Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Væntanleg bók eftir mig

kapa.jpgÁ næstunni kemur í búðir bók eftir mig undir heitinu „Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör“, og gefur Bókafélagið hana út. Þótt hún séu vissulega skrifuð í tilefni af hinni miklu stefnubreytingu á Íslandi við valdatöku vinstristjórnarinnar, er hún ekki beinlínis um áhrif einstakra skattahækkana stjórnarinnar, heldur frekar um almenn áhrif skattahækkana til langs tíma litið.

Ég byrja á því að reifa umræður fræðimanna um fátækt og spyr, í hvers konar hagkerfi menn geti helst brotist úr fátækt, enda er aðalatriðið ekki að auðvelda mönnum að halda áfram að vera fátækir (til dæmis með styrkjum), heldur að greiða þeim leiðina út úr fátækt.

Síðan ræði ég ýmis ágreiningsefni síðustu ára, þar á meðal þá fullyrðingu Stefáns Ólafssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, að árin 1991–2004 hafi Ísland vikið af hinni norrænu leið. Eitt dæmi þess hafi verið, að tekjuskipting hafi orðið ójafnari hér en annars staðar á Norðurlöndum, ekki síst vegna skattbreytinga.

Þá reyni ég að gefa nokkra mynd af áhrifum skattalækkananna frá 1991, sem eru afar athyglisverð. Skatttekjur ríkisins hækkuðu á ýmsum sviðum, þótt dregið væri úr skattheimtu, vegna þess að skattstofninn stækkaði. Eitt skýrasta dæmið eru tekjur af húsaleigu, en ég greini líka önnur dæmi.

Enn spyr ég, hvort auðlinda- og umhverfisskattar séu eins hagkvæmir og núverandi ríkisstjórn og nokkrir fræðimenn (þar á meðal Þorvaldur Gylfason og Jón Steinsson) vilja vera láta.

Loks reyni ég að meta í ljósi reynslunnar hin almennu áhrif skattahækkana vinstristjórnarinnar íslensku og set fram spá um þau.

Ég kynni bókina betur hér, þegar hún verður komin í bókabúðir.


Fellum samninginn

Auðvitað væri æskilegast að semja á ný um lausn Icesave-deilunnar og komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef hins vegar enga trú á því, að þrautreyndir samningamenn Breta og Hollendinga með fullt umboð frá ríkisstjórnum þeirra og Evrópusambandið að baki sér geri samning hagstæðari Íslendingum, nema þeir sannfærist um það, að Íslendingar vilji alls ekki þann samning, sem forsetinn synjaði staðfestingar á. Þangað til greidd verða um hann atkvæði, munu þeir auðvitað hafa í hótunum í því skyni að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Þess vegna er mikilvægt fyrir aðstöðu okkar í nýjum samningaviðræðum, að þjóðin felli Icesave-samninginn með sem mestum mun. Almenningsálitið í Evrópu er að snúast okkur í vil (að því marki, sem nokkur maður hefur áhuga á Íslandi), og laga- og stjórnmálarök okkar eru skýr: Ábyrgðin á innstæðum hvíldi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, ekki ríkissjóði; reglur Evrópusambandsins, hvernig sem þær eru skýrðar, voru aðeins settar til að afstýra hruni einstakra banka, ekki almennu bankahruni; ósanngjarnt er að neyða litla þjóð í fyrirsjáanlegt gjaldþrot vegna tjóns, sem hún olli ekki.

mynd_951160.jpgHannes Hafstein sagði í viðtali við Lögréttu 20. mars 1915: „Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur.“ Þetta verður vinstristjórnin að skilja. Hún á að einbeita sér að því að tala máli Íslands erlendis, ekki að tala máli Breta og Hollendinga hérlendis, enda eru þeir fullfærir um það sjálfir með aðstoð starfsmanna sinna og Evrópusambandsins, núverandi og fyrrverandi.

Auðvitað eiga Íslendingar að semja. Auðvitað eiga Íslendingar að standa við allar alþjóðlegar skuldbindingar sínar, að minnsta kosti eftir getu. En til þess að ná fram hagstæðari samningi verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni að senda viðsemjendum okkar skýr skilaboð.

 


Varað við óhóflegri bjartsýni

ad_404.jpgSífellt fleiri málsmetandi útlendingar taka nú undir þau sjónarmið, sem ég reifaði í grein minni í Wall Street Journal 7. janúar 2010, að Íslendingar beri að lögum enga greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninganna (sú skylda hvíli á herðum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta), að ósæmilegt sé að krefja þjóðina um greiðslur, sem geri hana í reynd gjaldþrota, og að taka verði tillit til þess, að um bankahrun var að ræða á Íslandi, en ekki aðeins þrot einhvers hluta þess, eins og reglur EES um innstæðutryggingar eru miðaðar við.

Þeirra á meðal eru dr. Michael Waebel, sérfræðingur í alþjóðalögum, í aðsendri grein í Financial Times 8. janúar, Bronwen Maddox, virtur breskur álitsgjafi og dálkahöfundur, í pistli í The Times 9. janúar og Ruth Sunderland, viðskiptaritstjóri á Guardian, í pistli 10. janúar.

Við Íslendingar verðum þó að átta okkur á, að þessi samúðarbylgja með okkur ræður ekki úrslitum, þótt kærkomin sé. Samningamenn Breta og Hollendinga eru gamalreyndir og kippa sér ekki upp við blaðaskrif. Þeir ganga eins langt og þeir geta og hafa áreiðanlega til þess óskorað umboð ríkisstjórna sinna. Auðvitað munu þeir fullyrða fyrir hina væntanlegu þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, að við eigum ekki kost á betri samningi. Samþykki Íslendingar ekki Icesamninginn, þá sé voðinn vís. Þeir munu fara að okkur með hótunum og blíðmælum á víxl.

Hitt er verra, að vinstristjórnin íslenska hefur ekki sýnt málstað Íslendinga mikinn áhuga. Þegar Eva Joly skrifaði í erlend blöð í ágúst Íslendingum til varnar, var því fálega tekið í forsætisráðuneytinu. Þegar Sigurður Kári Kristjánsson benti á, að fjármálaráðherra Hollands hefði viðurkennt í ræðu í mars 2009, að innstæðutryggingakerfi EES hefði ekki verið hugsað fyrir bankahrun, virtist það ekki hafa nein áhrif á samningamenn Íslendinga.

Eftir að forseti Íslands hafði synjað lögunum um Icesave-samninginn staðfestingar, brugðust ráðherrar vinstristjórnarinnar við með því að bergmála hér innanlands hótanir Breta og Hollendinga í garð Íslendinga, ekki með því að minna erlendis á málstað okkar og sjónarmið. Þetta er áhyggjuefni.


Heimildir erlendra blaðamanna

logo-london.pngÞví miður hafa sumir þeir Íslendingar, sem ræða við erlenda blaðamenn, meiri áhuga á að gera upp við innlenda andstæðinga en kynna málstað Íslendinga. Gott dæmi er stutt hugleiðing, sem Archie Bland, blaðamaður breska blaðsins Independent, birtir á heimasíðu þess 8. janúar. Þar segir hann furðulegt, að þeir, sem beri ábyrgð á bankahruninu íslenska, skuli enn hafa veruleg áhrif. Nefnir hann tvo til, Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, og mig. Kættist DV að vonum við, og Egill Helgason álitsgjafi (einn heimildarmaðurinn?) tók þetta líka flissandi upp.

Heimildarmenn Blands hafa líklega ekki sagt honum, að Davíð Oddsson varaði fyrstur manna við ofurvaldi auðjöfranna. Hann mótmælti ofurlaunum þeirra haustið 2003 með því að taka innstæðu sína út úr Kaupþingi. Hann reyndi með fjölmiðlafrumvarpinu sumarið 2004 að takmarka kost þeirra á að ráða allri skoðanamyndun í landinu, en kom því ekki fram fyrir andstöðu auðjöfranna, sem áttu áhrifamikla vini á Bessastöðum, í röðum stjórnmálamanna (Borgarnesræðumanna), á fjölmiðlum og jafnvel í dómstólum.

Hvar voru íslensku spekingarnir, sem nú keppast við að fræða útlenda blaðamenn, í þessum átökum frá hausti 2003 til jafnlengdar 2004 milli Davíðs og Golíats um Ísland? Hvar var til dæmis Andri Snær Magnason, sem talaði við Bland? Hann var einn aðalvinur auðjöfranna.

Eftir að Davíð varð seðlabankastjóri, varaði hann hvað eftir annað við hinum öra vexti bankanna, jafnt í einkasamtölum við forystumenn stjórnarflokkanna (Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur) og opinberlega. Má sérstaklega nefna ræðu hans á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. Hann gagnrýndi einnig síðar, á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember 2008, að einn aðili gæti safnað þúsund milljarða skuld í krafti ítaka sinna og áhrifa sinna (sem eru meðal annars á fjölmiðla).

Hvar voru íslensku spekingarnar, sem nú keppast við að fræða útlenda blaðamenn, þegar Davíð varaði við vexti bankanna árin 2006–2008? Hvar var til dæmis Andri Snær Magnason, sem talaði við Bland? Hann sat veislur auðjöfranna, vildi taka upp fjármálaþjónustu, en hverfa frá hefðbundnum atvinnuvegum Íslendinga. (Ég vildi gera hvort tveggja.)

Þeir, sem rætt hafa við Archie Bland, hafa ekki heldur hirt um að geta þess, að skörp skil urðu í stjórnmálum haustið 2004. Sú stefna, sem fylgt var fyrir þann tíma, bar mjög góðan árangur, eins og ég sýni fram á í væntanlegri bók. En eftir það komust linir stjórnmálamenn til valda, og valdajafnvægið í landinu raskaðist: Auðjöfrarnir, sem viðmælendur Archies Blands æmtu ekki né skræmtu yfir, urðu alráðir. Ef einhverjum innlendum aðilum er um bankahrunið að kenna, þá er það auðjöfrunum með Baugsfegða í broddi fylkingar og viðhlæjendum þeirra, þar á meðal eflaust ýmsum heimildarmönnum Blands.

Sjálfur átti ég á sínum tíma erfitt með að trúa viðvörunum Davíðs. Mér finnst hann um of við hugann við gamlar væringar sínar og Baugsfeðga. Nú sé ég, að allar viðvaranir hans voru á rökum reistar. Hann skynjaði hættuna á undan öðrum. Aðrir þjóðir höfðu undirmálslán. Við höfðum lán til undirmálsmanna eins og Baugsfeðga.

Hitt er annað mál, að Archie Bland viðurkennir, að sökin liggur ekki síst hjá Bretum, sem áttu snaran þátt í bankahruninu með fautalegum vinnubrögðum sínum.


Engin greiðsluskylda

economist_logo.jpgBreska tímaritið Economist bendir á það í nýjasta hefti, eins og Morgunblaðið greinir frá í dag, að enginn skýr lagabókstafur virðist vera fyrir greiðsluskyldu ríkja, ef bankar þeirra komast í þrot og geta ekki staðið skil á innstæðum. Greiðsluskyldan hvílir hvarvetna á sérstökum sjóðum, sem bankarnir greiða í og eiga að mynda eins konar samtryggingu bankanna.

Hitt er annað mál, að flest ríki sjá sér hag í því, að bankar komist ekki í þrot, svo að innstæðueigendur verði ekki hræddir og taki unnvörpum fé sitt út úr bönkum með þeim afleiðingum, að bankakerfið hrynji. Þess vegna hafa mörg ríki lýst yfir því, að þau ábyrgist innstæður í bönkum, jafnvel allar innstæður. Þetta er skiljanlegt og hugsanlega eðlilegt, en kemur ekki hinni þröngu lagaskyldu við.

Bretar og Hollendingar kusu að greiða út innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans í löndum þeirra. Það var þeirra mál. Hitt er umdeilanlegra, að þeir telja sig hafa endurkröfurétt á íslenska ríkið, en ekki aðeins á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en ljóst er, að sá sjóður getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, þótt hann hafi verið settur upp samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

screenshot_0608.jpgNú er því haldið fram, að það sé öfgaskoðun, að Íslendingar beri ekki greiðsluskyldu að lögum, heldur eigi reikningurinn fyrir aðgerðir Breta og Hollendinga að staðnæmast hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Eru lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, sem fært hafa skýr lagaleg rök að þessu, öfgamenn? Er tímaritið Economist, sem nú tekur undir þetta, öfgablað? Er vinstristjórnin öfgastjórn? Í 2. grein samningsins, sem hún gerði við Breta og Hollendinga, segir:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Eða er maðurinn, sem heldur þessu fram (Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV), ef til vill sjálfur öfgamaður, sem hefur hausavíxl á hugtökum?


Grein mín í Wall Street Journal

wall_street_journal_logo.gifEins og fram hefur komið í fjölmiðlum, birti ég grein í Wall Street Journal 7. janúar 2010, þar sem ég reyni að skýra andstöðu Íslendinga við samningana, sem vinstristjórnin gerði við Breta og Hollendinga um að endurgreiða þeim það fé, sem þeir hafa lagt út vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Ég minni á, að þetta voru nauðungarsamningar: Bretar notfærðu sér, að Lundúnir eru alþjóðleg fjármálamiðstöð, og stöðvuðu allt fjárstreymi um borgina til og frá Íslandi í upphafi lánsfjárkreppunnar í október 2008. Þeir og Hollendingar nýttu sér líka áhrif sín í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að fá sjóðinn til að setja það skilyrði fyrir lánveitingum til Íslands, að látið yrði undan kröfum Breta og Hollendinga, þótt sjóðurinn þræti raunar fyrir það.

Þá verður að hafa í huga, að Bretar áttu sjálfir ríkan þátt í hruni bankanna með því að setja Landsbankann (og um skeið Seðlabankann og fjármálaráðuneytið) á lista um hryðjuverkasamtök, jafnframt því sem þeir veittu banka Kaupþings í Bretlandi ekki aðstoð einum breskra banka. Eiga Íslendingar að bæta tjón, sem Bretar ollu?

Ég bendi á, að greiðslur samkvæmt samningunum eru langt umfram greiðslugetu Íslendinga. Jafnframt hefur ríkissjóður enga greiðsluskyldu samkvæmt lögum, eins og er raunar tekið fram í samningunum. Það er Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem ber greiðsluskylduna, og ef hann getur ekki staðið í skilum við innstæðueigendur við bankahrunið, þá er hvergi í lögum eða alþjóðasamningum kveðið á um neina greiðsluskyldu ríkissjóðs.

Einnig rifja ég upp orð Jean-Claude Trichet, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sem báðir hafa sagt opinberlega, að innstæðutryggingarkerfið evrópska eigi ekki við um hrun heils bankakerfis, heldur aðeins um greiðsluerfiðleika einstakra banka.

Að lokum furða ég mig á því í greininni, hversu lin íslenska vinstristjórnin hefur verið í öllum samningum við Breta og Hollendinga. Hún hefur haft meiri áhuga á að kynna Íslendingum sjónarmið þeirra en umheiminum sjónarmið Íslendinga. Ef til vill ræður áhugi Samfylkingarinnar á að komast í Evrópusambandið einhverju um þessi undarlegu vinnubrögð.


Ósigur og afglöp vinstristjórnarinnar

ossur_skarphedinsson_949367.jpgVinstristjórnin hefur lagt mikið undir í Icesave-málinu. Einn ráðherra Vinstri-grænna sagði af sér, af því að hann treysti sér ekki til að veita því brautargengi, og nokkrir þingmenn sama flokks laumuðust af vettvangi. Vinstristjórnin hélt þó sínu striki. Það er henni greypilegur ósigur eftir þessa erfiðu göngu, að málið skuli nú hafa stöðvast á skrifborði forsetans.

Við, sem erum málinu andvíg, hljótum að fagna því, að kjósendur skuli nú fá að kveða upp úr um skoðun sína á því. En viðbrögð vinstristjórnarinnar við synjun forsetans eru stóreinkennileg. Augu umheimsins beindust stutta stund að Íslandi. Í stað þess að nota tækifærið til að flytja vandaða kynningu á málstað Íslendinga endurómaði vinstristjórnin gömlu hótanirnar frá Bretum og Hollendingum um útskúfun og viðskiptabann.

Utanríkisráðherrann og forsætisráðherrann hefðu átt að vera óþreytandi við að vekja athygli erlendra ráðamanna og fjölmiðlamanna á staðreyndum málsins:

  • Það er fáránlegt og andstætt öllum eðlilegum venjum og reglum, að íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis.
  • Icesave-samningarnir eru langt umfram raunhæfa greiðslugetu Íslendinga. Byrðarnar af þeim eru svipaðar og lagðar voru með nauðungarsamningum á Þjóðverja í skaðabætur eftir fyrra stríð.
  • Íslendingar fóru eftir öllum reglum EES, þegar þeir settu upp Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Íslenska ríkið er ekki ábyrgð eftir neinum lagabókstaf fyrir því tjóni, sem sá sjóður getur hugsanlega ekki bætt innstæðueigendum.
  • Jean-Claude Trichet, bankastjóri Evrópska seðlabankans, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafa báðir viðurkennt opinberlega, að innstæðutryggingakerfi EES eigi aðeins við, þegar þurfi að forða einum banka eða nokkrum frá rekstrarstöðvun, ekki öllu bankakerfinu.
  • Bretar ollu með beitingu hryðjuverkalaga sinna miklu um það tjón, sem þeir heimta nú, að Íslendingar bæti. Eigur íslensku bankanna væru nú miklu meira virði, hefðu Bretar ekki farið fram með þessari óbilgirni. Þeir eiga að bera þetta tjón sjálfir.
  • Icesave-samningarnir voru nauðungarsamningar, og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kominn langt út fyrir lögmælt hlutverk sitt með því að gerast handrukkari fyrir Breta og Hollendinga.

En ef til vill er ekki unnt að ætlast til mikils, þegar forsætisráðherrann er mállaus mannafæla og utanríkisráðherrann tungulipur sprellikarl.


Lítt skýrður málstaður Íslendinga

Ég reyndist ekki sannspár um það, að Ólafur Ragnar Grímsson myndi staðfesta lögin um Icesave-samningana, þótt ef til vill hefðu eggjunarorð mín og nokkurra annarra áhrif á það, að hann synjaði þeim staðfestingar. Auðvitað hefði Ólafur Ragnar orðið sjálfum sér ósamkvæmur með því að skrifa undir lögin, þar eð „gjáin milli þings og þjóðar“ er miklu breiðari nú en sumarið 2004, auk þess sem hann staðfesti fyrri útgáfu laganna með sérstakri skírskotun til fyrirvara Alþingis, sem síðan voru felldir út að kröfu Breta og Hollendinga. Sennilega hefur metnaður forsetans ráðið mestu um ákvörðun hans. Hann vill ekki, að sín sé minnst fyrir það eitt að hafa verið „klappstýra útrásarinnar“. Hann nýtur þess líka að vera í sviðsljósinu.

Því ber þó að fagna, að lögin um Icesave-samningana voru í reynd stöðvuð (þótt þau taki gildi, mun fjármálaráðherra áreiðanlega ekki nota þá heimild, sem honum var veitt samkvæmt þeim). Þetta voru nauðungarsamningar, þar sem ekkert tillit var tekið til sjónarmiða og hagsmuna Íslendinga. Það er fráleitt, að íslenskir skattgreiðendur beri tjón af viðskiptum einkaaðila erlendis, umfram það, sem kveðið er skýrt á um í lögum og alþjóðasamningum. Icesave-reikningarnir voru aðeins með þeirri ríkisábyrgð, sem allir slíkir reikningar nutu á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt lögum og reglum: Að baki þeim stóð Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta. Hvers vegna mátti ekki reyna á þetta atriði fyrir dómstólum? Auk þess áttu Bretar með fautaskap sínum drjúgan þátt í hruni íslensku bankanna. Mikill munur var á framkomu þeirra við Bandaríkjamenn vegna bandaríska fyrirtækisins Lehman Brothers og við okkur vegna íslenskra banka.

Viðbrögð erlendis við synjun forsetans sýna þó, að íslenska vinstristjórnin hefur vanrækt stórkostlega að kynna málstað Íslands. Fáir útlendingar átta sig á eðli málsins. Þetta er ekki að furða, þegar forsætisráðherrann er mannafæla, sem kann ekki erlend mál og forðast að hitta erlenda frammámenn. (Þeir virða hana raunar ekki heldur viðlits, eins og undirtektir Breta og Hollendinga undir bréf hennar sýna.) Vinstristjórnin á að hætta að flytja sjónarmið Breta og Hollendinga hérlendis og kynna þess í stað sjónarmið Íslendinga erlendis.


Hættan af hryðjuverkum

Mörgum Íslendingum fer nú eins og séra Ólafi Ólafssyni fríkirkjupresti daginn fyrir þingkosningar á Íslandi 1911, þegar hann sagði: „Allur hinn menntaði heimur stendur á öndinni!“ Þeir halda, að það, sem gerist á Íslandi, skipti eitt máli. Tvær ískyggilegar fréttir berast hins vegar utan úr heimi, sem við ættum að láta okkur varða, en ég hef séð lítið sem ekkert bloggað um.

Í fyrsta lagi reyndi ungur, nígerískur öfga-múslimi á jóladag að sprengja í loft upp farþegaþotu frá Delta, skömmu áður en hún átti að lenda í Detroit. Þessi maður hafði keypt sér farseðil aðra leiðina með reiðufé. Faðir hans hafði varað bandaríska sendiráðið í Nígeríu við því, að hann væri orðinn öfga-múslimi. Óskiljanlegt er, hvernig maðurinn komst um borð, og ólíklegt, að hann hafi verið einn að verki. Hér skall hurð nærri hælum.

Því miður munu bandarísk stjórnvöld eftir þetta herða eftirlit með öllum flugfarþegum og auka þannig enn á óþægindi venjulegra borgara af því að fljúga. Hvers vegna geta þeir ekki einbeitt sér að körlum á aldrinum 18–30 ára, sem fæddir eru í múslimaríkjum og að öðru leyti grunsamlegir? Nú er stranglega bannað að beina öryggisgæslu að einstökum hópum (profiling), svo að gamlar, góðlegar konur á leið til barnabarnanna sæta sömu leit og menn úr þessum hópi.

Í öðru lagi reyndi ungur öfga-múslimi frá Sómalíu að kvöldi nýársdags að drepa Kurt Westergaard teiknara, sem hefur dregið upp skopmyndir af Múhameð spámanni, en þær hafa reitt öfga-múslima til reiði. Særðist tilræðismaðurinn í átökum við lögreglu.

Það er auðvitað óþolandi, að gestir í Evrópu, sem koma þangað í leit að betri kjörum og fleiri tækifærum, reyni að neyða ófrelsi sínu og öfgaskoðunum upp á gestgjafa sína, eins og sumir múslimar gera. Slíkt fólk er best komið heima hjá sér, þótt auðvitað sé allt gott fólk velkomið til Evrópu óháð hörundslit eða trú. Eftir landssið skulu lifa þegnar, segir í íslenskum málshætti. Um þetta eru jafnólík bókmenntaverk og Leigjandinn eftir Svövu Jakobsdóttur og Biedermann og brennuvargarnir eftir Max Frisch.

Vestrænar þjóðir hljóta að standa saman gegn öfga-múslimum, en láta Bandaríkjamenn ekki eina halda uppi öryggiseftirliti og Dani gæta tjáningarfrelsis. Hér á við gamla vígorðið úr Skyttunum: Allir fyrir einn og einn fyrir alla!


Þeirra eigin orð

n82955606424_2614602_5997.jpgLítil bók, en afar fróðleg, kom út fyrir jólin, Þeirra eigin orð í samantekt Óla Björns Kárasonar blaðamanns. Þar hefur Óli Björn tekið saman ummæli ýmissa manna síðustu árin fyrir hrun og í því sjálfu. Rifjast þá margt upp:
  • Samfylkingin barðist harðast flokka fyrir hagsmunum auðjöfranna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi vænlegast í baráttunni fyrir kosningarnar 2003 að halda Borgarnesræðuna illræmdu 9. febrúar 2003, og eru birtir kaflar úr henni í bókinni. Þar efaðist hún um, að lögreglan starfaði af heilindum að rannsókn á auðjöfrum; hún gengi ef til vill of hart fram til að þóknast Davíð Oddssyni forsætisráðherra.
  • Samfylkingin (eða að minnsta kosti einstakir þingmenn hennar, til dæmis Sighvatur Björgvinsson, Ágúst Einarsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir) gerðu 1999 hróp að Davíð Oddssyni forsætisráðherra fyrir hugmynd hans um dreifða eignaraðild að bönkum. Hann vildi að sögn þeirra aðeins koma í veg fyrir, að rangir menn keyptu bankana. Eru ummæli Samfylkingarfólksins hin athyglisverðustu.
  • Ólafur Ragnar Grímsson hafði sem þingmaður 13. febrúar 1995 sérstaklega beðið um löggjöf til tryggingar dreifðu eignarhaldi á fjölmiðlum, eins og fram kemur í bókinni. Sami maður synjaði sumarið 2004 lögum, sem miðuðu að slíku dreifðu eignarhaldi, staðfestingar, enda var hann þá kominn í tengsl við helstu auðjöfra landsins.
  • Ræður Ólafs Ragnars til stuðnings útrásinni eru svo ótrúlegar, skrifaðar í svo fáránlegum ungmennafélagsstíl, að stundum heldur lesandinn, að um skopstælingar sé að ræða. Ég velti fyrir mér, hvað Þórbergur hefði sagt um stíl Ólafs Ragnars.
  • Ein furðulegustu ummælin, sem höfð eru eftir í Þeirra eigin orð, eru í eins konar opnu bréfi til annars Baugsfeðga, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í Morgunblaðinu 18. september 2006 frá einum starfsmanni hans, fréttamanninum Róbert Marshall, sem lýkur svo: „Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur.“

Þegar ég skrifa þetta, hef ég aðeins lesið þriðjung þessarar litlu bókar!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband