Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Upphaf Íslendingasagna

10. Heimskringla.page copyMargar skýringar eru til á því að á Íslandi voru á þrettándu öld settar saman sögur sem áttu ekki sinn líka annars staðar. Hér skulu nefndar fjórar.

1) Íslendingar voru fáir og máttu sín ekki mikils. Eina vopn þeirra var orðsins brandur, mælskulistin, til dæmis þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði árið 982 upptækt skip í eigu Íslendings. Þá hefndu Íslendingar sín með því að yrkja um konung níðvísur, eina á hvert nef.

2) Íslendingar stunduðu aðallega sauðfjárbúskap, en þá var fátt við að iðja í skammdeginu annað en semja sögur og segja. Auðvitað var líka skammdegi annars staðar á Norðurlöndum, en þungamiðja menningarinnar lá þar sunnar.

3) Á þrettándu öld voru komnir hér til sögu höfðingjar sem höfðu nægileg fjárráð til að halda uppi skrifurum heilu veturna og útvega sér kálfskinn í bókfell, en það var ekki áhlaupsverk.

4) Íslendingar voru lausir við hinn langa arm konunga, en það skipti máli af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi kom eitt söguefni beint upp í hendur þeirra: hvernig ráða mætti fram úr deilumálum í landi án framkvæmdavalds. Íslendingasögur eru um leitina að jafnvægi við þær aðstæður. Í öðru lagi var hér engin opinber ritskoðun, en konungum og hirðmönnum þeirra var ekki alltaf borin vel sagan í fornbókmenntum Íslendinga.

Í þriðja lagi rákust á tvær hugmyndir um lög og ríkisvald á þrettándu öld. Önnur var að lögin væru sammæli landsmanna, arfleifð kynslóðanna, og konungar undir þau seldir. Hin var að lögin væru fyrirmæli konunga og þeir þeim ofar. Upp úr þessum árekstri spruttu Íslendingasögur og konungasögur (til dæmis Egils saga og Heimskringla Snorra). Höfundar þessara sagna sóttu hvatningu til landnámsmanna, sem ekki vildu una sterku konungsvaldi, heldur varðveita fornt frelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. janúar 2025.)


Snorri og Malthus

Snorri.coverÁður hef ég vikið að því, að í Heimskringlu Snorra Sturlusonar er að finna sömu hugmynd og Adam Smith batt í kerfi, að frjáls viðskipti væru báðum aðilum í hag. Sænskir bændur vildu versla við nágranna sína í Noregi, en eitt sinn gátu þeir það ekki vegna hernaðar. Rögnvaldur jarl Úlfsson taldi „upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í“, eins og segir í 80. kafla Ólafs sögu helga. Menn kaupa það, sem þeim er „árbót í“. Ég hef einnig bent á, að í ræðu Einars Þveræings, sem Snorri samdi, er að finna sömu hugmynd og Karl R. Popper gerði að aðalatriði í stjórnmálaheimspeki sinni: úrlausnarefnið sé að bregðast við misjöfnum valdsmönnum, eins og segir í 125. kafla Ólafs sögu helga.

Fleiri merkilegum hugmyndum bregður fyrir í Heimskringlu. Snorri segir í 43. kafla Ynglinga sögu frá þeim sið Svía í hallæri að kenna konungum um og drepa þá. Hann bætir við: „Þeir er vitrari voru af Svíum fundu þá að það olli hallærinu að mannfólkið var meira en landið mætti bera en konungur hafði engu um valdið.“ Þetta er sú kenning, sem Thomas Malthus setti fram á öndverðri nítjándu öld: að hallæri yrði, þegar mannfólkið væri meira en land mætti bera. Þessi kenning átti lengi við. Ísland var til dæmis í eins konar Malthusar-gildru í þúsund ár. Færi fólksfjöldinn fram úr um fimmtíu þúsund varð hallæri, sem leiddi til fólksfækkunar. Það var ekki fyrr en kapítalisminn kom til sögu, að Íslendingar losnuðu eins og aðrar þjóðir úr þessari gildru. Kapítalisminn er sú fróðakvörn, sem malar auð og frið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. janúar 2025.)


Strandveiðar og hvalveiðar

Menn geta eflaust stutt strandveiðar og hafnað hvalveiðum af tilfinningaástæðum, en þeir geta ekki fært nein frambærileg fræðileg rök fyrir því.

Kvótakerfið íslenska er hagkvæmasta lausnin, sem enn hefur fundist á „samnýtingarbölinu“ svokallaða (Tragedy of the Commons), en það er, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til ofnýtingar hennar. Við kvótakerfið geta handhafar ótímabundinna og framseljanlegra kvóta skipulagt fjárfestingar sínar og rekstur á þann veg, að veiðarnar verði sem hagkvæmastar. Strandveiðar mynda hins vegar gat á þeim garði, sem kvótakerfið reisir í raun í kringum fiskimiðin. Þar verður til óhagkvæmt kapphlaup um að veiða sem mest, áður en veiðarnar eru stöðvaðar. Þar verður til sóun, sem bitnar að lokum á landsmönnum öllum.

Bann við hvalveiðum er ekki þáttur í neinni umhverfisvernd. Nóg er í sjónum af þeim tveimur stofnum, sem Íslendingar veiða, hrefnu og langreyði. Hvalur hefur enga þá sérstöðu heldur í náttúrunni, sem réttlætt gæti bann við að neyta hans. Slíkt bann væri jafnmikil trúargrilla og bann múslima við svínakjöti og hindúa við nautakjöti. Jafnframt stundar hvalur afrán. Hann étur um sex milljónir tonna á ári af smáfiski og öðru sjávarmeti á Íslandsmiðum, á meðan við löndum aðeins röskri einni milljón tonna af fiski. Það raskar jafnvægi að kippa einni dýrategund út úr fæðukeðjunni. Það er einmitt nauðsynlegt að grisja hvalastofnana tvo.

Hið eina skynsamlega er að stöðva strandveiðar og leyfa hvalveiðar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. janúar 2025.)


Skúmarnir garga

Í nýútkomnum dagbókum hefur Ólafur Ragnar Grímsson margt eftir mönnum og iðulega í óþökk þeirra. Hann nafngreinir til dæmis lagaprófessor í Háskóla Íslands, sem hafi sagt sér, að Þorvaldur Gylfason, áhugamaður um stjórnarskrárumrót, líktist helst „svindlurunum í ætt föður síns“.

Hér er átt við alræmdan svikahrapp, Björn Gíslason, afabróður Þorvaldar, en um hann samdi Ragnheiður Jónsdóttir skáldsögu árið 1945, Í skugga Glæsibæjar. Var hann einn af „filisteunum“, sem Jónas frá Hriflu skrifaði um frægan greinaflokk árið 1915. Þegar Björn var kominn á Hrafnistu eftir róstusama ævi, spurði blaðamaður, hvernig honum líkaði vistin. „Vel, svo lengi sem maður getur látið eitthvað illt af sér leiða!“

Þorvaldur brást við dagbókunum á Snjáldru (Facebook) og sagði Ólaf Ragnar vera „asshole“ og vitnaði í bandarískan heimspekiprófessor, Aaron James, sem skrifað hefði bók um þessa manntegund. Erfitt er að þýða orðið í hinni yfirfærðu merkingu þess, en okkar blæbrigðaríka tunga á þó skammaryrðin hrappur, fantur, skarfur, þrjótur, pjakkur, gikkur, skálkur, durgur, auli, óþokki og ódrengur.

Í stað þess að grípa til grófs erlends skammaryrðis hefði jafnvel mátt leita til séra Eggerts á Vogsósum, sem flokkaði sóknarbörn sín í skúma og lóma. Skúmarnir voru hrokafullir og óheilir, lómarnir hjartahreinir og lítillátir. Í þessu dæmi garga tveir skúmar hvor á annan.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2025.)


Hættulegur heimur

Heimurinn hefur aldrei verið betri, en sjaldan hættulegri. Hann er betri vegna stórkostlegra framfara í krafti viðskiptafrelsis og tækniþróunar. Fátækt hefur minnkað, heilsufar batnað, tækifærum fjölgað, umburðarlyndi aukist (á Vesturlöndum). En líkur á þriðju heimsstyrjöldinni hafa sjaldan verið meiri. Öxulveldin, Rússland, Kína, Íran og Norður-Kórea, brýna ekki aðeins vopnin, heldur nota, að vísu með misjöfnum árangri. Eitt merkilegasta fyrirbæri ársins 2024 var, hvernig smáríkinu Ísrael tókst að jafna um andstæðinga sína, hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah og bakhjarl þeirra, Íran. Þetta olli falli harðstjórans Assads í Sýrlandi, sem hvorki Íran né Rússland hafði afl til að afstýra. Pútín hefur ekki heldur tekist að leggja Úkraínu að velli. En Xi leynir því ekki, að hann bíður færis að hertaka Taívan eftir að hafa rofið alla samninga um Hong Kong. Og þótt Norður-Kórea sé smáríki, getur það gert óskunda.

Hvernig verða hætturnar minnkaðar? Se vis pacem, para bellum, sögðu Rómverjar. Viljirðu frið, skaltu búa þig undir stríð. Vesturlönd verða að vera svo sterk, að Öxulveldin þori ekki að ráðast á þau. Jafnframt hljóta þau að styðja af alefli Úkraínu og Ísrael, útverði vestrænnar menningar, hvort í sínum heimshluta. En ólíkar aðstæður krefjast ólíkra lausna. Í Úkraínu er eina haldbæra lausnin vopnahlé og atkvæðagreiðslur í umdeildum héruðum um, hvort íbúar vilja vera í Rússlandi eða Úkraínu, eins og gert var í Slésvík 1920, þegar íbúar völdu á milli Danmerkur og Þýskalands. Í Ísrael er eina haldbæra lausnin sú, sem Trump beitti sér fyrir með Abrahamssáttmálanum 2020, samstarf við Arabaríkin, en fullur sigur á hryðjuverkasamtökum. Bandamenn gerðu ekki vopnahlé við þýska nasista í ársbyrjun 1945, heldur sigruðu þá. Arabaríkin verða líka að taka við þeim Aröbum, sem ekki una sér í Ísrael. Taívan ætti að fara að dæmi Finnlands og stórefla eigin varnir, þótt það geti ólíkt Finnlandi 1939 vonast til þess, að hjálp berist, ráðist Xi á það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2024.)


Öllu má nafn gefa

Fyrsta stjórnin íslenska, sem gaf sjálfri sér nafn, var „stjórn hinna vinnandi stétta“, sem mynduð var 1934, en þrátt fyrir nafnið hafði hún að baki sér minni hluta kjósenda, 43,6%. Líklega hefði hún frekar átt að heita „stjórn hinna talandi stétta“. Önnur stjórn, sem hlaut sérstakt nafn, var þjóðstjórnin, sem mynduð var 1939. Hún var almennt talin ill nauðsyn, enda sagði Árni Pálsson prófessor: „Það vilja allir hafa hana, en enginn kannast við hana.“ Þá var ráðherrum fjölgað úr þremur í fimm, og Jón Helgason prófessor orti:

Eitt er þó nálega álíka veglegt hjá báðum,
því örlögin veittu oss í smæð vorri dýrmætan frama:
Ráðherratalan á Íslandi og Englandi er bráðum
orðin hin sama.

Sósíalistaflokkurinn var þó utan stjórnar, svo að hún var ekki raunveruleg þjóðstjórn. En vegna náinna tengsla Sósíalista við Kremlarbændur treystu aðrir þeim ekki. Þetta breyttist í stríðinu, þegar Rússar börðust við hlið Breta og Bandaríkjamanna. Árið 1944 myndaði Ólafur Thors nýsköpunarstjórnina með Sósíalistum. Þegar bandarískur sendimaður spurði, hvers vegna hann hefði myndað stjórn með kommúnistum, svaraði hann: „Þeir fengu svo góð meðmæli, frá Roosevelt og Churchill.“ Ef þeir gátu starfað með Stalín, þá gat hann það. Nýsköpunarstjórnin eyddi öllum stríðsgróðanum á þremur árum, stundum í þörf verkefni. Næsta stjórn, sem bar sérstakt nafn, var viðreisnarstjórnin, sem sat frá 1959 til 1971, beitti sér fyrir afnámi innflutningshaftanna og þótti farsæl.

Jafnframt voru stjórnir, sem Sjálfstæðisflokkurinn átti ekki aðild að, venjulega kallaðar vinstri stjórnir: Hermann Jónasson myndaði eina 1956, Ólafur Jóhannesson aðra 1971 og þá þriðju 1978. Steingrímur Hermannsson myndaði eina vinstri stjórn 1988 og Jóhanna Sigurðardóttir aðra 2009. Í stjórn Jóhönnu höfðu allir aðrir ráðherrar en hún sjálf starfað um eitthvert skeið í gamla Alþýðubandalaginu, arftaka Sósíalistaflokksins. Sú stjórn beið mesta kosningaósigur íslenskrar stjórnmálasögu árið 2013. En verður væntanleg stjórn þeirra Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland vinstri stjórn? Og það í miðri hægri bylgju hér og í heiminum öllum? Verður hún stjórn eyðenda eða greiðenda?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2024.)


Stjórnarmyndun

Nú vinna leiðtogar þeirra þriggja flokka, sem juku mest fylgi sitt í þingkosningunum 30. nóvember 2024, að stjórnarmyndun, þær Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland. Samsteypustjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins undir forsæti Kristrúnar er vissulega annar af tveimur rökréttum möguleikum eftir kosningarnar. Hinn er samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Í rauninni ræður Viðreisn því, hvor möguleikinn verður að veruleika, en hún virðist afhuga samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk, þótt skammt sé milli flokkanna þriggja í efnahagsmálum.

Á Íslandi hafa stjórnarmyndanir þó iðulega verið eins og langdregin leikrit, sem stjórnmálaflokkar setja á svið til þess að þurfa ekki að efna gáleysisleg loforð. Stundum hafa þær tekið óvænta stefnu, þegar hefur komið að vali forsætisráðherra. Til dæmis gátu þeir Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, og Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvorugur unnt hinum þess að skipa öndvegi árið 1947, og varð því leiðtogi minnsta flokksins, Alþýðuflokksmaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson, forsætisráðherra. Svipað gerðist árið 1978, þegar sigurvegarar kosninganna það ár, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, gátu hvorugur sætt sig við stjórnarforystu hins, svo að Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, myndaði stjórn með þeim, þótt flokkur hans hefði goldið afhroð.

Nú er hins vegar ljóst, að valið er milli Kristrúnar og Bjarna og langlíklegast, að Kristrún myndi stjórn. En um hvað?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2024.)


Tímamót í stjórnmálasögunni?

Lífið er, eins og Milan Kundera sagði, ganga inn í þoku, þar sem við sjáum allt skýrt, þegar við horfum um öxl, en óglöggt hitt, sem framundan er. En hugsanlega marka þingkosningarnar 30. nóvember 2024 tímamót í stjórnmálasögunni. Nú er aðeins einn yfirlýstur vinstri flokkur eftir á þingi með 21 af hundraði atkvæða, Samfylkingin, en undir nýrri forystu hefur hann hallast talsvert til hægri. Allt frá því í þingkosningunum 1931 hafa fjórir flokkar keppt um atkvæði kjósenda, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag (og forverar þess, kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn).

Það er álitamál, hvort þessum fjórum flokkum fækkaði í þrjá árið 1999, þegar Samfylkingin var stofnuð með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og tveggja smáflokka, eða hvort það gerðist núna, þegar Vinstri grænir duttu af þingi. Var hinn rétti arftaki Alþýðubandalagsins Samfylkingin, eða var hann Vinstri grænir? Þótt Samfylkingin hefði erft digra sjóði Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, minntu Vinstri grænir óneitanlega meira á hið gamla Alþýðubandalag en Samfylkingin. Andspænis Samfylkingunni standa nú fimm flokkar, sem allir eru mið- eða mið-hægri flokkar.

Þegar litið er til skamms tíma, var ríkisstjórninni 2021–2024 afdráttarlaust hafnað. Vinstri grænir hurfu nánast, og Framsóknarflokkurinn missti meira en helming síns fylgis. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði um fimmtungi síns fylgis, og fór þó betur en á horfðist. En furðulegt var að heyra Þorstein Pálsson og fleiri spekinga halda því fram í kosningasjónvarpi Stöðvar tvö, að nú væri Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sinn ekki stærsti flokkurinn. Þeir muna ekki, að hið sama gerðist í þingkosningunum 2009. Stjórnmálasagan sýnir okkur síðan, að flokkar, sem stofnaðir eru utan um menn frekar en málefni, endast illa, og gætu það orðið örlög Miðflokksins og Flokks fólksins, eins og varð um Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkinn og Þjóðvaka. Hver veit, hvað býr í þokunni?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2024.)    


Hugleiðingar á kjördag

Mér varð í kosningabaráttunni hugsað til orða Sigurðar Nordals í Íslenskri menningu árið 1942. „Háski sá, sem vofir yfir lýðræði nútímans og hefur víða gert það svo valt, er framar öllu fólginn í fláttskapnum, þegar almenningi er talin trú um, að hann sé kúgaður samkvæmt umboði frá honum sjálfum, eða hann er fyrst féflettur og síðan látinn þiggja sína eigin eign í mútur og náðargjafir,“ skrifaði Sigurður. „Allmargt má ganga á tréfótum um afkomu manna til þess að sá kostur sé betri að svipta þá dug og forsjá til frjálsrar sjálfbjargar og sambjargar.“

Það var ekki út í bláinn, þegar bandaríski blaðamaðurinn H. L. Mencken kvað kosningar vera uppboð á fyrirframstolnum munum. Frægur varð einn frambjóðandi Alþýðuflokksins, þegar hann var á framboði í Dalasýslu árið 1949. Fór hann á milli bæja með aðstoðarmanni sínum og spurði bændur, hvort þá vanhagaði ekki um eitthvað. Einhver þeirra dró seiminn og sagði, að flugvöll vantaði að vísu í sýsluna. Frambjóðandinn sneri sér að aðstoðarmanninum og sagði: „Skrifaðu flugvöll.“

Sigurður Nordal vék aftur að lýðræðinu í útvarpserindi 1957. „Ef fólki er innrætt, að ríkið eigi að leysa og geti leyst öll þess vandamál, fer það að lokum að kenna ríkinu um öll sín mein. Hvort tveggja er vitanlega jafnfjarstætt. Það verður bæði að grafa dýpra, skyggnast víðar um og seilast hærra en ríkisvaldið getur nokkurn tíma náð til þess að finna brýnustu þarfirnar, mestu verðmætin, alls konar mannlegt böl og bölvabætur.“

Í kosningabaráttu vilja oft gleymast takmarkanir lýðræðisins. Það er ekki allra meina bót, heldur friðsamleg aðferð til að skipta um valdhafa, sé þess talin þörf. Hitt er annað mál, að stundum verður í kosningum að velja skárri kost af tveimur. „Haldið fyrir nefið og kjósið Kristilega lýðræðisflokkinn,“ sagði ítalski blaðamaðurinn Indro Montanelli árið 1976, þegar hætta var á, að kommúnistaflokkurinn kæmist í stjórn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2024.)   

 


Osló, nóvember 2024

Fimmtudagskvöldið 14. nóvember 2024 var ég staddur í Osló og notaði tækifærið til að rabba við nokkra íhaldsstúdenta um nýútkomna bók mína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Ég benti á, að frjálshyggja ætti sér djúpar rætur í venjurétti og þinghaldi norrænna þjóða, eins og Snorri Sturluson skrifaði um í Heimskringlu, en líka í náttúrurétti heilags Tómasar af Akvínas, en hann var sammála Snorra um, að konungar væru bundnir af lögum og að afhrópa mætti þá, sem brytu þau. Upp úr þessum hugmyndum spryttu réttarríkið, að lögin réðu frekar en mennirnir, og lýðræðið, að almenningur gæti skipt um valdhafa á nokkurra ára fresti, ef hann vildi.
Í rabbinu bar ég saman þjóðernis-frjálshyggju danska skáldsins Grundtvigs og alþjóða-frjálshyggju ítalska hagfræðingsins Einaudis. Ég sagði frá því, sem ég kalla norrænu leiðina í alþjóðamálum: friðsamlegur aðskilnaður þjóða, sjálfstjórn þjóðarbrota, landamærabreytingar samkvæmt atkvæðagreiðslum, málskot til alþjóðadómstóla um deilumál ríkja og sjálfsprottið samstarf þeirra með lágmarksafsali fullveldis.
Enn fremur benti ég á mögulegar umbætur í Evrópusambandinu: að breyta framkvæmdastjórninni í venjulega stjórnsýslustofnun og færa lagasetningarvald hennar til Evrópuþingsins, að skipta Evrópuþinginu í efri deild ríkja og neðri deild kjósenda, að hætta að velja aðeins inn miðstýringarsinna í Evrópudómstólinn, að stofna sérstakan dómstól um nálægðarregluna (subsidiarity principle), sem úrskurðaði um valdmörk þjóðríkja og Evrópusambandsins, og að herða reglur um evrópska seðlabankann.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. nóvember 2024.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband