Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.12.2009 | 14:53
Hlýnun jarðar
Ómar Ragnarsson helgar mér nýlegan pistil á bloggi sínu. Þar fullyrðir hann, að ég haldi því fram, að ekki hafi hlýnað á jörðinni síðustu áratugi. Þetta er rangt. Mér dettur ekki í hug að neita því, að hlýindaskeið hefur verið hér síðustu þrjátíu árin eða svo. Hvort tveggja er, að mælingar sýna það ótvírætt og við vitum þetta öll, því að reynsla okkar segir okkur það. Miklu kaldara var í Reykjavík, þegar ég var barn og unglingur, en nú er. Mér er í bernskuminni, þegar þulur Ríkisútvarpsins tilkynnti alvarlegri röddu, að nú nálgaðist hafís landið, og þegar viðtöl voru snemmsumars við afabróður minn, Halldór Pálsson búnaðarmálastjóra, um kal í túnum, ár eftir ár.
Tilefnið til færslu Ómars var, að ég hafði vakið athygli á því, að einhverjir hafa komist í tölvupóst rannsóknarstofnunar í loftslagsfræðum við East-Anglia-háskólann (þar sem Össur Skarphéðinsson stundaði nám) og birt á Netinu. Í þeirri stofnun starfa margir áköfustu fylgismenn kenningarinnar um það, að stórkostleg hætta sé af hlýnun jarðar, sem sé af mannavöldum, svo að mannkyn verði ekki aðeins að stórefla rannsóknir í loftslagsfræðum (veita þeim sjálfum hærri styrki), heldur gerbreyta lífsháttum sínum, til dæmis með takmörkun útblásturs úr bílum, flugvélum og skipum. Í tölvupóstinum kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Loftslagsfræðingarnir leggja á ráðin um, hvernig bægja megi þeim vísindamönnum frá ráðstefnum og vísindatímaritum, sem séu annarrar skoðunar, og fela ýmsar óþægilegar staðreyndir með talnabrellum. Til dæmis var hlýindaskeið á miðöldum, þegar Ísland og Grænland byggðust, sem enginn getur rakið til útblásturs úr bílum, flugvélum og skipum. Einnig viðurkenna loftslagsfræðingarnir sín í milli þá óhentugu staðreynd, að síðustu tíu árin hefur ekki hlýnað, og hefur þó losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið, sem á að valda hlýnuninni, stóraukist á tímabilinu.
Að sjálfsögðu nægir þetta ekki til að hrekja kenninguna um það, að mannkynið kunni að eiga þátt í hlýnun jarðar síðustu áratugi með losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft. Hún er eflaust gild innan sinna marka. En heilbrigð skynsemi segir mér, að margt annað hafi áhrif á loftslag, til dæmis virkni sólar og straumar í hafi. Hvort sem mannkynið hafi með gerðum sínum einhver veruleg áhrif á loftslag eða ekki, geti það ekki stjórnað loftslaginu. (Veðurfræðingar vita ekki einu sinni nóg um veðrið til að geta spáð fyrir um það með fullri vissu á morgun.) Þess vegna sé betra að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Meira tel ég mig ekki geta sagt. Þess vegna missti Ómar Ragnarsson marks með færslu sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook
8.12.2009 | 14:50
Fullveldisdagurinn
Einnig var sorglegt að sjá það leikrit, sem stjórnarsinnar settu á svið á fullveldisdaginn á Alþingi. Sigurður Líndal prófessor hafði látið í ljós rökstuddar efasemdir um, að Icesave-samkomulagið (sem er raunar ekkert samkomulag, heldur aðeins uppgjöf) stæðist stjórnarskrá. Þá voru kallaðir til tveir lögfræðingar, sem höfðu verið með í ráðum um samkomulagið, ásamt Sigurði og fjórða manni. Auðvitað sögðu lögfræðingarnir tveir, sem höfðu verið ráðgjafar samningamannanna íslensku um Icesave, að gerðir þeirra sjálfra hefðu ekki stangast á við stjórnarskrá. Hvað áttu þeir að gera annað?
8.12.2009 | 14:49
Stórskaðlegar skattahækkanir
Með því að hækka fjármagnstekjuskatt er verið að refsa mönnum fyrir sparsemi. Mestallar fjármagnstekjur eru í eðli sínu tekjur af uppsöfnuðu fjármagni. Menn hafa sparað til að eignast húsnæði, sem þeir leigja út, eða kaupa hlutabréf, sem þeir fá ýmist af arð eða selja. Hár fjármagnstekjuskattur merkir, að það borgar sig ekki eins vel og ella að hugsa til framtíðar, leggja til hliðar, sýna fyrirhyggju. Slíkur skattur hefur því röng hegðunaráhrif. Núverandi ríkisstjórn stígur mikið óheillaskref með því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% upp í 18%. Skattasérfræðingar núverandi ríkisstjórnar eru menn, sem vildu þegar í góðærinu hækka skatta. Það er þeim mikilvægara, að hinir ríku verði fátækari en að hinir fátæku verði ríkari. Þeir eru jöfnunarsinnar af ástríðu. Þeir vilja jafna allt niður á við.
Auk þess kunna þeir ekki að reikna. Stefán Ólafsson prófessor sagði í Morgunblaðinu 26. febrúar 2007, að sumir gætu fært hluta atvinnutekna sinna yfir í fjármagnstekur sem eru skattlagðar um 10% í stað hátt í 40% skattlagningar atvinnutekna. Þessar tölur hans voru báðar villandi. Venjulegur atvinnurekandi, sem greiddi sér út arð í stað þess að greiða sér út laun, þurfti í raun að greiða 26,2% skatt af tekjum sínum (fyrst greiddi hann 18% tekjuskatt fyrirtækja af hagnaði sínum og síðan 10% af þeim 82%, sem eftir voru, en ekki þarf mikinn reikningsmann til að sjá, að þetta er samtals 18+8,2=26,2%). Venjulegur launþegi greiddi í raun ekki 36% skatt af tekjum sínum. Vegna skattleysismarkanna greiddi hann 0% af fyrstu 90 þúsund krónum sínum árið 2007, 18% af fyrstu 180 þúsund krónunum og svo framvegis. Venjulegur launþegi með meðaltekjur greiddi árið 2007 í raun um 28% af tekjum sínum í tekjuskatt eða svipað og fjármagnseigandinn.
En þarf ekki að afla fjár í ríkissjóð? Vissulega, en það mætti gera á tvennan hátt. Í fyrsta lagi mætti færa útgjöld og þjónustustig ríkisins nokkur ár aftur í tímann, til dæmis til ársins 2004, en þá lifði þjóðin engu eymdarlífi. Í öðru lagi mætti selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun, og fyrir það fengist sama fé í þrjú ár og gert er ráð fyrir, að allar skattahækkanirnar færi í ríkissjóð (um 120 milljarða).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook
8.12.2009 | 14:47
Hringing frá DV
Ég fékk fyrir nokkrum dögum senda í tölvupósti mynd, sem einhverjir gárungar hafa sett á Netið, prentaði hana út (í einu eintaki) og sýndi nokkrum samkennurum mínum í Háskóla Íslands. Mér fundust upplýsingarnar, sem komu fram á myndinni, fróðlegar. Þetta er mynd af einu helstu umræðuefni dagsins, klíkuskap. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, og fleiri hafa sagt, að klíkuskapur sé allt of algengur hér á landi. Ég held að vísu, að hann sé óhjákvæmileg afleiðing af fámenni þjóðarinnar. Klíkuskapur er annað orð á kunningsskap, og hann er hvort tveggja, kostur og galli. Okkur verður heldur starsýnt á gallana þessa dagana, en megum ekki gleyma kostunum. Samtrygging er stundum góð og stundum vond. Hitt er annað mál, að þau Sigurjón Pálsson og Helga Jónsdóttir, sem eru sýnd á þessari mynd, verða að sannfæra okkur um það, að þau taki efnislega afstöðu til mála, en fari ekki eftir því, sem venslafólk þeirra og vinir hafa hag af. Sigurjón hefur einmitt prýðilegt tækifæri til þess næstu vikur, eftir að Jóhannes í Bónus lýsti yfir því, að Hagar hefðu lagt auglýsingabann á Morgunblaðið. Sigurjón hlýtur að nota aðstöðu sína í stjórn 1998 ehf. (sem á Haga) til að hnekkja því auglýsingabanni. Hann getur ekki látið mægðir sínar við forstjóra 365-miðla ráða.
En því minnist ég á þetta, að í dag hringdi í mig blaðamaður frá DV, sem spurði, hvort ég hefði dreift þessari mynd í Háskólanum, eins og vitni segðu. Ég svaraði honum sem satt var, að það hefði ég ekki gert, og spurði á móti, hvort DV hefði ekki meiri áhuga á því, sem myndin sýnir, en hverjir koma henni á framfæri. Varla vildi DV þagga niður gagnrýni á klíkuskap. Myndin á líka erindi til okkar allra, svo að ég leyfi mér að setja hana hér til að bæta það upp, að ég skyldi ekki hafa dreift henni í Háskólanum, heldur aðeins prentað þar út af henni eitt eintak og sýnt nokkrum samkennurum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook
30.11.2009 | 10:37
Þessi mynd gengur um Netið
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook
29.11.2009 | 19:48
Bók Styrmis um hrunið
Bók Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, Umsátrið, er vönduð og vel skrifuð. Höfundur er saddur valdadaga og semur þessa bók ekki til að ná sér niðri á einhverjum, heldur til að skýra atburðarásina fyrir sér og lesendum. Margir hafa staldrað við þá tilgátu hans, að rannsóknarnefnd Alþingis muni gera tillögu um, að þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði leidd fyrir Landsdóm sökum vítaverðrar vanrækslu í aðdraganda hrunsins, sem valdið hafi íslenskum almenningi stórkostlegu fjárhagslegu tjóni. Þessi tilgáta kom mér á óvart. En Styrmir bendir á, að formaður rannsóknarnefndarinnar hafi sagt opinberlega, að nefndin eigi eftir að flytja þjóðinni erfið tíðindi. Hver gætu þau verið önnur? Það sést líka vel af bók Styrmis, að þessir ráðherrar daufheyrðust við ítrekuðum viðvörunum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, sem sagði þeim, að bankarnir hefðu vaxið út fyrir þau mörk, að íslenska ríkið gæti aðstoðað þá, færi illa, auk þess sem hann hefði grun um, að afkoma þeirra væri verri en gæti að líta í bókum þeirra.
Fróðlegt er samtal Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og Styrmis á Bessastöðum á miðju sumri 2004. Ólafur Ragnar mærði unga, íslenska viðskiptajöfra af miklu kappi, en Styrmir maldaði eitthvað í móinn. Þegar leið á spjallið, sagði Styrmir: Það getur ekki verið, að þetta samtal sé að fara fram. Þú talar eins og fulltrúi stórkapítalista, ég eins og ég væri ritstjóri Þjóðviljans! Styrmir minnir einnig á, að viðskiptajöfrarnir eignuðust flesta fjölmiðla, eftir að forseti synjaði fjölmiðlafrumvarpi frá Alþingi staðfestingar þetta sumar. Eftir það var lítil von eðlilegs aðhalds frá fjölmiðlum. Styrmir rifjar upp ummæli ýmissa vinstrimanna nokkrum árum áður um það, hversu nauðsynlegt sé að tryggja dreift eignarhald á fjölmiðlum. Ólafur Ragnar Grímsson sagði til dæmis á þingi í febrúar 1995: Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútímahugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hafa í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði, sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði, sem koma í veg fyrir það, að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum.
Styrmir telur, að átökin um fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi breytt miklu í aðdraganda hrunsins: Eftir bankahrunið var spurt: Hvar voru fjölmiðlarnir? Á móti má spyrja: Við hverju var að búast eftir það, sem á undan var gengið? Um þetta er ég sammála honum. Viðskiptajöfrarnir og þá sérstaklega skuldakóngurinn í þeirra röðum, Jón Ásgeir Jóhannesson, töldu eftir þessi átök, að þeir væru orðnir ósnertanlegir. Þeir mættu allt og gætu allt. Ég er hins vegar ekki sammála Styrmi um það, að kvótakerfið í sjávarútvegi hafi skipt sérstöku máli í þessu sambandi. (Frjálst framsal í uppsjávarfiski komst á þegar árið 1979.) Vissulega skapaðist fé, þegar fiskistofnar, sem verðlitlir höfðu verið sökum offjárfestingar, urðu verðmætir. En einnig skapaðist fé, þegar sparnaður hlóðst upp í lífeyrissjóðum, og dettur engum í hug að rekja bankahrunið til þess. Það er í eðli sínu æskileg þróun, að dautt fjármagn verði lifandi.
Þegar ég las bók Styrmis, fannst mér án þess þó að vita það með neinni vissu, að örlög íslensku bankanna hefðu endanlega ráðist eftir röng viðbrögð þeirra við Geysiskreppunni 2006. Þeir komust klakklaust í gegnum þá óvæntu kreppu, en töldu hana eftir það frekar áskorun (svo að notað sé algengt orð þess tíma) en viðvörun. Þeir ákváðu ekki að minnka niður í hæfilega stærð fyrir Ísland, afla sér öflugri bakhjarla erlendis eða gæta meira hófs í viðskiptaháttum. Þegar liðið var fram á mitt ár 2007, var orðið of seint að snúa við. Styrmir bendir réttilega á, að bankahrunið varð, vegna þess að erlendir aðilar ákváðu að rétta Íslendingum ekki hjálparhönd. En fullnægjandi skýringar vantar á því. Var það vegna þess, að gætnum ráðamönnum ytra blöskruðu viðskiptahættir Íslendinga? Eða var það vegna þess, að erlendir viðskiptabankar kærðu sig ekki um nýja og röska keppinauta? Átti Ísland að verða einhvers konar víti til varnaðar? Skólabókardæmi? Sennilega er of mikið lesið í söguna með einhverri einni slíkri skýringu. Bankahrunið var niðurstaða flókinnar atburðarásar, þar sem margt fór miður og fáir sem engir ætluðu sér sennilega að gera illt.
28.11.2009 | 21:33
Hvað gerir Arion?
Hagar eru ekki lengur einkafyrirtæki og meðferð fjár þess ekki lengur einkamál. Ef forráðamenn Arion banka láta sér ekki segjast, þá þarf að láta reyna á það fyrir dómstólum (eða jafnvel á götum og torgum úti), hvort þeir fá misnotað vald sitt á þann hátt, sem Jóhannes í Bónus lýsti hróðugur í Fréttablaðsgreininni. Annað er umhugsunarefni. Hagar keppa við ýmis önnur fyrirtæki á smásölumarkaði. Þetta félag virðist ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur af 48 milljarða skuld sinni við Arion banka. Keppinautar þess standa hins vegar í skilum með sín lán. Nú bjóða Hagar viðskiptavinum sínum sérstök lán fram á næsta ár. Ég efast um, að keppinautarnir geti boðið svipuð kjör (þótt þeir neyðist ef til vill til þess). Þetta er líka óþolandi fyrir Arion banka og eigendur hans, íslenskan almenning. Skuldakóngarnir lokka með sérstökum jólalánum viðskiptavini frá keppinautum sínum. Stjórnarmenn frá Arion í 1998 ehf. hljóta að taka í taumana. Eflaust hefur stjórnarmönnunum frá Arion í 1998 ehf. sárnað ýmislegt, sem sagt hefur verið um þá síðustu vikur. Nú hafa þeir tækifæri til að sýna, að sú gagnrýni sé ekki á rökum reist.
27.11.2009 | 16:28
Hefnd Breta sæt
Fyrst gerði Ólafur Thors sjávarútvegsráðherra það 1952, þegar
landhelgin var færð úr þremur sjómílum í fjórar, en stækkunin var miklu
meiri en ætla mætti, því að firðir og flóar lentu innan landhelginnar.
Síðan gerði Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra það, þegar landhelgin
varð tólf mílur 1958 og fiskveiðilögsagan 50 mílur 1972. Loks gerði
Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra það, þegar fiskveiðilögsagan
var færð út í 200 mílur 1975. Í öll skiptin höfðu Íslendingar að
engu skilning grannþjóðanna á alþjóðalögum. Þeir sögðu, að lífsnauðsyn
lítillar þjóðar væri ofar hæpnum lagakenningum. Í öll skiptin beittu
Bretar valdi, og í þrjú þeirra sendu þeir herskip á Íslandsmið. En
Íslendingar héldu ótrauðir sínu striki og öðluðust alþjóðlega
viðurkenningu á rétti sínum til lífs og afkomu. Þeir eignuðust gjöful
fiskimið. Talið er, að íslenskur sjávarútvegur sé um 350 milljarða
króna virði. Nú hafa stjórnvöld samið með Icesave-samkomulaginu
svonefnda um að greiða Bretum og bandamönnum þeirra um 700 milljarða
króna eða tvöfalt virði sjávarútvegsins. Þeir hafa afhent Bretum aftur
allt það, sem Ólafur Thors, Lúðvík Jósepsson og Matthías Bjarnason með
einhuga fylkingu Íslendinga bak við sig börðust fyrir og fengu. Engin
skýr laganauðsyn knúði stjórnvöld til að gera þetta. Ekki má einu sinni
bera þetta undir dómstóla. Allur ávinningur þorskastríðanna er glataður. Í
fyrri þorskastríðum börðust Íslendingar og Bretar um þorska. Nú hafa
þorskar á þurru landi tekið völd á Íslandi og tapað fyrir Bretum, þótt
þeir verði farnir frá völdum, þegar þunginn af mistökum þeirra skellur
á þjóðinni eftir sjö ár. Hefnd Breta fyrir ósigra sína í fyrri stríðum
við Íslendinga hlýtur að vera sæt.
26.11.2009 | 21:40
Í hvaða liði eru þau?
Erlendur hagfræðingur, Daniel Gros, sem situr í bankaráði Seðlabankans fyrir Framsóknarflokkinn, telur, að Íslendingar gætu sparað sér 185 milljarða króna í vaxtagreiðslur til Breta og Hollendinga, væri jafnræðisreglu innan Evrópska efnahagssvæðisins beitt. Bretar og Hollendingar ættu ekki að krefjast hærri vaxta af Íslendingum en þeir heimta af eigin tryggingarsjóðum. Þetta er athyglisvert sjónarmið, hvort sem menn telja, að gera hefði átt Icesave-samkomulagið við Breta og Hollendinga eða ekki. Að minnsta kosti er ljóst, ef gera þurfti samkomulagið, að þá átti að reyna að fá eins góð vaxtakjör og unnt væri. Aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, Indriði H. Þorláksson, bregst hins vegar illa við. Hann kveðst ekki vita, hvaða jafnræðisreglu Gros sé að tala um, og telur öll tormerki á að reikna út muninn á vaxtakjörum tryggingarsjóðanna í Bretlandi og Hollandi annars vegar og Íslendinga hins vegar.Þessi viðbrögð Indriða eru mér óskiljanleg. Hvers vegna tekur hann ekki fegins hendi öllum þeim röksemdum og sjónarmiðum, sem okkur geta orðið að gagni í baráttunni við Breta og Hollendinga? Hann talar eins og fulltrúi þessara erlendu þjóða, ekki sem málsvari Íslendinga.
Þetta er þó ekkert einsdæmi. Björg Thorarensen lögfræðiprófessor flutti ágæta ræðu á fullveldisdaginn í fyrra, 1. desember 2008, og gagnrýndi þar harðlega framferði Breta, sem beittu lögum gegn hryðjuverkasamtökum í því skyni að loka íslensku bönkunum í Bretlandi með þeim afleiðingum, að eignir bankanna rýrnuðu stórlega í verði. Ég hef fyrir því góðar heimildir, að þessi gagnrýni hafi kostað Björgu embætti dómsmálaráðherra, sem henni hafi ella verið ætlað. En í hvaða liði er það fólk, sem þannig hugsar? Breta eða Íslendinga?
25.11.2009 | 18:09
Loftslag og loftslagsfræðingar
Forðum sögðu gárungarnir, að uppeldisfræði væri ekki til, aðeins uppeldisfræðingar. Sú hugsun hvarflaði að mér á dögunum, að svipað ætti við um loftslagsfræði. Hún sé ekki til, aðeins loftslagsfræðingar. Þessi vísindi eru undirorpin svo mikilli óvissu, að menn virðast geta trúað hverju sem er. Okkur hefur verið sagt í tvo áratugi, að jörðin væri að hlýna af mannavöldum, svo að stefndi í stórslys, nema við breyttum stórkostlega lífsháttum okkar, fórnuðum ýmsum þægindum og legðum víðtækt vald í hendur gáfumanna, sem vissu betur en við hin, hvert stefna skyldi. Meginrökin voru, að losun koltvísýrings í andrúmsloftið vegna brennslu lífrænna efna eins og kola og olíu myndaði hjúp, sem kæmi í veg fyrir eðlilega kólnun jarðar. Þetta voru í fæstum orðum gróðurhúsaáhrifin margfrægu. Á hundrað árum hefði hlýnað um eitt hitastig á jörðinni, og á sama tíma hefði losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft aukist um 30%. Fjölmennur og vel-fjáður iðnaður hefur sprottið upp í kringum þessa kenningu, og gefa starfsmenn hans sér varla tíma til að líta á hitamælana, svo önnum kafnir eru þeir við að sækja ráðstefnur á framandi stöðum. Einn helsti talsmaður kenningarinnar, Al Gore, hefur tvisvar verið gestur íslensku bankanna, fyrst Kaupþings á Spáni, síðan Glitnis í Reykjavík. Lét forseti Íslands eins dátt við hann og útrásarvíkingana ósællar minningar.
En hitamælarnir sýna, að ekki hefur hlýnað á jörðinni síðustu tíu árin, þótt losun koltvísýrings hafi aukist talsvert á sama tíma. Vísindamennirnir sitja nú og klóra sér í kollinum, en sækja eflaust um fleiri styrki til að rannsaka þetta fyrirbrigði, jafnframt því sem þeir munu skipta þegjandi og hljóðalaust um fyrirsagnir á línuritum sínum. Nú hafa einhverjir komist í tölvupóst hjá bandaríska loftslagsfræðingnum Kevin Trenberth og starfsbræðrum hans. Þar hreykir einn þeirra sér af því í skeyti, að hann hafi notað talnabrellu til að sýna fram á skarpa hlýnun. Trenberth segir í öðru skeyti: Staðreyndin er sú að við getum ekki gert grein fyrir því hvers vegna jörðin er ekki að hitna núna og það er skrípaleikur. Minnir þetta á, þegar kanadíski sjávarútvegsfræðingurinn Boris Worm birti í nóvemberhefti Science 2006 spá um, að fiskistofnar heims kynnu að hrynja næstu fjörutíu árin. Átaldi Morgunblaðið, sem þá var undir annarri stjórn en nú, Jóhann Sigurjónsson, forstöðumann Hafrannsóknarstofnunar, harðlega í forystugrein 5. nóvember fyrir að gera lítið úr þeirri spá. Fyrir misgáning sendi Worm tölvuskeyti til eins blaðamanns Seattle News, en skeytið hafði verið ætlað samstarfsfólki hans. Þar viðurkenndi Worm, að spáin um hrun fiskistofna hefði verið fréttabeita til að vekja athygli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.11.2009 kl. 22:56 | Slóð | Facebook