Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.12.2009 | 11:43
Líflína eða snara?
Hinir ungu og hrokafullu íslensku hagfræðingar, sem starfa vestanhafs og senda okkur reglulega tóninn upp til Íslands, Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, hafa gert mikið úr því atriði í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um afkomu ríkissjóðs, að Seðlabankinn hefði getað minnkað tap sitt af útlánum til íslensku viðskiptabankanna, hefði hann hert reglur um þau fyrr. Athugasemd Ríkisendurskoðunar er eflaust rétt, enda auðvelt að vera vitur eftir á. En gæta verður að því, hvað í henni felst. Hefði Seðlabankinn hert þessar reglur, þá hefðu bankarnir líklega hrunið talsvert fyrr. Þrátt fyrir allt vonuðu flestir gegn von, í lengstu lög, að einhverjir bankanna myndu standa af sér hina alþjóðlegu fjármálakreppu, sem er hin versta frá því í heimskreppunni. Úrlausnarefnið var að fleyta bönkunum yfir kreppuna, rétta þeim líflínu. En hvenær er líflína snara, sem óþarfi er að lengja í? Þeirri spurningu verður aðeins svarað með þeirri vitneskju, sem fæst eftir atburðarás, ekki fyrir hana.
Einn virtasti endurskoðandi landsins, Stefán Svavarsson, hefur skýrt ágætlega út, að Seðlabankinn gat ekki annað, þegar hann lánaði út með veði í skuldabréfum bankanna (ekki innlánum eins og Gauti B. Eggertsson skrifaði eitt sinn), en treyst Fjármálaeftirlitinu um það, að nægar eignir (í lánabókum bankanna) stæðu að baki þessum skuldabréfum. Stefán telur eins og fleiri, að í ljós hafi komið í þessari kreppu, hversu óheppilegt var að vista ekki Fjármálaeftirlitið í Seðlabankanum. Annars verður Jón Sigurðsson, sem sat fyrir Samfylkinguna í bankaráði Seðlabankans, að svara fyrir Fjármálaeftirlitið, þar sem hann var stjórnarformaður árið fyrir hrun.
Þeir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson láta eins og allt hafi verið gert rangt á Íslandi og allt rétt erlendis. Erlendir seðlabankar hafi aðeins lánað gegn tryggum veðum. Í því sambandi langar mig til að vekja athygli á frétt, sem virðist hafa farið fram hjá mörgum. Hún er, að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gagnrýndi í yfirheyrslum í bandaríska þinginu þá ráðstöfun Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, að skilja fjármálaeftirlit landsins frá seðlabankanum (Englandsbanka). Þetta hefði sitt að segja um, að breska ríkið sæti nú hugsanlega uppi með 850 milljarða punda útlánatap vegna björgunaraðgerða sinna í kreppunni.
850 milljarðar punda eru meira en 170.000 milljarðar íslenskra króna. Þetta nálgast það að vera svipuð upphæð á mann og talið er, að íslenska ríkið kunni að tapa á björgunaraðgerðum sínum fyrir milligöngu Seðlabankans í kreppunni, og voru íslensku bankarnir þó hlutfallslega miklu stærri en hinir bresku (og margt óvíst um afdrif eigna þeirra). 170.000 milljarðar íslenskra króna! Hvar eru hin tryggu veð Englandsbanka? Hvers vegna er gert ráð fyrir þessu feikilega útlánatapi þar? Því hljóta Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson að geta svarað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook
12.12.2009 | 13:24
Sigurður G. Guðjónsson í vandræðum
Sigurður G. Guðjónsson, kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjöri 1996, var um skeið forstjóri Stöðvar tvö, sem Baugsfeðgar áttu þá. Hann tryggði, að forseti synjaði sumarið 2004 fjölmiðlalögum þeim, er Alþingi hafði samþykkt, staðfestingar, en tilgangur laganna var að koma í veg fyrir, að auðjöfrar gætu ráðið allri skoðanamyndun í landinu. Þetta var í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, sem forseti notaði þetta vald. Eftir þetta raskaðist allt jafnvægi í landinu. Auðjöfrar töldu, að þeir ættu allt og mættu allt. Trylltur dans hófst í kringum gullkálfinn, og útrásarvíkingar, fjölmiðlungar, dómstólar og stjórnmálamenn (aðallega í Samfylkingunni) að þeim Sigurði og Ólafi Ragnari ógleymdum tóku allir þátt í honum.
Sigurður víkur hins vegar af nokkurri þykkju að mér í pistli á Netinu í fyrradag og segist hvergi hafa komið nálægt neinum útrásardansi. En svo illa vill til, að hann kemst í mótsögn við sjálfan sig í einni og sömu málsgreininni. Hann segir: Hef heldur aldrei verið lögfræðingur eins eða neins útrásarvíkings. Hef hins vegar glímt við nokkra þeirra fyrir skjólstæðinga mína. Ég kom inn í stjórn Fons að beiðni gamals skjólstæðings míns, Pálma Haraldssonar, eftir bankahrun haustið 2008. Hvenær hætti Pálmi í Fons að vera útrásarvíkingur? Sigurður sver einnig af sér að hafa veitt Landsbankamönnum ráðgjöf. Hann veit betur. Hann gerði það í baráttunni um Tryggingarmiðstöðina forðum. Og Sigurður sat í stjórn Glitnis, þegar sá banki lenti fyrstur bankanna í þroti. Ég veit ekki, hver er útrásarvíkingur, ef Sigurður er það ekki.
Sigurður brigslar mér í pistli sínum um að vera dæmdur maður. En fyrsti dómurinn, sem ég fékk, var fyrir að reka ólöglega útvarpsstöð í verkfalli prentara og ríkisútvarpsmanna haustið 1984. Þetta gerði ég í mótmælaskyni við einokun ríkisins á útvarpsrekstri, sem síðan var horfið frá. Það veitti mönnum eins og Sigurði tækifæri til að reka einkastöðvar. Ég barðist fyrir frelsinu, sem Sigurður misnotaði síðan, þegar hann stjórnaði sjónvarpsstöð fyrir auðjöfrana. Ég reyndi að bæta heiminn, en Sigurður að græða á honum.
Nú er Sigurður í stökustu vandræðum, því að hann ginnti forseta Íslands sumarið 2004 til að synja fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar. Þá var sagt, að gjá væri milli þings og þjóðar í málinu. En hafi hún verið einhver þá, er hún miklu breiðari nú samkvæmt skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum. Eins og dr. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor benti á í Speglinum síðastliðinn mánudag, missir forsetinn það litla, sem eftir er af trúverðugleika sínum, synji hann Icesave-frumvarpinu ekki staðfestingar.
Einnig er á það að líta, að forsetinn skrifaði undir fyrra frumvarp með sérstakri vísan til fyrirvara Alþingis, sem nú eru horfnir. Enn fremur ber að hafa í huga, að munurinn á fjölmiðlafrumvarpinu 2004 og Icesave-frumvarpinu nú er, að hægðarleikur var að breyta lögunum um fjölmiðla, teldu menn þá sig hafa gert mistök. Hitt verður vandasamara, að komast út úr því kviksyndi, sem vinstristjórnin núverandi virðist vera að leiða okkur Íslendinga út í.
(Myndin er af einkaþotu skjólstæðings Sigurðar, Pálma Haraldssonar í Fons. Sjá má myndir af einkaþotum útrásarvíkinganna á amx.is.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2009 kl. 00:12 | Slóð | Facebook
11.12.2009 | 12:13
Öfug Laffer-áhrif á Íslandi
Ég birti grein undir þessu nafni í 48. tbl. 27. árg. Vísbendingar 7. desember 2009, 2.3. bls. Þar greini ég Laffer-áhrifin á Íslandi, sem svo má kalla (eftir bandaríska hagfræðingnum Arthur Laffer). Þau felast í því, að skattstofn stækkar iðulega við skattalækkanir (hjón bæta til dæmis við sig vinnu, ef þau þurfa að greiða lægra hlutfall af tekjum sínum í skatta), svo að skatttekjur ríkisins minnka ekki eins mikið við slíkar skattalækkanir og ætla mætti og geta jafnvel hækkað: Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór eða stærri en stór sneið af lítilli köku.
Laffer-áhrifin af víðtækum skattalækkunum áranna 19912004 á Íslandi voru skýr. Meðal annars hækkuðu skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum verulega, þótt skattheimtan færi úr 45% niður í 18%. Skatttekjur ríkisins af einstaklingum hækkuðu einnig á sama tíma, svo að ekki mátti rekja þetta nema að litlu leyti til þess, að fjármagn hefði runnið frá einstaklingum til fyrirtækja með stofnun einkahlutafélaga, eins og Stefán Ólafsson prófessor hélt fram. Takið eftir, að ég reikna ekki með tölunum eftir 2004, því að þá hófst lánsfjárbóla, sem olli einhverju um hækkaðar skatttekjur ríkisins.
Ég rannsakaði meðal annars skatttekjur af leigutekjum af húsnæði. Fyrir 1997 voru þær skattlagðar eins og launatekjur. Líklega hefur venjulegur húseigandi þá greitt af þeim rösk 40% í skatt. En frá og með 1997 hafa leigutekjur verið skattlagðar eins og fjármagnstekjur, svo að af þeim voru fram á þetta ár greidd 10%. Fróðlegt er að sjá, hvernig skattstofninn stækkaði við skattalækkunina. Framtaldar leigutekjur þrefölduðust á einu ári, milli 1997 og 1998. Hvort tveggja var, að skattskil bötnuðu (menn svíkja síður undan 10% skatti en 40%) og að framboð á leiguhúsnæði jókst. Skattstofninn stækkaði. Húsaleigubætur voru komnar fyrr til sögu og hafa þess vegna ekki ráðið miklu um þessa breytingu.
Eftir nokkur ár var svo komið, að skatttekjur ríkisins af leigutekjum voru orðnar svipaðar og áður. Þær voru á að giska 329 milljónir króna 1995 af rösklega 40% skatti, en 352 milljónir 2007 af 10% skatti. Þetta eru greinileg Laffer-áhrif: Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór eða stærri en stór sneið af lítilli köku. En vondu fréttirnar eru, að núverandi ríkisstjórn hefur tekið allt aðra stefnu en hin fyrri. Hún hækkar alla skatta sem hún getur. Þá munu koma til sögunnar öfug Laffer-áhrif: Skattstofninn minnkar við skattahækkanir. Fólk minnkar við sig vinnu, atvinnurekendur leggja ekki út í áhættusöm fyrirtæki, þótt álitleg séu, fjármagnseigendur koma eigum sínum fyrir annars staðar. Kakan minnkar, svo að sneið ríkisins af henni verður miklu minni en spár allra spekinganna gerðu ráð fyrir.
Frekari rökstuðning fyrir þessu má sjá í grein minni í Vísbendingu.Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2009 kl. 01:10 | Slóð | Facebook
10.12.2009 | 06:57
Sigurður G. Guðjónsson einn aðaldansarinn

Nú skrifar Sigurður í Pressunni, að vitanlega þurfi Ólafur Ragnar ekki að synja Icesave-frumvarpinu staðfestingar, því að hann eigi ekki að skera Sjálfstæðisflokkinn úr eigin snöru.
- Sigurður minnist ekki á, að forsetinn undirritaði frumvarpið í fyrri gerð með sérstakri skírskotun til fyrirvaranna, sem nú eru horfnir.
- Hann getur þess ekki, að nú hefur samkvæmt skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum myndast miklu breiðari gjá milli þings og þjóðar en í fjölmiðlafrumvarpsmálinu.
- Hann víkur ekki að því, að munurinn á fjölmiðlafrumvarpinu og Icesave-málinu er, að nýtt Alþingi hefði eftir 2004 hæglega getað fellt fjölmiðlafrumvarpið úr gildi, en það er hægara sagt en gert að ógilda Icesave-samninginn, þótt vinstristjórnin falli í næstu kosningum.
Gagnrýni Sigurðar kemur líka úr hörðustu átt. Hann var einn ákafasti útrásarlögfræðingurinn. Hann veitti Landsbankanum margvíslega ráðgjöf, á meðan hann var einkabanki. Varaði hann þá við Icesave-reikningunum? Hann sat í stjórn Glitnis, þegar bankinn féll. Varaði hann þá við ógætilegum rekstri bankanna, eins og þáverandi seðlabankastjóri gerði hvað eftir annað? Sigurður var stjórnarformaður Fons hf., sem hann stýrði í gjaldþrot. Hann var stjórnarformaður LL-eigna ehf., Dýrfisk ehf. og fleiri fyrirtækja. Einn aðaldansarinn í kringum gullkálfinn þykist nú hvergi hafa komið nálægt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2009 kl. 00:17 | Slóð | Facebook
9.12.2009 | 13:34
Siðfræði umhverfisins
Síðustu helgi, dagana 3.6. desember, tók ég þátt í fróðlegri málstofu um siðfræði umhverfisins í Tucson, Arizona. Margt var þar rætt, sem hlýtur að leita á alla hugsandi menn. Nýtur maðurinn sérstöðu í náttúrunni eða hafa aðrar lifandi verur einhver réttindi og jafnvel dauðir hlutir? Meðal annars ræddum við þá kenningu ástralska heimspekingsins Peters Singer, að öll dýr séu jöfn í þeim skilningi, að þau eigi öll jafnan rétt á því, að tekið sé siðferðilegt tillit til þeirra. Singer telur það villimennsku að drepa dýr og leggja þau sér til munns. Ég er einn þeirra, sem hafna kenningu hans. Af þeirri staðreynd, að menn hafa réttindi í krafti þeirrar skynsemi, sem þeir eru gæddir, leiðir ekki, að dýr hafi slík réttindi, jafnvel þótt sum þeirra virðist skynsamari en önnur. Hins vegar kann að vera, að við höfum ýmsar skyldur við þau. En þær skyldur eru ekki samar og jafnar við alla. Til dæmis höfum við aðrar skyldur við apa, sem eru næstir okkur í dýraríkinu, en mýflugur. En ekki þarf neina heimspekinga til að segja okkur, að þörf sé á dýravernd.
Ég varpaði fram nokkrum spurningum á málstofunni. Þegar rætt var um skyldur okkar við komandi kynslóðir, spurði ég eins og gamli maðurinn í Flóanum: Hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur? Með því segi ég ekki, að fólk eigi ekki einhverjar skyldur við komandi kynslóðir, heldur að ríkið og sérfræðingar þess geta trauðla gert grein fyrir þeim eða framfylgt þeim. Við rækjum slíkar skyldur með eignarréttinum, fjölskyldunni og þeirri samheldni eða samkennd, sem sprettur af sögu okkar og arfi. Þegar rætt var um dýr í útrýmingarhættu, spurði ég, hver bera skyldi kostnaðinn af friðun þeirra. Tökum til dæmis íslenska örninn, sem leggst á æðarvarp og bakar með því æðarbændum mikið tjón. Hann er friðaður. Hver á að bera kostnaðinn? Þeir, sem vilja friða örninn? Bændurnir? Almenningur (ríkissjóður)? Sjálfur komst ég raunar að þeirri niðurstöðu, að örninn væri svo mikilvægur í náttúru Íslands, að eðlilegt væri, að almenningur bæri kostnaðinn af friðun hans, enda er mælt fyrir um hana í lögum.
Rætt var um ýmis sjaldgæf dýr. Ég velti því fyrir mér, hvers vegna allir vildu friða stór dýr eins og fíla og hvali, en ekki lítil dýr og jafnvel örsmá. Lynn Scarlett, fyrrverandi aðstoðarinnanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var á málstofunni, sagði í gamni, að í Washington-borg væri sérstakt orð notað um þetta fyrirbæri, charismatic megafauna, geðþekkir risar úr dýraríkinu. Fátt var hins vegar um svör í málstofunni, þegar ég benti á, að hvalategundir á Íslandsmiðum eru ekki í útrýmingarhættu og að bann við því að veiða þá hefur valdið offjölgun þeirra, svo að þeir taka fæðu frá öðrum tegundum, þar á meðal manninum sjálfum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook
9.12.2009 | 05:15
Ná lög ekki yfir Egil Helgason?
Ríkisútvarpið er um það ólíkt venjulegum fjölmiðlum eins og Morgunblaðinu og Stöð tvö, að við getum ekki sagt því upp. Það er í eigu almennings og á að þjóna almenningi. Þess vegna eru lagaskyldur þess ríkari en annarra fjölmiðla. Því ber til dæmis að lögum að gæta óhlutdrægni í frásögnum og umræðum um menn og málefni. Það merkir vitaskuld ekki, að skoðanir megi ekki koma fram, heldur hitt, að ekki sé reynt að þagga niður skoðanir, sem hljóta að þykja gjaldgengar. Það er þess vegna hneyksli, að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins skuli hafa valið Egil Helgason til að stjórna öllum opinberum umræðum í landinu um stjórnmál og bókmenntir. Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni og samherjum hans. Hann eys fúkyrðum yfir þá í hverri viku á bloggsíðu sinni á Eyjunni. Sjónarmið þeirra fá ekki að komast að í þáttum hans (þótt þriðjungur þjóðarinnar telji samkvæmt skoðanakönnunum, að Davíð sé best til þess fallinn að leiða þjóðina út úr núverandi þrengingum).
Í Sífri Egils eru jafnan fjórir vinstrimenn fyrir einn hægrimann, og hann er iðulega einhver óánægður utanveltumaður, sem tekur undir með kórnum í stað þess að andmæla honum. Ég hef ekkert á móti því, að Egill hafi sinn þátt. En forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins ber lögum samkvæmt að gæta mótvægis. Þessi fjölmiðill á að vera margradda, ekki eintóna. Egill er í fullu starfi fyrir Ríkisútvarpið og segist aðeins vera með um 750 þúsund krónur á mánuði fyrir það (eftir skatt?). Ég hef áður rifjað hér upp, að haustið 2005 áminntu forsvarsmenn Ríkisútvarpsins Sigmund Sigurgeirsson, starfsmann fréttastofunnar, vegna ummæla hans á bloggi sínu um Baugsmálið.
Ekki er heldur úr vegi að minnast hér á reglur Ríkisútvarpsins breska, BBC, um blogg starfsmanna. Þar segir, að starfsmenn skuli sýna öðrum nærgætni á bloggum sínum. Þeir skuli bera undir yfirmenn sína allt það, sem vakið geti efasemdir um óhlutdrægni þeirra og orðheldni. Sé þeim boðin greiðsla fyrir að blogga, þá skuli þeir ræða við yfirmenn sína, áður en þeir taki slíku boði, enda geti þar orðið hagsmunaárekstur. Sjálfur þiggur Egill 200 þúsund krónur á mánuði fyrir að blogga á Eyjunni. Bar hann það undir yfirmenn sína? Eða gerir Ríkisútvarpið íslenska vægari siðferðiskröfur en hið breska?
9.12.2009 | 05:03
Vindur og andi
Ólíkt er þeim farið, starfsbræðrunum, rithöfundunum Guðmundi Andra Thorssyni og Einari Má Guðmundssyni. Guðmundur Andri var blygðunarlaus Baugspenni. Þegar Davíð Oddsson lagði fram fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004, skrifaði Guðmundur Andri í Fréttablaðið 26. apríl: Hefði Baugur ekki tekið að fjárfesta á þessum markaði þá væru fjölmiðlar á Íslandi færri og einsleitari, hvort sem litið er á fréttaflutning, stuðning við pólitísk öfl eða almennt yfirbragð. Eins og sérhver neytandi getur vitnað um þá hefur fjölbreytnin aukist og er það vandamál? Beinteinn á Króknum hefði ekki getað orðað það betur í lofgrein um Bogesen gamla á Óseyri við Axlarfjörð. Og Guðmundur Andri skrifaði um Baugsmenn í Fréttablaðið 17. maí 2004: Það er ekki boðlegt að þeir skuli sæta ofsóknum mánuðum og jafnvel árum saman af hendi forsætisráðherra fyrir einhverjar sakir sem enginn fær botn í. Eftir hrunið hefur Guðmundur reynt að skrifa sig frá Baugsþjónkun sinni, en með litlum árangri. Beinteinn á Króknum skrifaði líka illa um Bogesen, þegar sá gállinn var á honum.
Einar Már lét hins vegar engan kaupa sig. Ég er á öndverðum meiði við hann um margt, en tvennt getur enginn tekið af honum. Hann er ekki falur, og hann er manna pennafærastur, eins og nýleg Hvítbók hans sýnir. Guðmundur Andri er vindur. Einar Már er andi. Guðmundur Andri er útblásinn. Einar Már er innblásinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:11 | Slóð | Facebook
9.12.2009 | 05:01
„Fagleg sjónarmið“
Eftir bankahrunið hættu margir að treysta þeim, sem áður höfðu gefið tóninn, talað af myndugleika, farið með kennivald. Þeir sneru sér að ýmsum háskólamönnum, sem áður höfðu grúft sig yfir rykfallnar skræður og tautað fyrir munni sér talnarunur, enda virtust þeir svo utanveltu, að þeir væru saklausir af hruninu. Töfraorðið var skyndilega ekki lengur Sesam, Sesam, opnist þú, heldur fagleg sjónarmið. Óspart var til dæmis hneykslast á því, að maður, sem ekki hefði háskólapróf í hagfræði, hefði orðið aðalbankastjóri Seðlabankans íslenska. Erlendir sérfræðingar, sem sjálfir voru með háskólapróf í hagfræði og áttu því vitaskuld engra hagsmuna að gæta, tóku kröftuglega undir þetta. Sagan er þó ólygnust. Hvernig reiðir stofnunum af undir stjórn hagfræðinga í samanburði við aðra? Skoðum prófskírteini þeirra manna, sem verið hafa aðalbankastjórar Seðlabankans fyrir hrun. Bankinn var 1961 til 1993 undir stjórn manna með háskólapróf í hagfræði. Hann var 1994 til 2008 undir stjórn manna með háskólapróf í lögfræði (og fyrrverandi stjórnmálamanna). Helsti mælikvarðinn á frammistöðu Seðlabanka er jafnan talinn verðbólga. Því minni sem hún er, því betri er frammistaðan, og öfugt. Ég reiknaði út meðalverðbólgu þessi tvö tímabil (allar tölur eru til á vef hagstofunnar).
Undir stjórn hagfræðinganna 19611993 var meðalverðbólga 24,3%.
Undir stjórn lögfræðinganna 19942008 var meðalverðbólga 4,4%.
Auðvitað reka mennirnir með háskólapróf í hagfræði (sem eiga vitaskuld engra hagsmuna að gæta) upp ramakvein. Fleira skipti máli og skýri verðbólgu, segja þeir, en prófskírteini aðalbankastjóra Seðlabankans. Þá svara ég aðeins einu: Ég er sammála!
8.12.2009 | 15:03
Hvar er Guðni Elísson?
Fyrir nokkrum misserum lenti ég í ritdeilu við Guðna Elísson bókmenntafræðing. Ég taldi, að hættan af hlýnun jarðar af manna völdum væri orðum aukin. Vissulega hefði jörðin hlýnað síðustu hundrað árin, og eflaust mætti rekja eitthvað af því til losunar svokallaðra gróðurhúsaáhrifa. En margt annað ylli loftslagsbreytingum, svo sem virkni sólar og straumar hafsins (sem þekur sjö tíundu hluta jarðar). Skynsamlegra væri að laga sig að loftslagsbreytingum en reyna að breyta þeim. Það væri stórkostlegt ofmat á mætti mannsins, sem gæti ekki einu sinni spáð rétt fyrir um veðrið á morgun, að treysta honum til að stjórna loftslaginu.
Guðni Elísson svaraði hróðugur, að hann væri sérfræðingur í orðræðugreiningu. Síðan gerði hann allar þær rökvillur, sem ég var varaður við í heimspekinámi forðum. Ein var, að hann hlyti að hafa rétt fyrir sér, af því að allir málsmetandi menn væru sömu skoðunar og hann. Þetta er argumentum ad populum eða rökleiðsla eftir fjölda. Önnur var, að ég hlyti að hafa rangt fyrir mér, af því að ég væri málpípa ráðandi afla. Þetta er argumentum ad hominum circumstantial eða rökleiðsla eftir hagsmunum. En ekkert leiðir um gildi staðhæfinga minna af þessum athugasemdum. Og svo framvegis. Í raun og veru svaraði Guðni mér ekki, heldur stimplaði mig.
Nú hefur hinn hróðugi orðræðugreinandi hins vegar fengið verðugt verkefni. Nýlega var laumað í fjölmiðla tölvupósti starfsmanna rannsóknarstofnunar í loftslagsfræðum, Climatic Research Unit, við Háskólann í East Anglia. Af honum sést, að þessir menn lögðu á ráðin um ýmsar talnabrellur til að villa um fyrir almenningi. Þeir reyndu einnig að koma í veg fyrir, að þeir vísindamenn, sem væru ósammála þeim um hættuna af hlýnun jarðar, fengju ritgerðir sínar birtar í virtum vísindatímaritum. Í stuttu máli sagt reyndu þeir eins og þeir gátu að stjórna orðræðunni með ýmsum brellum og brögðum. Þetta virðist vera eitthvert mesta hneyksli í sögu vísindanna. Hvar er Guðni Elísson?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2009 kl. 00:14 | Slóð | Facebook
8.12.2009 | 14:57
Sífur Egils
Egill Helgason gleymir því, að hann starfar ekki á einkamiðli, sem getur hegðað sér að geðþótta. Hann starfar á Ríkisútvarpinu, sem við getum ekki sagt upp ólíkt Morgunblaðinu og Stöð tvö, enda hvílir á því lagaskylda um óhlutdrægni. Á þessum ríkismiðli er hann umræðustjóri, ekki aðeins um stjórnmál, heldur líka bókmenntir. Með þessu hefur hann öðlast mikið vald. En alkunna er, að valdið spillir. Egill tekur því illa, ef menn lúta ekki óskoruðu dagskrárvaldi hans. Þegar ég svaraði eitt sinn á bloggi mínu fullum hálsi daglegum árásum DV á mig og dirfðist að setja bloggið á Facebook-síðu mína, skrifaði Egill ótilkvaddur inn á síðuna, að ég ætti ásamt eiganda DV (Jóni Ásgeiri Jóhannessyni) að hverfa út í hafsauga! Þetta skrifaði maðurinn, sem stjórnar umræðunni á Íslandi! Nægði honum ekki að stjórna tveimur sjónvarpsþáttum á viku í ríkismiðlinum?
Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni og samherjum hans. Þegar Davíð var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði hann á heimasíðu sína 24. september 2009:
Comon, ætli maður sé ekki frekar með æluna upp í kok. Klíkan í kringum Davíð með annað dagblaðið. Og Jón Ásgeir og hans lið með hitt. Ojbjakk.
Þegar Björn Bjarnason fann að hatursbloggi Egils á Netinu, ruku yfirmenn Ríkisútvarpsins upp Agli til varnar. Þeir höfðu gleymt því, hvernig þeir brugðust við tiltölulega meinlausu bloggi Sigmundar Sigurgeirssonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Suðurlandi, um Baugsmálið haustið 2005. Þá fékk Sigmundur áminningarbréf frá lögfræðingi Ríkisútvarpsins, og Óðinn Jónsson fréttastjóri tilkynnti, að hann hefði með skrifum sínum sýnt slíkt dómgreindarleysi að við treystum honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu.
Egill hefur með níðskrifum sínum á Netinu sýnt fullkomið dómgreindarleysi. Ég er sjálfur andvígur því að þagga niður skoðanir hans. Ég óska honum ekki út í hafsauga eins og hann mér. En hvernig hyggjast yfirmenn Ríkisútvarpsins tryggja, að fleiri skoðanir komist þar að en þær, sem Egill Helgason leggur blessun sína yfir?