða um kynslóðir og kaupmátt. Lovro og Marin Lesic eru tvítugir Króatar, stunda nám í fjármálafræði í Zagreb, hafa stofnað fjárfestinga- og nýsköpunarfélag og fengið verðlaun fyrir ýmsar hugmyndir sínar. Ætla þeir að segja frá reynslu sinni og vonum. Verður fróðlegt að hlusta á raddir þessa unga fólks. Anton Sveinn McKee, sem hefur fjórum sinnum keppt fyrir Ísland á Olympíuleikum, stjórnar ráðstefnunni, en henni er skipt í þrjár stuttar lotur, og stjórna þeim Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður, Frosti Logason hlaðvarpsstjóri og Haukur Ingi Jónsson, nemi í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýsköpunarráðherra setur ráðstefnuna, en dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, mælir nokkur lokaorð.

(Grein í Morgunblaðinu 11. október 2024.)


Agra, september 2024

Í Indlandsferð í september 2024 skrapp ég til Agra, sem er um 230 km í suðaustur frá Nýju Delí. Hún var um skeið höfuðborg Múgal-keisaradæmisins, sem náði til mestalls Indlandsskaga. Þar skoðaði ég Taj Mahal, sem keisarinn Shah Jahan (1592–1666) reisti til minningar um eiginkonu sína. Þetta grafhýsi er með réttu talið eitt af fegurstu mannvirkjum heims, gert úr hvítum marmara og allt að því ójarðneskt, þokkafullt, svífur frekar en stendur. Enn fremur lagði ég leið mína í Agra-virkið, sem var feikistór keisarahöll, en sonur Shah Jahan hneppti hann í stofufangelsi þar, þótt sú bót væri í máli, að hann gat horft á grafhýsi eiginkonunnar úr íbúð sinni.
Í Agra-virki varð mér ljóst, hvílíkt stórveldi Indland var um 1700. Þá bjó þar um fimmtungur jarðarbúa, og landsframleiðslan nam um fjórðungi heimsframleiðslunnar. Þegar Indland varð sjálfstætt ríki árið 1947, nam landsframleiðslan hins vegar aðeins fjórum af hundraði heimsframleiðslunnar, en Indverjar voru þó enn um fimmtungur jarðarbúa. Hvað gerðist? Hvers vegna dróst Indland aftur úr? Marxistar svara því til, að Bretar hafi arðrænt Indland eins og borgarastétt hvers lands hafi arðrænt öreiga. Sá galli er á þeirri kenningu, að stöðnun atvinnulífsins hafði hafist þegar snemma á átjándu öld, áður en Bretar komu til sögu. Múgal-keisaradæmið hafði veikst stórlega og misst yfirráð yfir mörgum svæðum Indlandsskaga og innrásarherir látið greipar sópa. Togstreita hindúa og múslima olli líka búsifjum. Minnir sú saga talsvert á þrjátíu ára stríðið í Þýskalandi 1618–1648, sem tafði framfarir þar um hátt í tvær aldir.
Síðan náði Austur-Indíafélagið yfirráðum yfir víðáttumiklum svæðum Indlandsskaga, en Adam Smith benti réttilega á í Auðlegð þjóðanna, að það væri illa fallið til að fara með völd. Þegar Bretar tóku loks stjórn Indlands í sínar hendur árið 1858, var erfitt að snúa við blaðinu, auk þess sem nýlenduherrarnir voru stundum tómlátir um þetta mikla land.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2024.)


Nýja Delí, september 2024

Það var einkennileg tilfinning að koma frá einu fámennasta landi jarðar til Indlands, sem nú er fjölmennasta ríki heims með nær 1,5 milljarð íbúa. Þar sat ég 22.–26. september í Nýju Delí ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna, sem Friedrich von Hayek stofnaði árið 1947 sem alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna.
Indland hlaut sjálfstæði sama ár og samtökin voru stofnuð. Næstu 42 árin réð þar ein fjölskylda mestu, Jawaharlal Nehru, forsætisráðherra 1947–1964, dóttir hans, Indira Gandhi, forsætisráðherra 1966–1977 og 1980–1984, og sonur hennar, Rajiv Gandhi, forsætisráðherra 1984–1989. Þessi valdafjölskylda hafði hlotið menntun hjá breskum sósíalistum og reyndi að koma á sósíalisma á Indlandi. Afleiðingin varð stöðnun og fátækt. Haft var á orði, að „the British Raj“ hefði breyst í „the Licence Raj“, breskt vald í leyfisveitingavald. En árið 1991 gerbreyttu Indverjar um stefnu, opnuðu hagkerfið og stórjuku atvinnufrelsi. Árangurinn var ævintýralegur. Hagvöxtur á mann hafði verið innan við 2% að meðaltali fyrstu þrjá áratugina eftir sjálfstæði, en margfaldaðist nú, var til dæmis 9% árið 2021 og 7% árið 2022. Fátækt snarminnkaði, þótt enn sé hún tilfinnanleg.
Á ráðstefnunni í Nýju Delí bar einn fyrirlesarinn saman frammistöðu nokkurra ríkja, Filippseyja og Suður-Kóreu, Botsvana og Sambíu og Dómínikanska lýðveldisins og Níkaragúa, og var samanburðurinn undantekningarlaust atvinnufrelsinu í vil. Á meðan ég hlustaði á ræðu hans, velti ég því fyrir mér, hvort Bretar hefðu ekki gert mistök með því að veita ekki einstökum ríkjum Indlands, til dæmis furstadæmunum Hyderabad og Mysore, sjálfstæði árið 1947 í stað þess að afhenda hrokafullu háskólafólki öll yfirráð í einu risaríki. Þá hefði ef til vill orðið til samkeppni einstakra indverskra ríkja um skynsamlega hagstjórn. Hafi einhver við þetta að athuga, að úrelt sé að fela furstafjölskyldum völd, þá má benda á, að ein fjölskylda stjórnaði einmitt Indlandi í röska fjóra áratugi, þótt hún kenndi sig við alþýðuna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2024.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband