Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Athugasemd við útvarpspistil

Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Spegils Ríkisútvarpsins (Hljóðviljans) í Lundúnum, var sæmd titlinum „fréttamaður ársins 2009“ um áramótin. Pistlar hennar eru vel samdir og vel unnir. En því miður verð ég að gera efnislega athugasemd við síðasta pistil hennar, sem heitir „Hrunasagan í stuttu máli“. Sigrún segir: „Rannsóknir Stefáns Ólafssonar sýna stóraukinn tekjumismun á undanförnum árum.“ Það er rétt, að Ríkisútvarpið hefur haldið þessu fram síðustu árin, og hefur Gísli Freyr Valdórsson gert því góð skil í greininni „Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um ójöfnuð“, sem birtist í 4. hefti 3. árg. tímaritsins Þjóðmála, 35.–42. bls.

stefanolmynd_403847_948337.jpgSannleikur málsins er hins vegar annar. Stefán Ólafsson skrifaði nokkrar greinar í blöð í árslok 2006 og á útmánuðum 2007, þar sem hann hélt því fram, að tekjuskipting á Íslandi væri orðin miklu ójafnari en á Norðurlöndum. Hún væri orðin svipuð og jafnvel ójafnari en á Bretlandi og Írlandi. Bar hann fyrir sig Gini-stuðla fyrir árið 2004, sem embætti ríkisskattstjóra hefði reiknað út fyrir sig, en þeir eru algengur fræðilegur mælikvarði á ójafna tekjuskiptingu.

Þegar grennslast var fyrir um málið, hafði embætti ríkisskattstjóra ekki reiknað neina slíka stuðla út fyrir Stefán Ólafsson. Enginn þar kannaðist við málið. Einnig birtist 1. febrúar 2007 ný og rækileg könnun hagstofu Evrópusambandsins um fátækt og útskúfun í Evrópulöndum, og hafði hagstofa Íslands lagt til íslensku gögnin. Þar kom fram, að tekjuskipting á Íslandi var 2004 mjög svipuð því, sem gerðist annars staðar á Norðurlöndum.

Í ljós kom, að Stefán (eða sá, sem hafði reiknað út fyrir hann Gini-stuðla) hafði borið saman ósambærilegar tölur frá Íslandi annars vegar og öðrum Evrópulöndum hins vegar. Í tölunni um Ísland hafði verið reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum, en í tölunum um önnur lönd ekki. Þetta skekkti samanburðinn, svo að tekjuskiptingin virtist miklu ójafnari á Íslandi 2004 en annars staðar í Evrópu án þess að vera það. Hagstofa Evrópusambandsins hafði hins vegar notað sambærilegar og staðlaðar tölur. Undir venjulegum kringumstæðum hefði þetta verið talið hneyksli í vísindaheiminum íslenska. En Ríkisútvarpið sinnti þessu í engu, heldur hélt ótrautt áfram að flytja áróður Stefáns og lagsbræðra hans. Því miður hefur Sigrún Davíðsdóttir því látið blekkjast, eins og margir aðrir.

Hitt er annað mál, að sennilega hefur tekjuskipting á Íslandi orðið talsvert ójafnari eftir 2004. Þá fór margt úrskeiðis, og hinum stórkostlegu umbótum áranna 1991–2004 var spillt. Jafnvægið raskaðist, og auðjöfrarnir náðu með fulltingi forsetans, fjölmiðlanna, dómstólanna og Samfylkingarinnar (og vissulega sumra sjálfstæðis- og framsóknarmanna) völdum á Íslandi.


Nýársheit mín

Ég veit ekki, hvort aðrir hafa á því áhuga, en ég setti mér þrjú nýársheit fyrir árið 2010 og reyndi að hafa þau skýr og framkvæmanleg:
  • Að ljúka alls konar smáverkefnum, sem hafa hlaðist upp, og hreinsa til á borðinu hjá mér. Menn eru miklu duglegri við að hefja hvern leik en ljúka honum. Ég þarf að lesa prófarkir af tveimur ritum eftir mig og skila nokkrum ritgerðum í tímarit og bækur, m. a. um Björn Ólafsson ráðherra, Jean-Jacques Rousseau og Herbert Spencer, sem hafa lengi verið í vinnslu hjá mér.
  • Að eyða ekki um efni fram. Ég er eins og aðrir Íslendingar: Ég hef trúað því, að „allt myndi reddast“. Ég gæti eytt að vild og síðan aflað fjár upp í eyðsluna. Sá tími er liðinn í sögu einstaklings og þjóðar.
  • Að ná af mér nokkrum aukakílóum. Það er engin töfralausn til á þeim vanda, en margföld reynsla af því, að meiri hreyfing og minna af mat skila árangri. Ef í hart fer, þá má líka minnka drykkjuna, þótt margsannað sé að vísu, að rauðvín er hollt, sérstaklega fyrir hjarta og æðar.

Enn einn skrípaleikur Ólafs Ragnars

olafurutras.jpgEnn einn skrípaleikurinn, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson er höfundur og aðalleikari, er hafinn: Forsetinn tekur sér umhugsunarfrest, áður en hann staðfestir lögin um Icesave-samningana. Hann þurfi að hlusta á talsmenn annarra sjónarmiða, þar á meðal þá, sem safnað hafa tugþúsundum undirskrifta með áskorunum á hann um að synja lögunum staðfestingar.

Auðvitað er erfitt fyrir Ólaf Ragnar efnislega að staðfesta lögin um Icesave-samningana, þegar tvennt er haft í huga. Í fyrsta lagi synjaði hann sumarið 2004 fjölmiðlalögunum, sem áttu að tryggja dreifða eignaraðild að fjölmiðlum, staðfestingar með tilvísun til þess, að „gjá“ hefði myndast milli þings og þjóðar. Nú er gjáin miklu breiðari, eins og allir geta verið sammála um.

Í öðru lagi staðfesti hann sumarið 2009 fyrri útgáfu laganna um Icesave-samningana með sérstakri tilvísun til þeirra fyrirvara, sem Alþingi hafði samþykkt við samningana, en þeir fyrirvarar hafa að kröfu Breta og Hollendinga verið felldir út aftur.

En Ólafur Ragnar mun staðfesta lögin. Hann mun reyna að halda því fram, að annað gildi um milliríkjasamninga en venjuleg lög. Hendur forseta séu bundnari um slíka samninga.

Þá skiptir engu máli, að forseti Ungverjalands, Lázsló Sólyom, neitaði 2006 að staðfesta lög um samning milli Ungverjalands og Bandaríkjanna um afnám vegabréfsáritunar, þar eð forsetinn taldi ákvæði í þeim samningi brjóta gegn friðhelgi einkalífs.

Þá skiptir ekki heldur neinu máli, að forseti Tékklands, Vacláv Klaus, neitaði 2001 að staðfesta lög um samning milli Tékklands og annarra Evrópuríkja um sameiginlegar handtökuheimildir, þar sem forsetinn taldi ákvæði í þeim samningi brjóta gegn fullveldi landsins.

Því síður skiptir Ólaf Ragnar máli, að víða í Evrópu er talið, að forsetar geti synjað lögum um milliríkjasamninga staðfestingar, en í tveimur ríkjum, Portúgal og Kýpur, geta þeir líka ógilt slíka samninga óháð því, hvort sérstaka lagasetningu hafi þurft um þá.


Óviðunandi vinnubrögð

ossur_skarphedinsson.jpgIcesave-málið er ekkert smámál. Þetta er einhver mesta skuldbinding, sem Íslendingar hafa tekið á sig. Þess vegna er sorglegt að sjá, hversu flausturslega málið hefur verið unnið og afgreitt. Farið hefur verið á svig við ráðleggingar bestu lögfræðinga okkar og látið undan Bretum í flestu eða öllu.

  • Hvers vegna eigum við Íslendingar að greiða skuldir, sem einkaaðilar hafa stofnað til?
  • Hvar stendur í samningum og lögum, að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir því, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ræður ekki við að greiða?
  • Væri ríkissjóður ábyrgur fyrir því að lögum, hvers vegna þarf þá að semja sérstaklega um það og setja í lög?
  • Hvers vegna var Bretum ekki sendur reikningur fyrir því tjóni, sem þeir ollu íslensku bönkunum með því að neita Singer&Friedlander einum breskra banka á því tímabili um aðstoð og með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök?
  • Hvers vegna hefur ekki mátt reyna á þessar feikimikilvægu skuldbindingar fyrir dómstólum?
  • Úr því að samið var, hvers vegna var þá ekki samið um sömu vexti og Bretar og Hollendingar taka sjálfir á lánum sínum til innstæðusjóða sinna?
  • Hvers vegna hafa ráðherrar margsinnis orðið uppvísir að ósannindum um málið, til dæmis um hlut Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að því?

Nú síðast bætast við deilur um álit breskrar lögmannsstofu, sem utanríkisráðherra segist ekki einu sinni hafa séð. En getum við treyst sannsögli Össurar Skarphéðinssonar? Muna ekki allir, þegar hann sagðist á fundi í Háskólabíói 26. maí 1986 ætla að senda alla óþæga embættismenn „í öskuna“ eða reka þá, en þrætti síðan fyrir þetta í sjónvarpsumræðum 30. maí, þótt vottfest væri og tekið upp?


Skáldin gegn Bretum

Fautaskapur Breta í garð Íslendinga í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu verður lengi í minnum hafður. Þeir felldu breskan banka í eigu Kaupþings og settu Landsbankann á skrá yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana! Eftir þær tilefnislausu aðgerðir voru allar björgunaraðgerðir vonlausar. Síðan hafa þeir krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur beri það tjón, sem þeir ollu sjálfir að miklu leyti með aðgerðum sínum. Vinstristjórnin íslenska hefur látið undan þeim.

Þótt ýmislegt megi gott segja um breska heimsveldið á liðnum öldum, lék það smáþjóðir iðulega grátt. Við Íslendingar vorum til dæmis heppnir að hafa ekki sömu nýlenduherra og Írar, sem Bretar kúguðu löngum, jafnvel svo harkalega, að í því frjósama landi skall á hungursneyð um miðja nítjándu öld. Bretar hefðu umsvifalaust fangelsað eða skotið Jón Sigurðsson. Danir settu hann á laun við að sýsla um fornrit.

stephan_g_stephansson_301008.jpgÞegar gull fannst í lok nítjándu aldar í Transvaal, en þangað höfðu hollenskumælandi íbúar Suður-Afríku hrakist undan Bretum, réðust Bretar þangað norður og lögðu landið undir sig, en Stephan G. Stephansson orti:

Og sneypstu, hættu að hæla þér,
af herfrægð þinni, blóði og merg,
því bleyðiverk það kallar hver,
þótt kúgi jötunn lítinn dverg.

Í Búastríðinu voru fyrst stofnaðar fangabúðir (concentration camps) í nútímamerkingu.

steinn_steinarr.jpgÞegar Bretar hernámu Ísland vorið 1940, voru flestir Íslendingar að vísu fegnir, að þeir voru ekki Þjóðverjar, sem gengið hefðu miklu harðar fram, en hernámið var engu að síður brot á fullveldi Íslands. Steinn Steinarr orti:

Og jafnvel þótt á heimsins ystu nöf
þú næðir þrælataki á heimskum lýð,
það var til einskis, veldur stuttri töf.
Það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð.

Ekki má heldur gleyma því, þegar Bretar réðust inn í Egyptaland 1956, af því að leiðtogi þess lands hafði leyft sér að taka í eigin hendur Súez-skurðinn, þótt Bandaríkjamenn stöðvuðu brátt það gönuhlaup Breta.

Nú beita Bretar því afli gegn Íslendingum, sem þeir þora ekki að nota gegn öðrum stærri þjóðum, og því miður eru engir Bandaríkjamenn lengur til að halda aftur af þeim eins og í þorskastríðunum, þegar Bretar sendu hvað eftir annað herskip á Íslandsmið. Eins og í viðureigninni við Harald blátönn forðum eiga Íslendingar fá vopn önnur en kveðskapinn.


Raddir skáldanna

Þótt íslensk skáld geti verið mistæk í afstöðu sinni til einstakra mála, eins og andstaða margra þeirra við hið farsæla varnarsamstarf við Bandaríkin 1941–2006 sýndi, komast þau oft vel að orði og flytja okkur sannleik ofar stað og stund, enda skilur þar milli góðskálda og dauðlegra manna. Andskotinn á ekki einn að bjóða upp á bestu lögin, eins og sagt hefur verið.

Mér finnst sumt það, sem íslensk skáld ortu á tuttugustu öld, eiga vel við um óheillasamninginn, sem Steingrímur J. Sigfússon berst nú fyrir um Icesave-reikningana í Bretlandi og Hollandi, til dæmis þessi orð Jóns Helgasonar prófessors vorið 1951:

Sú þjóð, sem dottar dáðlaus, viljasljó,
og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja.

Samningamennirnir íslensku, sem virðast hafa verið fullkomnir viðvaningar og haldið eins illa á málstað Íslendinga og hugsast getur, hefðu líka mátt lesa orð Halldórs Kiljans Laxness úr Íslandsklukkunni:

„Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíð­skap­­aryfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hall­­kvæmur og lini afl óvinar þess.“


Rányrkja og nýlendukúgun

egillhelgason.jpgÞað er vandlifað í þeim heimi, sem umræðustjóri Ríkisútvarpsins hefur skapað sér. Ég leyfði mér fyrir nokkru að svara á bloggi mínu fullum hálsi árásum Baugsmiðla á mig, og þá skrifaði Egill Helgason ótilkvaddur inn á Facebook-síðu mína, að ég skyldi halda út á hafsauga ásamt Baugsmönnum. Á dögunum skrapp ég í kvikmyndahús til að sjá stórmyndina Avatar, bloggaði síðan um hana og lét í ljós efasemdir um boðskapinn, sem virðist beinast að vestrænni tækni. Þá sakar Egill mig um að mæla bót rányrkju og nýlendukúgun! Eða svo að gullaldaríslenska hans sé notuð: Ég haldi „með vondu köllunum“.

Auðvitað er ég andvígur hvoru tveggja, rányrkju og nýlendukúgun. En ráðið gegn rányrkju er ekki að prédika gegn henni, eins og Egill Helgason virðist trúa, heldur að gera þá, sem nýta náttúruauðlindir, ábyrga fyrir þeim með því að veita þeim einkaafnotarétt eða eignarrétt að þessum auðlindum. Þá hafa þeir ekki hag af rányrkju. Þetta hefur tekist mætavel með íslenska kvótakerfinu í sjávarútvegi, eins og Ragnar Árnason prófessor hefur leitt manna best í ljós. Annar íslenskur prófessor, Þráinn Eggertsson, hefur skrifað snjalla grein um, hvernig fornmenn reyndu að takmarka ofbeit á fjöllum (rányrkju) með svokallaðri ítölu. Hvergi var hins vegar stunduð meiri rányrkja en í ríkjum sameignarmanna á síðari hluta tuttugustu aldar. Þar hafði enginn hag af skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda, af því að enginn átti þær.

ferguson_niall_948096.jpgEnginn mælir heldur bót nýlendukúgun. En sennilega bitnaði hún oft á kúgurunum ekki síður en hinum kúguðu. Sú staðreynd er til dæmis merkileg, að ríkustu lönd heims, Sviss, Lúxemborg, Noregur og Bandaríkin, áttu ekki nýlendur, að heitið gat, og að þau nýlenduveldi, sem héldu lengst í nýlendur sínar, Portúgal og Ráðstjórnarríkin, eru tiltölulega fátæk lönd. Raunar hefur ekki komið út magnaðri bók um nýlendukúgun síðustu misseri en Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi, og hefur sums staðar verið  undarlega hljótt um hana. Önnur staðreynd er ekki síður merkileg, sem skoski sagnfræðingurinn Niall Ferguson hefur bent á, að sumum löndum varð það til góðs að vera undir nýlendustjórn. Hong Kong-búar vildu til dæmis ólmir vera áfram undir stjórn Breta frekar en sameinast Kínverjum.

Því er við að bæta, af því að jólin eru nýliðin og allir vonandi enn í kristilegu skapi, að sumir réttlæta þróunaraðstoð með orðum Jóhannesar skírara: „Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á.“ (Lúk. 3, 11.) En ég tel, að aðeins megi réttlæta neyðaraðstoð með þessum orðum, ekki venjulega þróunaraðstoð. Það skiptir máli, hvers vegna maður á engan kyrtil. Ef harðstjórinn í landi mannsins (sem oft leysti nýlenduherrana af hólmi) hrifsar jafnóðum af honum þá kyrtla, sem hann saumar sér, þá stoðar lítt að gefa honum nýjan kyrtil. Ef maðurinn nennir sjálfur ekki að sauma sér kyrtil, þá á hann ekki að fá hann að gjöf. Frjálshyggjumenn hafa mestan áhuga á því, að saumastofur séu í fullum gangi, svo að engan vanti kyrtil. En til þess þarf að borga sig að sauma kyrtla.


Avatar

avatar-1_946131.jpgÉg skrapp á dögunum í kvikmyndahús til að sjá stórmyndina Avatar eftir James Cameron. Auðvitað er handritið þaulhugsað, myndin stórvel gerð tæknilega og alls ekki leiðinleg, þótt löng sé. En mér líst ekki alls kostar á boðskapinn. Á reikistjörnunni Pandóru býr eins konar tegund manna, Na’vi, sem er fær um að tala og líkist mönnum um margt annað, en er ekki langt komin tæknilega. Mennirnir ryðjast þangað, því að Na’vi-þjóðin lumar á verðmætum málmum. Henni tekst þó með hjálp bandarísks hermanns að hrinda þeim af höndum sér.

Na’vi-fólkið er blátt á hörund, grannvaxið og lifir hamingjusamt í sátt við náttúruna. Þar minnir um sumt á indjána í tveimur öðrum myndum úr draumasmiðjunni bandarísku, Dansað við úlfa og Pocahontas. Ég sé ekki betur en þetta sé goðsögnin um göfugu villimennina, sem Jean-Jacques Rousseau gerði fræga, í enn einni útgáfu. Þeir villimenn hafa aldrei verið til. Frumstæðir ættbálkar manna hafa jafnan lifað við sult og seyru, grimmd og dráp og flestir gengið illa um umhverfi sitt, stundað rányrkju í stað ræktunar.

Í myndinni er tæknin sýnd sem óvinur náttúrunnar, eyðingarafl. Þetta er líka boðuð einhver óljós algyðistrú, þar sem náttúran er komin í stað Guðs. Gyðjan Eywa er samnefnari alls lífs. En „Náttúran rauð um kjaft og kló“, sem Tennyson orti um, er ekki góður guð eða miskunnsamur. Þar berjast tegundirnar hver við aðra um að halda velli. Hvalir veiða fisk frá mönnum. Fílar troða niður akra og hús bænda í Afríku. Ljón elta uppi önnur dýr og rífa þau í sig, á meðan hrægammar sveima yfir. Mýflugur og rottur bera sýkla milli manna og dýra og valda þannig dauða þeirra. Þar eru margvísleg önnur eyðingaröfl að verki. Þurrkar og flóð skiptast á. Beljandi stórfljót varna mönnum og dýrum ferða.

Samkvæmt hinum gyðinglega og kristilega arfi eiga mennirnir að fara eftir boðorðinu í fyrstu bók Móse: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ Þetta merkir, að ná ber tökum á þurrkum og flóðum með áveitum og stíflum og brúa stórfljót eða virkja, halda með hæfilegum veiðum í skefjum hvölum, fílum og ljónum og eyða meindýrum. Tæknin er ekki eyðingarafl, heldur von okkar og haldreipi. Og það var einmitt með nýjustu tækni, sem James Cameron gat gert þessa stórmynd sína gegn tækninni.


Miskunnsami Samverjinn

samverjinn.jpgÉg sat fyrir skömmu fróðlega ráðstefnu um umhverfissiðfræði í Tucson, Arizona, eins og ég hef áður minnst hér á. Þar var meðal annars rætt um þær skyldur, sem við ættum við náunga okkar. Ég rakti þar úrlestur minn úr dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, sem ég hef stundum minnst á hérlendis opinberlega. Einum ráðstefnugesta, kaþólskum hagfræðingi, fannst hann svo merkilegur, að hann fékk leyfi mitt til að rekja hann í bloggi sínu. Dæmisagan er sem kunnugt er í Lúkasarguðspjalli, 10, 30–37: Maður fór frá Jerúsalem til Jeríkó og féll í hendur ræningjum, sem flettu hann klæðum, börðu og skildu eftir dauðvona. Fyrst gekk fram hjá prestur og síðan levíti, og báðir tóku þeir sveig fram hjá honum. Þá kom Samverji að, batt um sár hans, keypti honum gistingu, fæði og klæði og lét sér annt um hann.

Ég les fimm atriði úr þessari sögu:

  • Hætta er af ræningjum og það víðar en á leiðinni frá Jerúsalem til Jeríkó. Við þurftum traust, en takmarkað ríkisvald, eins og John Locke, Adam Smith og aðrir frjálshyggjumenn gerðu ráð fyrir, sem verndi okkur gegn ræningjunum og standi vörð um eignarréttinn.
  • Menntamenn eins og presturinn og levítinn eru oft frekar orða frekar en athafna. Þeir eru hrokagikkir, sem elska mannkynið, en ekki mennina, og taka sveig fram hjá þeim, sem eiga bágt. Margt má lesa um slíka menntamenn í Svartbók kommúnismans, sem ég sneri á íslensku á árinu.
  • Samverjinn var aflögufær. Það er öllum í hag, að til sé stétt efnafólks, sem geti ekki aðeins aðstoðað nauðstadda, þegar því er að skipta, heldur líka veitt ríkinu æskilegt mótvægi.
  • Samverjinn gerði góðverk sitt á eigin kostnað, en ekki annarra. Þegar hlustað er á vinstrimenn, eru oftast engin takmörk fyrir manngæsku þeirra, en hún er jafnan á kostnað annarra en þeirra sjálfra. Ellefta boðorðið ætti því að vera: „Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra.“
  • Nauðstaddi maðurinn var ekki betlari, heldur hafði hann ratað í vandræði. Þótt ýmis rök séu fyrir því að gefa ekki betlurum (enda á frekar að ráðast á kerfisbundnar orsakir betls en auðvelda það), gilda þau ekki um fólk í bráðum háska, sem auðvitað á að hjálpa, eins og Kristur benti á.

Að svo mæltu óska ég öllum lesendum, ekki síður andstæðingum en samherjum, gleðilegra jóla!


Óþarfar skattahækkanir

Því betur sem ég hef skoðað skattamál, því sannfærðari hef ég orðið um, að langtímaafleiðingar af skattahækkunum eru miklu verri en skammtímaafleiðingarnar, þótt þær séu slæmar. Margar þessar langtímaafleiðingar blasa ekki við, en eru engu að síður raunverulegar. Ef bætt er við þrepi í tekjuskatt, þá munu allir til dæmis reyna að hagræða tekjum sínum, skipta þeim á milli sín og annarra í sömu fjölskyldu eða skipta þeim á milli tímabila, til þess að lenda ekki á skatthærra þrepinu. Þá minnkar líka verkaskipting í atvinnulífinu, því að það hættir að borga sig að vinna lengur sjálfur (og lenda á skatthærra þrepinu) og ráða aðra til að veita margvíslega þjónustu. Þá verður áhætta kostnaðarsamari en áður, því að takist fjárfesting, lendir afrakstur hennar á skatthærra þrepinu, en mistakist hún, lendir hann á skattlægra þrepinu. Og svo framvegis. Hækkun fjármagnstekjuskatts er einnig óheppileg, því að með henni er refsað fyrir sparsemi. Fjármagnstekjur myndast af því fé, sem menn hafa lagt til hliðar í stað þess að eyða. Þær eru tekjur af húsaleigu, hlutabréfasölu, arði og vöxtum. Með hækkun fjármagnstekjuskatt hefur eyðsluklóin sigrað búmanninn.

Hið sorglega er, að þessar skattahækkanir eru allar óþarfar. Sömu mennirnir og mæla nú fyrir þeim (Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson), mæltu fyrir slíkum skattahækkunum í góðærinu forðum. Þeir eru ekki að reyna að fullnægja fjárþörf ríkissjóðs, heldur að neyða eigin hugmyndum um „réttláta“ tekjuskiptingu upp á aðra. Brúa hefði mátt bilið, sem skattahækkanirnar eiga að gera, með því að selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun. Ég tel mig hafa heimildir fyrir því, að lífeyrissjóðirnir hefðu verið fúsir til slíkra kaupa, og hefði verðið verið reitt fram í tveimur afborgunum á jafnmörgum árum, þá hefði það numið svipuðum upphæðum og afla á með skattahækkununum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband