Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.11.2009 | 19:06
Skrípaleikur í Arion
Strax eftir hrun flaug breski fésýslumaðurinn Phil Green til Íslands með einkaþotu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og bauð íslensku bönkunum að kaupa skuldir Baugs á 5% af virði þeirra. Því tilboði var hafnað, enda blasti við, að þetta voru samantekin ráð Jóns Ásgeirs og græna mannsins um að losna við skuldir félagsins. Jón Ásgeir hefur löngum stundað viðskipti á bak við felunöfn. Hann átti til dæmis Fréttablaðið á laun vorið 2003, þegar hann beitti því hvað harðast í stjórnmálabaráttunni. Nú á hann DV á laun og notar til þeirra verka, sem aðrir fjölmiðlar hans treysta sér ekki til. Allir muna, að Baugsmálið snerist ekki síst um, að Jón Ásgeir keypti fyrirtækið 1011 í nafni annarra og seldi síðan Baugi á miklu hærra verði en þessir leppar hans höfðu keypt það á. Sá úrskurður dómstóla, að þetta teldust venjuleg viðskipti, var stórfurðulegur. Í ljós hefur komið, að norski fjárfestirinn, Reitan, sem átti hlut í Baugi, átti þann hlut í raun og veru ekki, heldur var leppur. Þetta var hlutur með sölurétti, sem merkti aðeins, að Norðmaðurinn lánaði Jóni Ásgeiri nafn sitt. Heppilegt þótti að sýna bankamönnum, að erlendir fésýslumenn vildu fjárfesta í Baugi.
Í mars varð Baugur gjaldþrota. En þá tóku Hagar við. Í ágúst á þessu ári sagði Jón Ásgeir í viðtali við Viðskiptablaðið, að þrír erlendir fjárfestar væru reiðubúnir til að leggja sextán milljarða inn í Haga. Af einhverjum ástæðum lækkaði þessi tala snarlega fyrir nokkrum dögum: Þá fluttu fjölmiðlar Jóns Ásgeirs fréttir af því, að þessir erlendu fjárfestar gætu lagt fram sjö milljarða, ekki sextán, í 1998 hf. (sem á Haga) gegn því, að fimmtíu milljarða skuldir félagsins yrðu afskrifaðar. Þetta mæltist vægast sagt illa fyrir. Nú hefur talan hækkað aftur. Nú lætur Jón Ásgeir föður sinn, sem hefur leikið jólasvein með góðum árangri í mörg ár, koma fram fyrir sig, því að ímyndarfræðingar hans hafa sagt honum, að gamli maðurinn hafi betri áru en hann sjálfur.
Látið er í veðri vaka, að jólasveinninn hafi gert tilboð í 1998 hf. ásamt erlendum fjárfestum, og þurfi ekki að afskrifa eina einustu krónu. Auðvitað gengur þetta ekki upp. Félagið skuldar fimmtíu milljarða og á eina eign, Haga, sem væri ef til vill 710 milljarða virði skuldlaust (að mati dr. Benedikts Jóhannessonar tryggingastærðfræðings). Ef eitthvert fé er í boði, þá væri fróðlegt að vita, hvaðan það er fengið. Ætla stjórnendur Arion að taka að sér hlutverk í þessum skrípaleik og sýna með því, að þeir séu miklu grænni en græni maðurinn, sem kom hingað forðum á einkaþotunni?
Ljósmynd: Mbl. Skapti Hallgrímsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.11.2009 kl. 08:59 | Slóð | Facebook
23.11.2009 | 19:32
Lagaleg ábyrgð Arion-manna

Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2009 kl. 10:01 | Slóð | Facebook
22.11.2009 | 21:18
Skattakenningar Jóhönnu Sigurðardóttur
Jóhanna Sigurðardóttir fór mikinn um skattamál á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Keflavík í dag. Hún sagði, að sú skattastefna, sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar fylgdu, hefði verið brjálæðisleg. Skattbyrði tekjulægstu hópanna hefði þyngst, en hinir ríku orðið ríkari. Vert er að hafa í huga, hvers vegna Jóhanna gat sagt, að skattbyrði hinna tekjulægstu hefði þyngst. Það var vegna þess, að árin 19952004 hækkuðu tekjur margra úr þessum hópi svo mikið, að þeir tóku að geta greitt skatta, en áður voru tekjur þeirra svo lágar, að þeir lentu undir skattleysismörkum. Var þetta ekki æskilegt? Við sjáum best, hversu heimskulegt skattatal Jóhönnu var, með því að skoða, hvað gerist, ef fyrirtæki hættir að tapa og tekur að græða. Á meðan það tapaði fé, greiddi það auðvitað engan tekjuskatt. Um leið og það tekur að græða, verður það um leið að greiða tekjuskatt. Skattbyrði þess hefur vissulega þyngst. En er það ekki æskilegt?
Þegar tölur um tekjuþróun á Íslandi 19952004 eru skoðaðar, sést, að tekjur hinna tekjulægstu hækkuðu örar en í grannríkjunum að Noregi með allan sinn olíuauð undanskildum. Þær hækkuðu til dæmis tvisvar sinnum meira á Íslandi en var meðaltalið í ríkjum OECD. Hitt er annað mál, að tekjur tekjuhæsta hópsins hækkuðu enn örar þetta tímabil. En hvort eigum við að hafa áhyggjur af hinum fátæku eða hinum ríku? Auðvitað hinum fátæku. Það kerfi er gott, þar sem tekjur þeirra og tækifæri aukast. Þetta hefði sá heimspekingur getað sagt Jóhönnu, sem flokkssystkini hennar hafa hampað hvað mest síðustu árin, Bandaríkjamaðurinn John Rawls. Aðalatriðið er ekki að gera hina ríku fátækari, heldur að gera hina fátæku ríkari. Það tókst árin 19952004. Auðvitað fór allt úrskeiðis 20042008, meðal annars í þeirri ríkisstjórn, sem Jóhanna sat í frá vorinu 2007, en sem ráðherra gerði hún ekkert til að afstýra þeim ósköpum, sem dundu yfir þjóðina, og daufheyrðist við þrálátum viðvörunum úr Seðlabankanum. Nú situr Jóhanna í ríkisstjórn, sem hefur það eina markmið að gera hina ríku fátækari, jafnvel þótt það hafi í för með sér, að hinir fátæku verði líka fátækari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook
21.11.2009 | 19:02
Af íslensku leiðinni á hina sænsku?
Árin 19912004 tókst Íslendingum að marka sérstaka stefnu, fara íslensku leiðina, sem fólst í hóflegum sköttum, víðtæku atvinnufrelsi og rausnarlegum bótum til þeirra, sem minnst mættu sín. Þessi leið var ekki sænsk, því að hún fól ekki í sér, að til yrði risastórt og kostnaðarsamt millifærslubákn með kæfandi faðmlag. Og hún var ekki bandarísk, því að lítilmagnanum var sinnt, en hann ekki skilinn eftir úti á berangri. Ýmislegt fór hins vegar úrskeiðis árin 20042008 vegna veikrar stjórnmálaforystu, ógagnrýnna fjölmiðla, daufra dómstóla, óvirðulegs forsetaembættis og ósvífinna fjármálafursta, en það er annað mál.
Nú á hins vegar að hverfa af hinni íslensku leið á hina sænsku, eins og núverandi valdhafar eru ófeimnir við að segja. Það er þess vegna vert að rifja upp, að Svíar hafa dregist aftur úr Bandaríkjamönnum síðustu áratugi. Árið 1964 voru meðaltekjur Svía (verg landsframleiðsla á mann) um 90% af meðaltekjum Bandaríkjamanna. Fjörutíu árum síðar var hlutfallið komið niður í 75%. Sama gerist, ef við förum að dæmi Svía. Þá drögumst við aftur úr. Þá verður Ísland í Evrópu eins og Nýfundnaland er í Kanada: Lifandi byggðasafn. Sænski hagfræðingurinn Fredrik Bergström, sem komið hefur hingað til lands og haldið fyrirlestra, gerir fróðlegan samanburð á ríkjum Bandaríkjanna og einstökum ríkjum Evrópusambandsins (sem nú eru orðin 27 talsins, en voru lengi 15). Samkvæmt þeim samanburði myndi Svíþjóð vera eitt fátækasta ríkið í Bandaríkjunum, ef það tæki upp á því að gerast þar 51. ríkið. Íbúarnir hefðu svipaðar meðaltekjur og í Mississippi og Arkansas!
Við eigum vitanlega hvorki að apa eftir Svíum né Bandaríkjamönnum, heldur vera áfram Íslendingar og fara íslensku leiðina, sem sameinar frelsi og afkomuöryggi. Það eru miklar óheillakrákur, sem reyna að hrekja okkur af þeirri leið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook
21.11.2009 | 19:01
Sjónarmið Sigurðar Líndal
Sigurður Líndal lagaprófessor ritar grein í Fréttablaðið 19. nóvember 2009 um Icesave-samningana, sem bíða nú afgreiðslu Alþingis. Hann víkur í því sambandi að stjórnarskránni:
Í 21. gr. segir að samþykki Alþingis þurfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins og í 40. gr. að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild. Með frumvarpi því sem nú bíður afgreiðslu liggur vissulega fyrir lagaheimild, en verður ekki að gera þá kröfu að hún sé þannig úr garði gerð að skuldbindingum séu sett skýr takmörk og stofni þannig fullveldi ríkisins ekki í hættu? Og hér er álitaefnið hvort frumvarpið fullnægi þessum áskilnaði. Um það skal ekkert fullyrt, en hins vegar kemur á óvart að þessi þáttur virðist ekki hafa komið til almennrar umræðu. Væri nú ekki rétt að huga að þessu áður en frumvarpið verður samþykkt?
Ég er sammála Sigurði. Annað atriði er einnig umhugsunarefni. Nú er talsvert talað um Landsdóm vegna hugsanlegrar vítaverðrar vanrækslu einhverra valdsmanna í aðdraganda bankahrunsins, enda hafi sú vanræksla valdið þjóðinni stórkostlegu fjárhagstjóni. En skyldu hinir hraksmánarlegu Icesave-samningar ekki veita fullt tilefni til að leiða núverandi ráðamenn fyrir Landsdóm, þegar þjóðin áttar sig loks á, hvað þeir eru að gera? Geta þessir menn skuldbundið þjóðina stórkostlega fjárhagslega, án þess að séð verði, að þær skuldbindingar styðjist við lög eða alþjóðasamninga, auk þess sem enginn veit, hvað þær fela í sér?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook
19.11.2009 | 17:55
Óskynsamlegar skattahækkanir
Útreikningar þeir, sem birtast í fjölmiðlum á áhrifum skattahækkana, eru allir rangir. Þar er aðeins gert ráð fyrir skammtímaáhrifum skattahækkana. En langtímaáhrif þeirra eru jafnan, að skattstofnar minnka, og þá lækka skatttekjur um leið, því að vitaskuld hafa skattar sterk hegðunaráhrif. Þegar menn greiða helming teknanna af viðbótarvinnu sinni í skatt, dregur úr löngun þeirra til að bæta við sig vinnu. Flestir menn hafa meiri áhuga á að vinna fyrir sig og fjölskyldu sína en fyrir Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur. En um leið og skatttekjur lækka, verður minna afgangs til að fullnægja þeim þörfum, sem ríkið vill sinna, til dæmis kjarabótum til þeirra, sem geta ekki bjargað sér sjálfir.
Bestu dæmin um langtímaáhrif skattahækkana eru fólgin í samanburði á Sviss og Svíþjóð, sem Victoria Curzon-Price, prófessor í hagfræði í Genf, gerði eitt sinn á ráðstefnu á Íslandi. Í Sviss námu skattar um 30% af landsframleiðslu fyrir það ár, sem Curzon-Price tók dæmi af, og þar voru skatttekjur á mann þá um eitt þúsund Bandaríkjadalir. Í Svíþjóð námu skattar um 60% af landsframleiðslu þetta sama ár, og skatttekjur á mann voru þá svipaðar og í Sviss, um eitt þúsund Bandaríkjadalir á mann. Þetta sýnir það, að lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór og stór sneið af lítilli köku.
Ég skrifaði grein í 43. tölublað Vísbendingar um ýmis ósýnileg, en þó raunveruleg áhrif stighækkandi tekjuskatts, og í 45. tölublaði, sem er nýkomið út, skrifa ég um skattleysismörkin, sem eru miklu hærri á Íslandi en víðast annars staðar. Ég held, að lögmál skatta séu þrenn og öll brotin af þeim óheillakrákum, sem nú voma yfir stjórnarráðinu:
- Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku.
- Gæsirnar, sem varpa gulleggjunum, eru flestar fleygar.
- Um skatta gildir hið sama og búskap, að rýja á sauðféð, en ekki flá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook
19.11.2009 | 17:54
Blogg mitt um bækur
Ég blogga um nokkrar bækur á Eyjunni. Hér eru hlekkir í þau blogg, sem birst hafa þar fram að þessu:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook
18.11.2009 | 22:06
Vandlifað fyrir rithöfunda

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook
18.11.2009 | 22:03
Af hverju var mútumálið aldrei rannsakað?

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook
16.11.2009 | 23:55
Heiðarleiki
Sumir hafa fundið að því, að þjóðfundurinn í Laugardalshöll laugardaginn 14. nóvember geti ekki talað í nafni þjóðarinnar. Auðvitað er það rétt. Ekkert slíkt úrtak fær talað í nafni þjóðarinnar. Til er viðurkenndur farvegur almennra þingkosninga á nokkurra ára fresti, sem veitir kjósendum tækifæri til að skipta um valdsmenn, telji þeir það nauðsynlegt. Þjóðin er víðfeðmara hugtak en kjósendur og spannar allar ellefu aldir Íslandsbyggðar. Þetta hugtak skírskotar til hinna varanlegu hagsmuna Íslendinga á vegferð þeirra. En framtak þjóðfundarmanna er samt lofsvert og virðist hafa tekist vel. Þótt þeir, sem hittust í Laugardalshöll, geti ekki talað í nafni þjóðarinnar, geta þeir talað til þjóðarinnar. Og það hafa þeir gert, svo að eftir er tekið. Þeir krefjast heiðarleika. Þar er ég hjartanlega sammála þeim. Eflaust veldur einhverju um þessa kröfu söknuður eftir þeim stjórnmálaforingja Íslendinga, sem gat sér helst orð fyrir heiðarleika, en hvarf því miður úr stjórnmálum haustið 2005. Hann er Davíð Oddsson.
Þar skiptir ekki mestu máli, að Davíð lét ekki greiða sér biðlaun borgarstjóra, þegar hann varð forsætisráðherra, þótt hann ætti rétt á því, eða að kona hans tók sér aldrei dagpeninga í ferðum þeirra erlendis, þótt þau hjónin ættu rétt á því og aðrir gerðu það óspart. Hitt er mikilvægara, að Davíð lét aldrei annað stjórna sér en eigin samvisku og sannfæringu. Hann var ekki falur eins og svo margir aðrir stjórnmálamenn. Hann var ekki einu sinni falur fyrir 300 milljónir, þótt Jón Ásgeir Jóhannesson segði Hreini Loftssyni og öðrum manni ónefndum, að enginn stæðist þá upphæð. Til dæmis verður Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur henni til ævarandi minnkunar, og hlutur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem uppvísir urðu að því að taka eftir stjórnartíð Davíðs við stórfé frá auðjöfrunum eins og Samfylkingin hafði gert (þótt þessir tveir flokkar gengju ekki eins blygðunarlaust erinda þeirra) er litlu skárri. Fólk krefst heiðarleika. Þess vegna er ekki að furða, að flestir treysta samkvæmt skoðanakönnunum Davíð Oddssyni til að leiða þjóðina í gegnum núverandi þrengingar. Þótt Davíð kunni eins og allir slyngir stjórnmálamenn að gjalda lausung við lygi, eru svik ekki til í munni hans.