Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

90% af forgangskröfum?

indridi_thorl_922948.jpgFróðlegt er, að búist er við því, að 90% innheimtist af forgangskröfum í gamla Landsbankann. Það er meira en gert var ráð fyrir. Eignir bankans (til dæmis kröfur hans á erlenda skuldunauta og veð að baki þeim kröfum) hafa reynst vera meira virði en margir hugðu. En þá má halda þeim þræði áfram og spyrja, hvers virði bankarnir hefðu orðið, ef Bretar hefðu ekki gengið eins hart fram gegn þeim og raun bar vitni. Hvernig hefði Singer & Friedlander, dótturbanka Kaupþings í Lundúnum, vegnað, ef bresk stjórnvöld hefðu bjargað honum eins og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum haustið 2008? Hvernig hefði Landsbankanum vegnað, ef bresk stjórnvöld hefðu ekki sett hann á lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana? Auðvitað hefði báðum bönkunum orðið miklu meira úr eignum sínum. Bretar bera mikla ábyrgð á bankahruninu íslenska, eins og er loks að renna upp fyrir Íslendingum. Með því ætla ég síður en svo að afsaka íslensku bankana, sem sýndu mikinn glannaskap í nokkur ár fyrir hrun, meðal annars vegna þess að þeir höfðu ekki eðlilegt aðhald af hugrökkum stjórnmálamönnum, gagnrýnum fjölmiðlum, röggsömu fjármálaeftirliti, virðulegu forsetaembætti og sanngjörnum dómstólum, — allt þetta vantaði. En það sést betur og betur þessa dagana, hversu herfilega hinir óhæfu samningamenn Íslendinga, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, sömdu af sér um Icesave-málið. Raunar sömdu þeir ekki, heldur létu sér nægja að snúa heim með reikninginn frá Bretum og framvísa honum. Þess í stað hefðu íslensku samningamennirnir vitanlega átt að krefjast þess, að Bretar bættu það tjón, sem þeir ollu íslensku bönkunum með fautaskap sínum. Ég yrði ekki hissa, þótt það tjón, sem Bretar ollu Landsbankanum, næmi svipaðri upphæð og á vantar, til þess að greiða mætti allar forgangskröfur í bankann. Það er síðan eftir öðru, að þeir krefjast vaxta af lánum, sem þeir veittu óumbeðnir til að mæta tjóni, sem þeir ollu að nokkru leyti sjálfir! Og hvers vegna vilja þeir alls ekki fara dómstólaleiðina? Við hvað eru þeir hræddir? Þetta hefðu íslenskir ráðamenn átt að vera óþreytandi við að skýra út fyrir þjóðarleiðtogum erlendis allt þetta ár í stað þess að eyða tímanum í smákrytur.

Alltaf sleppur Gylfi

bilde152.jpgÖnnur lögmál virðast gilda um þá, sem hin vinstri sinnaða kjaftastétt íslenska hefur dálæti á, en annað fólk. Eitt dæmi um þetta er Gylfi Magnússon, fyrrverandi samkennari minn í Háskóla Íslands og núverandi viðskiptaráðherra. Einn aðalvandi Íslendinga síðustu 5–6 árin hefur verið fákeppni. Baugur þeirra Jóns Náskers og klíku hans réð ekki aðeins öllum matvælamarkaðnum, heldur líka flestum fjölmiðlum landsins. Misnotaði Baugur herfilega vald sitt, eins og margir eru til frásagnar um, nú síðast Friðrik G. Friðriksson í Silfri Egils á sunnudaginn var. Hér brást samkeppnisráð bersýnilega. Hver var formaður samkeppnisráðs frá 2005? Gylfi Magnússon (og var hann raunar líka þau árin formaður dómnefnda, sem veittu helstu útrásarvíkingum Íslands verðlaun reglulega). Þótt eflaust hafi íslensku bankarnir átt sína sök á hruninu, er enginn ágreiningur um hitt, að enginn banki stenst einn síns liðs áhlaup, þegar innstæðueigendur verða tortryggnir og taka fé sitt út allir í einu. Hver var drýgstur Íslendinga í að setja af stað áhlaup á bankana? Gylfi Magnússon, sem sagði í Ríkisútvarpinu föstudaginn 3. október 2008, að bankarnir væru tæknilega gjaldþrota. Að þessum orðum sögðum hófst áhlaup á bankana á Íslandi, og þeir hrundu allir þrír nokkrum dögum síðar. Margir úr kjaftastéttinni íslensku halda því fram, að ráðherra, sem uppvís verði að ósannindum, eigi tafarlaust að segja af sér. Hvaða íslenskur ráðherra hefur nýlega orðið uppvís að ósannindum? Gylfi Magnússon. Ástralska blaðið Daily Telegraph hafði eftir honum 29. maí 2009, að einhverjir stjórnendur íslensku bankanna gætu endað í fangelsi vegna hrunsins. Gylfi sendi þá frá sér yfirlýsingu. Þar sagði: „Ég hef aldrei gengið svo langt að fullyrða eða ýja að því að æðstu stjórnendur íslenskra bankanna fyrir hrun verði fangelsaðir vegna gerða þeirra í aðdraganda hrunsins. Ég vil engu spá um það.“ Þá birti blaðamaður Daily Telegraph, John Rolfe, upptöku sína af samtali þeirra Gylfa:

John Rolfe: „And if you were betting, do you think that people will go to jail?“
Gylfi Magnússon: „I would be very surprised if all this was wrapped up without something like that happening.“


Hvers vegna gerði Ríkisútvarpið því engin skil, þegar ráðherra varð uppvís að ósannindum? Og er eitthvað frekar að marka Gylfa Magnússon í umræðum um hina örlagaríku Icesave-samninga en þegar hann sagði ósatt um samtal sitt við ástralska blaðamanninn?


Nóbelsverðlaunin í hagfræði

3559.jpgEflaust hefur nefndin, sem úthlutar nóbelsverðlaunum í hagfræði, komið mörgum á óvart með því að veita þau þetta árið Oliver Williamson og Elinor Ostrom, því að þau hafa skrifað um margt annað en hefðbundin viðfangsefni hagfræðinga. Ég þekki ekki mikið til verka Williamsons, þótt ég hafi gluggað lauslega í þau, en hef deilt áhuga með Ostrom á almenningum (e. commons). Þetta eru gæði, sem margir nýta saman. Dæmi um slíka almenninga eru beitarlönd á hálendi Íslands og fiskistofnar á Íslandsmiðum. Hættan er sú, eins og Ostrom og aðrir benda á, að samnýting verði ofnýting. Ef tuttugu bændur í íslenskri sveit reka til dæmis sauðfé saman á fjall, þá er hætt við, að einhver einn þeirra freistist til að reka of marga sauði þangað. Ef hann er látinn afskiptalaus, þá hirðir hann einn ágóðann, en kostnaðurinn (ofbeitin) deilist á hann og nítján aðra. Þegar hinir bændurnir fylgja fordæmi hans, verður afleiðingin ofnýting. Þess vegna ákváðu Forn-Íslendingar að taka upp ítölu, sem svo var kölluð: Hver bóndi fékk aðeins að telja tiltekna tölu fjár í almenninginn. Nútímamenn myndu orða það svo, að hver bóndi hafi fengið sinn kvóta af sauðfé að reka á fjall. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor (sem hefur starfað með Williamson og Ostrom) hefur í ágætum ritgerðum skýrt út hin hagfræðilegu rök fyrir ítölunni. Í raun og veru er sama hugsun að baki kvótakerfinu í sjávarútvegi. Ef aðgangur er ótakmarkaður að takmörkuðum gæðum eins og fiskistofnum, þá verða þau ofnýtt. Þess vegna fengu útgerðarmenn hver sinn kvóta eins og bændur forðum hver sína ítölu. Þannig var komið í veg fyrir, að samnýtingin yrði ofnýting. Íslenska kvótakerfið er ekki fullkomið, en það er skársta kerfið, sem enn hefur fundist til að stjórna úthafsveiðum. Þar eð útgerðarmennirnir hafa hag af því, að auðlindin skili sem mestum arði til langs tíma (af því að þeir hirða þennan arð), nýta þeir hana gætilega. Framlag Ostrom, sem er stjórnmálafræðingur að menntun, er aðallega að greina fræðilega og kreddulaust margvíslegar aðferðir til að nýta almenninga. Hún er vel að verðlaununum komin.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn misnotaður

Af einhverjum ástæðum halda sumir Íslendingar, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé sérstakur bólstaður frjálshyggjumanna. Því fer fjarri, eins og ég hef stundum bent á opinberlega. Þar starfa að vísu margir vel menntaðir hagfræðingar, og hagfræðingar skilja menntunar sinnar vegna betur en margir aðrir hugmyndina um frjálst og sjálfstýrt hagkerfi, þar sem menn græða hver á öðrum: Við kaupum vín af Spánverjum og seljum þeim fisk, af því að arðbærara er að veiða fisk á Íslandsmiðum og rækta vín á Spánarhlíðum en öfugt. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er eins og Alþjóðabankinn aðallega vígi hins alþjóðlega gáfumannafélags, sem þeytist á fyrsta farrými milli landa, skrifar langar skýrslur og skrafar margt á fundum með stjórnvöldum, en horfir vorkunnaraugum á fátæklingana út um gluggann. Þetta er fólk, sem veifar prófskírteinum úr virðulegum skólum og talar mörg tungumál, en hefur reiknað sig út úr heiminum í stað þess að lifa sig inn í hann. Ég veit ekki um neina þjóð, sem brotist hefur úr fátækt í bjargálnir fyrir orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en ég get nefnt margar þjóðir, sem hafa gert þetta í krafti frjálsra viðskipta: Fyrst skal fræga nefna Íslendinga í lok nítjándu aldar, síðan ýmsar þjóðir eftir seinni heimsstyrjöld, til dæmis í Taívan, Suður-Kóreu, Hong Kong og Singapúr. Fátækar þjóðir þurfa atvinnufrelsi og eignarrétt, ekki skrif og skraf gáfumannafélagsins. Ég man enn, þegar ég fylgdist á frjálshyggjuþingi í Vancouver í Kanada með kappræðum þeirra Georges Shultz, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna (og áður hagfræðiprófessors í Chicago), og Stanleys Fischer, sem var um skeið aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Shultz hélt því fram, að sjóðurinn ætti nánast engan rétt á sér. Hann aðstoðaði slæma stjórnmálamenn við að halda áfram mistökum sínum. Hvað sem því líður, var upphaflegt hlutverk sjóðsins að auðvelda aðildarríkjum greiðsluaðlögun og sveiflujöfnun. Hér á Íslandi hefur sjóðurinn hins vegar aðeins birst sem óvæginn handrukkari fyrir Breta og Hollendinga. Starfsmenn hans hljóta að skammast sín fyrir að vera misnotaðir á þennan hátt.

Jóhanna veit ekki sitt rjúkandi ráð

johannasig.jpgÞað er sorglegt til þess að vita, að á þessum örlagatímum skuli óframbærilegur stjórnmálamaður gegna starfi forsætisráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir sat í ríkisstjórn í átján mánuði fyrir hrun, frá vori 2007, en varaði þá aldrei við neinu og hafði ekkert fram að færa annað en kröfur um aukin framlög til eigin áhugamála. Eftir að hún tók við starfi forsætisráðherra, komst ekkert annað að vikum og mánuðum saman en að reka gamlan stjórnmálaandstæðing (en um leið ágætan samstarfsmann sinn), Davíð Oddsson, úr embætti seðlabankastjóra. Jóhanna er mannafæla. Hana skortir sjálfstraust, enskukunnátta hennar er bágborin, og hún veigrar sér við að hitta erlenda þjóðarleiðtoga. Við þessar aðstæður ættu forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands vitanlega að vera á þönum milli landa til að tala máli Íslendinga við stjórnmálaforingja og fjármálafrömuði. Þess í stað hniprar Jóhanna sig saman niðri í stjórnarráði og sendir jafnóðum til fjölmiðla álitsgerðir frá stofnunum eins og Seðlabankanum án vilja og vitundar fjármálaráðherra síns og seðlabankastjóra, en þessar álitsgerðir eru helst til þess fallnar að styrkja samningsaðstöðu andstæðinga okkar, Breta og Hollendinga, í Icesave-málinu. Fát, fum og ráðleysi einkenna hana. Hún bregst eins við og aðrir, sem vita ekki sitt rjúkandi ráð: hótar og reiðist. Hún man ekki einu sinni, hvað hún hefur áður sagt, svo að hún flækist í mótsögnum. Nú segir hún, að afgreiða verði Icesave-málið til að fá lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum. En 13. júlí aftók hún með öllu í þinginu (vegna fyrirspurnar frá Illuga Gunnarssyni), að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tengdi saman Icesave-málið og lánafyrirgreiðslu. Og 10. ágúst vísaði hún því á bug í þinginu (vegna fyrirspurnar frá Birgi Ármannssyni), að Norðurlöndin settu einhver skilyrði um afgreiðslu á Icesave-málinu, áður en þau veittu lán til Íslands.

Furðuleg verðlaunaveiting

obama_portrait_crop.jpgBarack Obama Bandaríkjaforseti virðist vera vænn maður. Hann býður af sér góðan þokka, er vel máli farinn og kann bersýnilega að stilla skap sitt. Það var auðvitað stjórnmálaafrek að sigra tvær öflugustu kosningavélar heims, fyrst þeirra Clinton-hjónanna og síðan Lýðveldisflokksins (Repúblikana). Það ber líka Bandaríkjunum gott vitni, að þeldökkur maður skuli hafa orðið forseti þeirra. Þau eru ekki gallalaus, en þau eru lönd tækifæranna, fjölbreytni, frumkvæðis og sjálfsleiðréttingar. En hverju hefur Obama fengið áorkað í friðarmálum? Ég get ekki verið einn um að furða mig á því, að honum skuli nú hafa verið veitt friðarverðlaun Nóbels. Hann flytur vissulega fallegar og hjartnæmar ræður um frið og virðist þá einlægur. En hvar hefur hann komið á friði? Mér finnst þetta svipað og ef kennari gefur nemanda einkunn, áður en prófið er haldið. Verðlaunanefndinni norsku eru stundum mislagðar hendur. Indjánakona frá Guatemala, Rigoberta Manchu, fékk friðarverðlaunin 1992. Seinna kom í ljós (í bók eftir bandaríska mannfræðinginn David Stoll), að hún hafði ýkt og jafnvel falsað mörg atriði í sjálfsævisögu sinni, sem vakið hafði mesta athygli á henni. Skemmst er að minnast þess, þegar Al Gore fékk friðarverðlaunin 2007, skömmu áður en breskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu, að margt væri rangt eða ónákvæmt í frægri heimildarmynd hans um hlýnun jarðar. Hver ætti að fá verðlaunin? Ég hef eina tillögu: Hinn frjálsi markaður. Þar ræður verðið, ekki sverðið. Eins og sagt var á 19. öld: Tilhneiging okkar til að skjóta á náungann stórminnkar, ef við sjáum í honum væntanlegan viðskiptavin.

Náskershirðin

hreinnloftsson.jpgFyrir einhverjum misserum kom Hreinn Loftsson, yfirritstjóri DV, hróðugur fram með orðið „náhirð“, en það notar hann um nokkra kunna stuðningsmenn Davíðs Oddssonar, þar á meðal Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og mig. Orðið sótti Hreinn áreiðanlega í kvæði Einars Benediktssonar um Fróðárhirðina, en það orti Einar, þegar hann tók að lengja eftir opinberum leyfum til að virkja þau fallvötn, sem hann hafði keypt af íslenskum bændum. Þótti Einari Jón Magnússon forsætisráðherra og aðrir stjórnmálamenn fara helst til gætilega. Kann hlutur Jóns í því máli þó að hafa verið betri en Einars, sem átti til fjárglæfra, svo að ekki sé meira sagt. Þegar ég hitti á dögunum Sigurjón M. Egilsson, sem vann með Hreini Loftssyni á DV, sagði hann mér, að Hreinn skrifaði nánast allar þær nafnlausu greinar í DV, þar sem orðið „náhirð“ væri notað. Ég hlýt hins vegar að segja, að mér er mikill sómi sýndur með því að vera nefndur í sömu andrá og þeir Björn og Kjartan, og ekki er síður heiður að því, sem talið er sameina okkur, stuðningnum við Davíð Oddsson. En Íslendingar ættu að hafa meiri áhyggjur af annarri hirð. Það er Náskershirðin, — hirðin í kringum Jón Násker, Jón Ásgeir Jóhannesson, skuldakóng Íslands, sem reynt hefur að breyta þessari eyju okkar úti í Dumbshafi í sannkallað Násker. Þessi hirð starfar á Baugsmiðlunum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur Jón Násker haldið fjölmiðlum sínum, þótt hann sé löngu gjaldþrota, og notar hann þá ótæpilega til að leiða athyglina frá eigin sök. Fjölmiðlar hans hamast á öðrum útrásarvíkingum og auðjöfrum, en minnast sárasjaldan á Jón Násker og þá aðeins fyrir siðasakir. Jón Násker þykist ekki eiga DV, en auðvitað er Hreinn aðeins þar til að gæta hagsmuna hans. Blaðið er notað til óþrifalegri verka en aðrir Baugsmiðlar treysta sér til. Bankahrunið íslenska á sér margar og flóknar ástæður, ekki síst kerfisgalla í EES-samningnum og fádæma fautaskap Breta. En ef einhverjir nafngreindir íslenskir einstaklingar bera ábyrgð á því, þá eru það Jón Násker og klíkan í kringum hann, liðið á lystisnekkjunum og í einkaþotunum, sem safnaði skuldum eins og það ætti lífið að leysa, en beitti jafnframt fjölmiðlum sínum og auði gegn öllum þeim, sem þorðu að gagnrýna það. Og sá er annar munur á Náskershirðinni og okkur í „náhirð Davíðs“, að við fylgjum sannfæringu okkar, en Náskershirðin þiggur aðeins mála.

Afsögn Ögmundar

ogmundur_920618.jpgAfsögn Ögmundar Jónassonar á dögunum kom flestum á óvart. Jóhanna Sigurðardóttir setti honum bersýnilega stólinn fyrir dyrnar í Icesave-málinu. Furðu sætir hins vegar, að Steingrímur J. Sigfússon skuli dylgja um það, að Ögmundur hafi ekki treyst sér í sparnaðaraðgerðir í heilbrigðismálum. Það eru kaldar kveðjur frá flokksbróður og augljóst, að mikið hefur gengið á hjá Vinstri-grænum síðustu vikur og mánuði, þótt hljótt hafi farið. Samkór stjórnarsinna á Netinu hefur tekið hressilega undir með Steingrími. En hvers vegna má Ögmundur ekki eiga það, að hann er trúr sannfæringu sinni? Það er skiljanlegt, að hann geti ekki samþykkt frekari tilslakanir í Icesave-málinu. Ögmundur spyr eins og við hin: Hvers vegna í ósköpunum vill ríkisstjórnin ekki láta reyna á það fyrir dómstólum, hvort okkur beri að greiða skuldir, sem aðrir hafa stofnað til, áður en hún semur um greiðslu þeirra? Hvers vegna unir hún því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi fram eins og handrukkari fyrir Breta og Hollendinga? Hvað er hið hræðilega, sem gerist, ef við segjum blátt áfram: Við borgum ekki? Varla senda Bretar fallbyssubáta hingað norður í Dumbshaf. Reynslan hefur líka margsýnt, að eitt ríki getur ekki komið í veg fyrir viðskipti annarra ríkja, enda eru Bretar vitaskuld bundnir af milliríkjasamningum eins og við. Ef við getum boðið fisk, ferðaþjónustu og rafmagn á góðu verði, þá munu alltaf vera til kaupendur, hvað sem Bretar segja. Ólafur Thors sagði við Harold Macmillan á sínum tíma, þegar leysa þurfti landhelgisdeiluna: „Nú erum við í vanda. Við getum ekki skotið. Þið viljið ekki skjóta.“ Stórþjóðir búa við hömlur eins og smáþjóðir. Þótt við eigum að standa við allar okkar alþjóðlegu skuldbindingar, megum við ekki láta Breta hræða úr okkur líftóruna.

Þing ungra jafnaðarmanna

kristrun.jpgÉg flutti framsögu ásamt Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðingi og heimspekingi, á þingi ungra jafnaðarmanna sunnudaginn 4. október um, hvaða hugmyndir ættu að verða okkur leiðarljós út úr þrengingunum. Ég minnti á kenningu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem Kristrún og aðrir Samfylkingarmenn hafa mjög hampað. Samkvæmt henni er það skipulag réttlátt, þar sem hagur hinna bágstöddustu er eins góður og hann getur framast orðið. Með öðrum orðum réttlætist tekjumunur af því einu eftir kenningu Rawls, að lágtekjufólk hagnist á því. Síðan spurði ég, hvað veruleikinn segði okkur um þetta. Í mælingum á vísitölu atvinnufrelsis (index of economic freedom), kemur skýrt fram, að þær þjóðir, sem búa við víðtækast atvinnufrelsi, njóta um leið bestu lífskjaranna og þá líka tekjulægstu hóparnir þar. Einnig er merkilegur samanburður sænska hagfræðingsins Fredriks Bergström á hinum 50 ríkjum Bandaríkjanna og hinum 25 ríkjum Evrópusambandsins, en samkvæmt honum eru lífskjör í Svíþjóð svipuð og í fátækustu ríkjum Bandaríkjanna, Arkansas og Mississippi. Í tveimur ríkjum Bandaríkjanna, Delaware og Connecticut, eru lífskjör hins vegar svipuð og í því Evrópuríki, þar sem lífskjör eru langbest, Lúxemborg. Enginn getur efast um þessar staðreyndir, enda kaus Kristrún að leiða þær hjá sér. Í fyrirspurnum utan úr sal var hins vegar bent á, að slíkar mælingar væru ófullkomnar, og tók ég undir það, en minnti á, að við höfum með þeim þó eitthvað í höndunum og ekki aðeins orðin tóm.

Umræður voru kurteislegar og málefnalegar. Ég óskaði Jóhönnu Sigurðardóttur, leiðtoga Samfylkingarinnar, til hamingju með daginn og hnykkti á því, að auðvitað hlytu allir heilbrigðir menn að vilja persónulega velgengni stjórnmálaandstæðinga. Stöð tvö sagði frá fundinum.

Einnig talaði ég sama dag við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF, en menn undir forystu Christhards Läpple eru þar að gera enn einn þáttinn um bankahrunið íslenska. Þar viðurkenndi ég, að framferði íslenskra bankamanna hefði ekki alltaf verið til fyrirmyndar, en á hitt væri að líta, að Ísland hefði starfað við sömu leikreglur og önnur ríki í EES. Meginástæðurnar til þess, að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa kom harðar niður á Íslendingum en öðrum, eru 1) kerfisgalli í EES-samningnum (tryggingarsvæðið var Ísland eitt, en rekstrarsvæðið Evrópa öll, svo að bankana vantaði bakhjarl), 2) fautaskapur Breta (sem minnkuðu áreiðanlega stórkostlega verðmæti lánasafns bankanna með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök og taka Kaupþing yfir), 3) glannaskapur bankamanna, en hann má rekja til skorts á aðhaldi eftir hinn sögulega ósigur Davíðs fyrir Golíat sumarið 2004, þegar forsetinn gerðist klappstýra útrásarvíkinga, fjölmiðlar komust í eigu örfárra auðjöfra, stjórnmálamenn bergmáluðu Borgarnesræðurnar illræmdu og dómstólar sendu röng skilaboð út í atvinnulífið með hæpnum úrskurðum.


Hlutdrægni fréttastofu RÚV

Máni Atlason benti á gott dæmi um hlutdrægni fréttastofu RÚV á athugasemd við færslu hjá mér á Facebook:

Sagðar voru fréttir af styrkjamáli Sjálfstæðisflokks linnulaust dögum saman og hver kratinn á fætur öðrum fenginn í búningi fræðimanns til að gefa sitt faglega álit, en daginn sem kom í ljós að Samfylking hafði fengið svo til sömu upphæðir í styrki frá sömu fyrirtækjum var því einfaldlega sleppt að fjalla um málið.

Nú síðast í gær byrjaði fréttamaður RÚV frétt sína "Stjórnarþingmenn vinna nú hörðum höndum að því að leysa skuldavanda heimilanna...", að vísu lítið atriði en hvað veit fréttamaðurinn um það hvort unnið er hörðum höndum að þessu? Þarna er bara einhver fullyrðing um fórnfýsi og dugnað Samfylkingarinnar út í bláinn.

Svona gæti maður lengi talið, en það sér það auðvitað hver maður sem á annað borð horfir á fréttir RÚV að á þeirri fréttastofu starfar fólk sem er hallt undir annað hvort Samfylkinguna eða Evrópusambandsaðild og jafnvel bæði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband